Hljómahöllin – tónlistar- og menningarmiðstöð Reyknesinga
Undanfarin ár höfum við íbúar í Reykjanesbæ orðið varir við framkvæmdir og viðbyggingu við gamla góða Stapann í Njarðvík. Auk lagfæringa og endurbyggingar Stapans hefur stór viðbygging litið dagsins ljós sem m.a. mun hýsa Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hefur þessi nýja rúmlega 5000 m2 bygging verið nefnd Hljómahöllin og er henni ætlað að verða máttarstólpi í menningar- og mannlífi okkar Reyknesinga. Margháttuð starfsemi verður í húsinu en auk tónlistarinnar verður þar veitingarekstur, veisluþjónusta, funda- og ráðstefnuhald, tónlistarsafn, upptökustúdíó o.fl.
Endurbyggður Stapinn hefur nú verið opinn um nokkurt skeið en stefnt er að því að tónlistarskólinn flytji í nýtt húsnæði um áramótin og Hljómahöllin verði þar með komin í fulla starfsemi.
Þegar þetta er ritað er ráðning framkvæmdastjóra í fullum gangi hjá nýskipaðri stjórn Hljómahallar í samstarfi við ráðningarþjónustu Capacent. Framkvæmdastjórans bíða mörg spennandi verkefni m.a. að markaðssetja og kynna húsið með það að markmiði að glæða það lífi og auðga menningar- og mannlíf á svæðinu. Um leið má reikna með að fyrir marga þýði það bætt lífsskilyrði almennt enda gott menningar- og mannlíf einn af þeim þáttum sem mjög margir horfa til þegar þeir velja sér búsetu til framtíðar.
Það er von okkar sem að Reyknesingar taki Hljómahöllinni opnum örmum. Hver veit nema að beinar útsendingar RUV á fjölbreyttu skemmtiefni eigi eftir að gleðja landsmenn líkt og gert hefur verið úr menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þá er víst að nýtt og sérhannað húsnæði tónlistarskólans mun stórbæta alla aðstöðu nemenda og kennara sem mun skila sér í enn öflugra tónlistar- og mannlífi í framtíðinni.
f.h. stjórnar Hljómahallar,
Kjartan Már Kjartansson, formaður