Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 28. nóvember 2002 kl. 13:09

Hörð gagnrýni á störf kjörnefndar

Valþór Söring Jónsson er varamaður í kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og á borgarafundi sem haldinn var í gærkvöldi til stuðnings Kristjáni Pálssyni komu fram harðar ásakanir á störf kjörnefndar. Í samtali við Víkurfréttir sagði Valþór að hann teldi það augljóst að rangt væri gefið í tillögu kjörnefndar: „Vinnulagið og vinnureglurnar hjá kjörnefnd virðast ekki standast. Ég vil ekki kalla þetta samsæri hjá kjörnefnd, en það er vissulega ólykt af þessu öllu saman. Mig grunar að einstakir menn innan kjörnefndarinnar vinni beint gegn Kristjáni.“Á borgarafundinum í gærkvöldi kom fram gagnrýni á það að Guðjón Hjörleifsson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum hefði setið í kjörnefnd, en síðan sagt sig úr henni og verið stillt upp í þriðja sæti í kjölfarið. Valþór segir að þetta mál sé á mjög gráu svæði: „Mér finnst það óeðlilegt að maður sem tók þátt í vinnu við að setja fólk á lista, skuli svo sjálfur vera kominn á listann.“

Eini fundur kjörnefndar sem Valþór hefur mætt á sem varamaður er fundurinn sem haldinn var í Þorlákshöfn um liðna helgi en þar kom það í ljós að Kristján yrði ekki settur á lista: „Á þessum fundi kom það fram að ekki væri gert ráð fyrir Kristjáni á listann. Ég óskaði eftir því að Kristján yrði strax látinn vita af því að hann væri ekki á listanum og ég fékk stuðning við það. Ég skynjaði það þannig að það ætti ekki að láta hann vita fyrr en rétt fyrir kjördæmisfundinn sem haldinn verður á laugardaginn og það er rakalaus ósvífni. En af því að við kröfðumst þess að hann yrði látinn vita strax, þá var það gert.“

Valþór segir að þegar hann líti yfir málið í heild sinni standi menn í mjög erfiðum sporum: „Það er kjörnefndarfundur í kvöld og það eina rétta í stöðunni er að taka málið upp aftur. Það þarf að rýna aðeins í spilin upp á nýtt og meta stöðuna. Það er ekki hægt að fara með óbreytta tillögu fyrir fundinn á laugardaginn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024