Horfum út fyrir 101
Áhugaverðar fréttir birtust í vikunni um stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands. Setja á upp tungumálasetur á Íslandi og fyrir dyrum stendur að hanna nýja byggingu sem á að hýsa stofnunina. Í fréttum var greint frá því að byggingin ætti að kosta 1.400 milljónir króna! Þarna hugsaði ég, er ekki hægt að finna ódýrari leiðir í þessu máli. Er ekki til húsnæði í landinu sem gæti hýst tungumálasetur Vigdísar Finnbogadóttur?
Húsnæðið er til og það er á Suðurnesjum. Á Ásbrú í Reykjanesbæ er til staðar húsnæði sem vel gæti verið heimili tungumálasetursins. Hér er ég að tala um gömlu kirkjuna á Ásbrú sem síðast hýsti Keili áður en hann flutti yfir götuna í núverandi húsnæði. Gamla kirkjan er í eigu Þjóðkirkjunnar og húsið hefur verið auglýst til sölu. Þarna hafði kirkjan hugmyndir um alþjóðlegt trúarbragðasetur, hugmynd sem því miður náði ekki fram að ganga. Keilir leigði svo húsið af Þjóðkirkjunni og Keilir steig sín fyrstu skref í húsinu. Þeir sem þangað komu sögðu að það væri góður andi í húsinu.
Ætli stofnun Vigdísar Finnbogadóttur gæti ekki fengið húsið fyrir um eitthundrað milljónir króna. Þá eru eftir 1.300 milljónir til að byggja upp innviði setursins. Því miður verður ekki hlustað á þessa hugmynd því það er svo ríkt í háskólasamfélaginu að horfa ekki út fyrir 101 Reykjavík.
Eftir að hafa lesið yfir samþykktir um nýju tungumálastofnunina þá stendur ekkert þar sem mælir á móti því að stofnunin gæti verið til húsa í menntasamfélaginu á Ásbrú og væri mikill styrkur fyrir samfélagið hér Suður með sjó að fá þessa stofnun hingað með sína sérfræðinga. Það er þekking til staðar á Ásbrú til að gera hlutina ódýrari og það ætti að vera kappsmál hjá þessari nýju stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að hugsa frekar um innviðina frekar en steinsteypu og gler fyrir 1.400 milljónir króna.