Hljóp Skúli á sig?
Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar ég fletti Víkurfréttum fimmtudaginn 18. maí s.l. Þar var nokkuð ítarlegt viðtal við Skúla Þ. Skúlason, forseta bæjarstjórnar, ásamt mynd af honum á svonefndu neðra Nikkel-svæði. Einnig er á forsíðu blaðsins talað um „fyrirliggjandi samning“ og að bæjaryfirvöld leggi áherslu á að ganga frá leigusamningi sem fyrst.Fjölmiðlakapphlaup?Smeykur er ég um að nú hafi Skúli blessaður, forseti bæjarstjórnar, hlaupið á sig og sagt meira en hann getur staðið við.Ekki er mér kunnugt um að fyrir liggi leigusamningur vegna þessa svæðis. Það eina sem fyrir liggur er bréf dagsett 16. maí, sem barst bænum seinnipart þess dags og var lagt fram í bæjarráði morguninn eftir, miðvikudagsmorgun 17. maí, á fundi sem lauk kl. 8:15. Engar umræður urðu um bréfið enda var það bara afhent en lögð óvenjuleg áhersla á að samþykkja afbrigði til að bóka það inn á dagskrá, þrátt fyrir að það hafi ekki verið með í útsendum gögnum né á boðaðri dagskrá fundarins. Í sjálfu sér sá ég ekkert athugavert við það, því það er hagur okkar allra að fá svona bréf sem fyrst. Hins vegar skildi ég ástæðu þessa asa þegar ég sá Víkurfréttir daginn eftir. Þar hafði forseti bæjarstjórnar látið taka við sig viðtal með mynd af sér á umræddu svæði. Jafnframt komu fram villandi upplýsingar á forsíðu sem eflaust má rekja til þessara vinnubragða. Það er greinilegt að hér hefur meginkappið verið lagt á að komast fyrstur í blöðin en minni áhersla verið lögð á að kynna sér innihald bréfsins sem við fengum frá ráðuneytinu. Það er rétt að benda lesendum á að lokið er við umbrot blaðsins á miðvikudagsmorgnum og því þarf allt efni að vera komið inn í síðasta lagi á þriðjudagskvöldum samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk þegar ég óskaði eftir plássi fyrir þessa grein. Þannig að eftir að bréfið var kynnt í bæjarráði hefur allt kapp forseta bæjarstjórnar verið að uppvísa fjölmiðla og fara í viðtal áður en hann hefur gefið sér nægilegan tíma til að kynna sér innihald bréfsins.Bréf utanríkisráðuneytisinsÍ því bréfi sem um ræðir segir í inngangi: „Ráðuneytið býður hér með Reykjanesbæ landið á leigu með eftirfarandi kjörum.“ Þetta er fyrsta bréf af þessu tagi, innihald þessa boðs hefur ekkert verið rætt af bæjaryfirvöldum og samningaviðræður um þetta boð hafa ekki átt sér stað. Samt er talað um „fyrirliggjandi samning“ á forsíðu Víkurfrétta! Þá er lagt til í boði ráðuneytisins að „leigugjald miðist við 1,2% af fasteignamati allra lóða samkvæmt lóðasamningum.“ Sú leiga sem væntanlegir íbúar þessa svæðis eiga að greiða ríkinu á svo að renna í að greiða fyrir hreinsun svæðisins.Reykjanesbær á ekki að kosta hreinsunÞarna er horfið frá þeirri meginreglu að sá borgi sem mengi. Sá aðili sem haft hefur þetta land til umráða, á meðan mengunin á landinu hefur átt sér stað, er undanþeginn því að greiða fyrir skaðann. Væntanlegir íbúar eiga að greiða kostnaðinn með leigugjaldi sem ríkið leggur á þá. Vera má að utanríkisráðuneytið sé með þessu að gangast í ábyrgð fyrir herinn en þá hlýtur það að vera ráðuneytisins að leggja út fyrir þeim kostnaði sem af hreinsuninni hlýst. Það getur Reykjanesbær ekki. Hann á í nægum fjárhagskröggum fyrir, eins og þeir reikningar sem nú eru til umfjöllunar í bæjarstjórn, bera með sér. Það að bærinn leggi fram 62 milljónir vegna kostnaðar við hreinsunina er því með öllu óásættanlegt. Slæm fjármálastjórnÍ viðtalinu við Skúla forseta kemur eftirfarandi fram varðandi endurgreiðslur til bæjarins: „Eftir að svæðið hefur byggst upp, verður árlegt leigugjald til ríkisins rúmlega 2 millj. kr. sem renna uppí hreinsunarkostnaðinn.“ Auðvitað á maður ekki að búast við mikilli speki í fjármálum frá því fólki sem ábyrgt er fyrir gerð leigusamningsins vegna fótboltahússins, en óneitanlega fyllist maður skelfingu við að hugsa til þess að það verði sama fólkið sem mun ganga frá fjárhagslegu samkomulagi við utanríkisráðuneytið. Hvað reiknar þú Skúli t.d. með því að Reykjanesbær verði lengi að fá þessar 62 milljónir endurgreiddar með þessum hætti?Er verið að leyna einhverju?Er ekki eðlilegra að forseti bæjarstjórnar taki erindi utanríkisráðuneytisins fyrst fyrir í bæjarstjórn, síðan gætu viðræður um væntanlegan samning átt sér stað. Er svo ekki rétt að bíða með að tilkynna um gerð samnings þangað til komið er í ljós að ásættanleg niðurstaða fáist? Eða hafið þið, þú og flokksformaður þinn, sem er nú húsbóndi í utanríkisráðuneytinu e.t.v. þegar gert einhvern samning sem okkur í bæjarstjórninni er ekki kunnugt um?Jóhann Geirdal