How do you like Iceland?
— hvar liggur lykillinn að jákvæðri framtíðarsýn í ferðaþjónustu?
Túristaflóðið er komið á mjög gott skrið á Íslandi og við höfum öll tekið eftir því. Á venjulegum þriðjudegi aðstoða ég ferðamenn í búðinni við að finna hreina jógúrt, sýrður rjómi er ekki það sama. Einn föstudaginn þegar ég kem út úr ónefndum stórmarkaði sé ég fjölskyldu frá Frakklandi smakka íslenskan lakkrís og gretta sig, sammála um að hann sé ógeðslegur, sem er mér auðvitað óskiljanlegt. Þegar ég dæli bensíni í Njarðvík keyrir upp að mér bíll með tveimur stelpum og Google maps, „komumst við á Selfoss ef við fylgjum þessum vegi?“ Á leið minni um þjóðveg eitt þarf ég að snarhemla þegar bílaleigubíllinn fyrir framan mig stöðvar á miðjum veginum og börnin mín heyra mig bölva túristum, allt fór sem betur fer vel.
Þessar sögur og margar aðrar fljúga svo í fjölskylduboðunum og á kaffistofunni með tilheyrandi viðbrögðum. Oft fylgir fliss en oftar undrun yfir þessum nýja veruleika og svo verða sögurnar jafnvel alvarlegri þegar um ræðir gistirými í íbúðarhverfi, okurverð á íslenskum vörum, vatn á plastflöskum og þar fram eftir götunum. Þetta eru mögulega ósköp eðlileg fyrstu viðbrögð við breytingum á okkar daglegu venjum þegar höfðatalan hækkar umtalsvert og við þurfum að bíða í röð í búðinni, sundlauginni eða deila friðsamri fjörunni með myndavélaóðum mannfjöldanum. Okkur stendur heldur ekki á sama ef umferðaröryggi er ábótavant.
Þá kemur að ábyrgð okkar á upplýsingaflæði og aðgengi að öryggisatriðum fyrir ferðamenn sem hingað sækja. Þeir sem heimsækja okkur gera það af áhuga og oft ævintýramennsku. Þeir eru í nýjum aðstæðum eins og við, koma með væntingar og þurfa á sama hátt og við heimafólkið að takast á við mannfjöldann, telja upp á tíu í biðröðinni svo ekki sé minnst á stressið sem getur myndast þegar fjölskyldan er villt, allir svangir og bíllinn farinn að þrengja verulega að. Við höfum öll verið þarna.
Það er auðvelt að hrista hausinn og röfla yfir „þessum túristum“ alls staðar sem enginn friður er fyrir en það er enn auðveldara að veita hjálparhönd og óska svo góðrar ferðar. Svo er gott að hafa hugfast að mögulega er raunveruleikinn ekki alveg svona svart hvítur og þó við verðum vör við fjöldann þá er landið ekki eins þétt umsetið og við höldum, við gætum mögulega notið góðs af því og kynnst landinu með nýjum hætti. Þegar allt kemur til alls er lykilatriðið að við búum land og þjóð vel undir flóðið og vinnum saman að því að halda sem best utan um það hvernig er staðið að þjónustu og uppbyggingu.
Í ítarlegum Kastljós þætti um ferðaþjónustuna var fjallað um mikilvægi menntunar innan ferðaþjónustunnar og hvernig mætti skapa samspil okkar heimamanna við gesti okkar. Stjórnstöð ferðamála hefur unnið skýrslu um framtíð ferðaþjónustunnar en þar eru settar fram sviðsmyndir og vakin athygli á því sem þörf er á að huga að. Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastjóri ræddi þar m.a. um mannauðinn sem starfar innan atvinnugreinarinnar en hann er gríðarlega mikilvægur hlekkur. Við þurfum að efla fagmennsku og styrkja starfsgreinina með aukinni menntun og utanumhaldi, það skiptir máli fyrir framtíðina.
Þessa dagana er Leiðsögunám hjá MSS að leggja úr vör, námið veitir rétt til inngöngu í félag leiðsögumanna og byggir á sérhæfingu í leiðsögn á Reykjanesinu. Vegna forfalla getum við enn bætt í flottan hóp nemenda og þú getur orðið hluti af framtíðarsýn jákvæðrar ferðaþjónustu.
Særún Rósa Ástþórsdóttir
Verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum