Höldum okkur við málefnin
Grein birtist í Víkurfréttum eftir Guðmund Bragason þar sem gagnrýnt er að oddviti Framsóknar og faðir hennar sem er formaður UMFG séu ekki sömu skoðunar og Guðmundur varðandi byggingu nýs íþróttahúss.
Þar er gefið í skyn að ástæðan fyrir andstöðu þeirra flokka sem nú eru í meirihluta sé málflutningur þeirra tveggja. Ég spyr, er það andstaða að vilja skoða málið betur og greina nákvæmlega kostnað á báða möguleika áður en loforð eru gefin og leyfa fleiri bæjarbúum að hafa skoðun á málinu?
Guðmundur hefur hingað til verið mjög málefnalegur í sinni baráttu og hefur honum orðið vel ágengt. Einn stjórnmálaflokkur hefur tekið upp hans hugmyndir óbreyttar og gert að sínum í kosningaloforði, á meðan aðrir flokkar hafa lýst sig reiðubúna til þess að skoða alla möguleika. Ég veit ekki á hvaða grundvelli flokkarnir mótuðu sína stefnu enda tók ég aðeins þátt í að móta stefnu Framsóknar.
Stefna Framsóknar í þessu máli sem birt var á heimasíðu flokksins í síðustu viku og hefur verið dreift í hús er að málið eigi að fara í íbúakosningu. Stefna flokksins var mótuð fyrst á íbúafundi og í framhaldinu var hópur fólks sem vann stefnuna áfram og að lokum var stefnan tekin fyrir á opnum félagsfundi Framsóknar og samþykkt. Þar var ítarlega farið yfir tillögur Guðmundar sem og tillögur um stækkun eldra hússins og félagsmenn tóku ákvörðun um stefnu flokksins í málinu. Niðurstaðan var sú að hafa íbúakosningu að undangenginni ítarlegri kostnaðargreiningu svo og greiningu á kostum og göllum beggja tillagna. Þannig er hægt að gefa íbúum Grindavíkur kost á að ráða hvort farið verði í stækkun á núverandi húsnæði eða byggt nýtt hús.
Þannig eru allir flokkar búnir að opna á það að halda áfram þessari umræðu um hvort stækka eigi íþróttahúsið eða byggja nýtt. Á sama tíma og stjórnmálaflokkar hafa opnað á það að skoða málið áfram og tveir stjórnmálaflokkar hafa lagt til íbúakosningu um málið þá hefur körfuknattleiksdeildin sent út yfirlýsingu þar sem fram kemur að deildin hafnar þeirri hugmynd að bygging íþróttasala fari í íbúakosningu. Í ljósi þess að rök körfuknattleikshreyfingarinnar fyrir nýju húsi eru meðal annars að auka aðgengi almennings að íþróttasölum í Grindavík er þá ekki eðlilegt að almenningur fái einnig að taka þátt í þeirri ákvörðun? Við stjórnmálamenn viljum fá að heyra fleiri raddir úr samfélaginu en raddir háværra þrýstihópa.
Ég ber virðingu fyrir því að Guðmundur telur nýtt íþróttahús betri kost en stækkun á því gamla. Ég ber einnig virðingu fyrir því að hann hefur barist af ástríðu fyrir þeirri skoðun og fyrir vikið hafa allir stjórnmálaflokkar lagt til að skoða málið betur. En Guðmundur verður einnig að bera virðingu fyrir því að það eru ekki allir á sama máli og hann og öllum Grindvíkingum er heimilt að tjá sig. Það hlýtur að mega benda á kosti og galla í stöðunni. Í grein Guðmundar er gefið í skyn að bæjarfulltrúar séu óhæfir um sjálfstæða hugsun og hugmyndamótun. Slíkur málflutningur er honum ekki til sóma.
Ég er orðinn mjög þreyttur á þeim málflutningi forystumanna knattspyrnudeildar UMFG og nú körfuknattleiksdeildar að formaður UMFG Gunnlaugur Hreinsson í gegnum oddvita Framsóknar stjórni öllum ákvörðunum sem teknar eru í byggingarmálum á íþróttasvæðinu.
Það vill svo til að við erum þrjú frá Framsókn í bæjarstjórn, Bryndís er oddvitinn og teljum við okkur öll eiga talsverðan þátt í umdeildum ákvörðunum flokksins og vísum við dylgjum um annað til föðurhúsanna. Nú keyrir um þverbak þegar fullyrðingar um að formaður UMFG Gunnlaugur Hreinsson stjórni ekki aðeins okkur fulltrúum Framsóknar heldur fulltrúum tveggja annarra stjórnmálaflokka með öðrum orðum að hann stjórni sex bæjarfulltrúum af sjö. Mikil er trú Guðmundar Bragasonar á formanni UMFG. Höldum umræðunni í þessari kosningabaráttu á málefnalegum nótum en persónugerum hana ekki.
Lifið heil og eigið góðan sjómannadag!
Páll Jóhann Pálson,
Skipar þriðja sætið hjá Framsókn í Grindavík