Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hringrásargarður í Helguvík umhverfisvænn kostur
Þriðjudagur 10. maí 2022 kl. 18:28

Hringrásargarður í Helguvík umhverfisvænn kostur

Grundvöllur fyrir fjölbreyttu atvinnulífi í Reykjanesbæ, með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi..

Hugmyndafræðin á bak við Græna iðngarða eða hringrásargarð, eins og við höfum kosið að kalla slíkan iðngarð í Helguvík, byggist á því að landssvæði sé skilgreint undir atvinnustarfsemi þar sem samstarfsnet fyrirtækja leitast við að nýta afurðir sem falla til hjá öðrum fyrirtækjum innan hringrásargarðsins, hrat eins fyrirtækis getur nýst sem auðlind annars. Hringrás sem þessa sjáum við til að mynda á Reykjanesi þar sem fyrirtæki í landeldi nýta heitt vatn frá HS Orku í sína framleiðslu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grundvöllur fyrir aukinni nýtingu auðlinda er að takmarka sóun eins og unnt er. Til að það geti orðið að veruleika er samstarf fjölbreyttra fyrirtækja nauðsynlegt. Fyrirtækin innan hringrásargarðsins deila, selja og/eða kaupa hliðarafurðir sem falla til við starfsemi innan hringrásargarðsins sem yrðu að öðru leiti fargað með tilheyrandi sóun, mengun og kostnaði. Samlegðaráhrif og samstarf slíks klasa leiðir til betri nýtingar auðlinda og eykur árangur samfélagsins okkar í umhverfis-, efnahags og félagslegum málum. Fyrirtæki innan hringrásargarðs geta náð samkeppnisforskoti með skiptum á efnum, orku, vatni og hliðarafurðum og stuðlað þannig að aukinni nýsköpun og þróun.

Þann 16. júní 2021 undirrituðu fjöldi fyrirtækja viljayfirlýsingu um að vera þátttakendur í mótun og þróum hringrásargarðs á Suðurnesjum með staðsetningu vinnustöðva og eða tengingu við virðiskeðju fyrirtækjanna.

Engin takmörk eru fyrir atvinnustarfsemi fyrirtækja sem geta rúmast innan grænna iðngarða svo fremi sem starfsemi þeirra falli að þeirri hugmyndafræði sem byggt er á. Í því samhengi má nefna fjölbreytta starfsemi þeirra fyrirtækja sem nú þegar hafa lýst vilja sínum í mótun og þróun hringrásargarðs; matvælaframleiðsla, orkuframleiðsla, sementsvinnsla, úrgangsmeðhöndlun, plastendurvinnsla, kolefnisföngun og vinnsla, byggingaiðnaður, samgöngur, vetnisframleiðsla og atvinnuþróun.

Við í Framsókn viljum efla og uppfæra Kölku til að geta skapað afurðir á borð við varmaorku, flugösku, botnösku og koltvísýring sem önnur fyrirtæki geta nýtt í sinni starfsemi. Kalka mun þá vera ein af grunnstoðum Hringrásargarðsins.

Hringrásargarður í Helguvík mun efla atvinnulífið og auka fjölbreytileika þess, stuðla að nýsköpun og kalla eftir fjölda starfsfólks með víðtæka þekkingu og menntun.

Hugmyndin vinnur í takt við heimsmarkmiðin og hringrásarhagkerfið á öllum sviðum og er iðnaðar og hafnarsvæðið í Helguvík talin kjörin staðsetning fyrir slíkan garð.

Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar,
3. sæti B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitastjórnarkosningar- 14. maí næstkomandi.