Hreppapólitík eða hagsmunir íbúa?
Mig hefur lengi langað að setja á blað reynslu mína af HSS. Nú hef ég verið íbúi Reykjanesbæjar frá árinu 2008 og verð að segja að heilsugæslan hér er einhver sú lakasta sem ég hef kynnst. HSS er fjársvelt stofnun, um það þarf ekki að deila, sem á erfitt með að sinna þeirri þjónustu við íbúa Suðurnesja sem ætti að vera sjálfsögð. Og nú vill HSS bæta við sig verkefnum. Væri ekki réttara að reyna að reyna að bæta þann rekstur sem er fyrir á þeirra höndum?
Með aðkomu Hrafnistu að rekstri Nesvalla get ég ekki séð að verið sé að færa störf úr bænum, heldur sé aðeins verið að færa stjórnunina í hendurnar á færari aðilanum, aðila sem er sérhæfður í rekstri öldrunarheimila. Það mun skila sér í betri ummönnun til íbúa Nesvalla og ættu hagsmunir þeirra að vera hafðir að leiðarljósi en ekki einhver hreppapólitík. Ætli meginþorri starfsfólks Nesvalla verði ekki fólk af Suðurnesjum? Ekki tel ég að starfsfólk verði flutt í stórum stíl af höfuðborgarsvæðinu til að vinna við ummönnun hér í bæ. Nema upp komi sú staða að fært fólk sé ekki til staðar hér, og er þá ekki hagsmunum íbúa Nesjavalla betur borgið með utanaðkomandi fagfólki? Talandi um það, eru allir læknar og stjórnendur HSS íbúar Reykjansebæjar?
Falskt öryggi
Á þessum rúmlega fimm árum sem ég hef búið hér hef ég í tvígang þurft að leita til HSS með alvarleg tilfelli. Og þjónusta brást hrapalega í bæði skiptin. Fyrst með dóttur mína, þá tveggja og hálfs árs, með asmakast. Við komum í móttöku HSS á sunnudegi rétt eftir lokun fyrri læknavaktar. Tímasetningin hentaði illa, það fengum við að heyra, nýbúið að loka læknavaktinni. En barnið var að berjast við að ná andanum svo ég heimtaði að hún fengi læknisþjónustu. Þá var okkur boðið að bíða. Og við biðum. Eftir hálftíma bið var mér tjáð í óspurðum fréttum að læknirinn væri alveg að koma, hann væri að ljúka stofugangi (það var mikilvægara en að sinna barni í öndunarerfiðleikum). Ekkert bólaði á neinum lækni og þegar biðin var orðin á annan klukkutíma fauk í mig og ég fór með dóttur mína út í bíl, við ókum í bæinn á læknavaktina í Kópavogi. Þar mætti okkur annað viðmót en hér heima. Stelpan var tekin beint inn til læknis, ákvörðun móttökunnar var að þetta tilfelli mætti ekki bíða. Læknir leit á stúlkuna og sagðist ekki ætla að tefja okkur, hún ætti að fara beint niðrá barnaspítala - koma hennar yrði undirbúin. Eftir að hafa tafist í rúman klukkutíma á biðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja leið innan við klukkutími þar til dóttir mín komin í sjúkrarúm og farin að fá tilhlýðilega meðferð, og þar var henni haldið yfir nótt.
Hitt alvarlega tilfellið snertir mig sjálfan. Þá kom ég á föstudegi á læknavaktina eftir að hafa fengið skyndilega 40 stiga hita og alversta höfuðverk sem ég hef nokkurn tíma fengið. Það tók ekki langan tíma að greina mig með innflúensu. Á laugardag var ég öllu verri og fór aftur á vaktina, í þetta skiptið var ég greindur með mígreniskast og fékk sprautu. Á sunnudag var ég ekkert skárri, og loks í þriðju atrennu var farið að skoða málið alvarlega og ég boðaður í myndatöku morguninn eftir.
Þegar búið var að mynda mig kom í ljós að mér hafði blætt inná heila og í hádegi mánudags var mér tilkynnt um það. Einnig var mér tjáð að sennilega væri þetta ekki alvarlegt en það þyrfti að skoða myndirnar betur síðan yrði haft samband við mig. Og ég og fjölskylda mín biðum. Það getur nú varla talist eðlilegt að svona blæðing eigi sér stað hjá manni um fertugt í líkamlega ágætu ástandi. En við biðum allan mánudaginn og heyrðum ekkert. Við biðum allan þriðjudaginn, engar fréttir. Um kvöldmatarleytið þann daginn náði ég samband við heimilislækninn minn í Reykjavík sem trúði mér ekki þegar ég lýsti framvindu mála. Hann hafði svo samband við HSS morguninn eftir.
Klukkan níu á miðvikudagsmorgni hafði heimilislæknirinn samband við mig, og sagði beint út: „Ég veit ekki eftir hverju er verið að bíða þarna, nú ferð þú beint inní Domus Medica í rannsóknir.“
Þegar þeim var lokið hringdi læknir frá HSS og vildi boða mig í frekari myndatökur, tveimur sólarhringum eftir að hann kynnti mér það að heilablæðing hefði átt sér stað. Þetta getur nú varla talist eðlileg þjónusta.
Á jákvæðu nótunum
Ekki er nú allt neikvætt við HSS. Jólin 2011 ól unnusta mín okkur son á fæðingardeild HSS. Lengi vorum við tvístígandi hvort við ættum að fara í bæinn þegar kallið kæmi eða fæða hér í Reykjanesbæ. Mestu áhyggjurnar sem við höfðum var að hafa ekki aðgang að skurðstofum ef eitthvað kæmi uppá, á móti kom yndislegt starfsfólk sem hafði sinnt mæðraverndinni og hafði það loks yfirhöndina. Andrúmsloftið á fæðingardeildinni var gott og minningin um þennan tíma er dásamleg. Þetta var fæðing fjórða barnsins míns og sú alþægilegasta umgjörð sem ég hef orðið vitni að, þökk sé ljósmæðrum HSS. Það vantar ekki að margt gott fólk starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þeim er of þröngt sniðinn stakkurinn.
Hverjar eru hætturnar?
Hættan á því að fjársvelt ríkisstofnun eins og HSS taki að sér svona rekstur er sú að með tilfærslu á fé sem ætti að fara í rekstur öldrunarheimilis fari í að rétta af rekstur spítalans. Við þekkjum það vel úr ríkisrekstrinum að skattpeningarnir okkar fara ekki alltaf í þá málaflokka sem þeir eru eyrnamerktir. Reyndar set ég spurningarmerki við að Reykjanesbær sé tilbúinn að greiða Hrafnistu með verkinu verði taprekstur á því. Hversu líklegt er að halli verði á rekstrinum á þeim forsendum?
Umhugsunarvert
Það kemur að því að maður eldist og þarf að spyrja sig einfaldra spurninga: „Hvernig vil ég eyða efri árunum? Vil ég búa á stofnun eða heimili?“ Mitt svar er einfalt, en þitt?
Ég vona að Reykjanesbær láti fagmennsku ráða í þessu máli - frekar en framapot stjórnmálamanna.
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
tilvonandi gamalmenni í Reykjanesbæ