Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 12. maí 2003 kl. 13:48

Hjálmar í heilbrigðisráðuneytið?

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, er orðaður við ráðherrastól í hugsanlegri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hjálmar er sagður vera heitur í stól heilbrigðisráðherra, að því er fram kom á Bylgjunni nú áðan.Þingflokkar Sjálfstæðismanna og Framsóknar funda í dag og er talið víst að samþykkt verði að hefja viðræður um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það stefnir í átök um ráðherraembætti í báðum flokkum. Framsóknarmenn virðast flestir vilja að Halldór Ásgrímsson verði forsætisráðherra.

Mikill áhugi er fyrir því innan Framsóknarflokksins að taka við menntamálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu. Enn fremur vilja Framsóknarmenn halda iðnaðarráðuneytinu, sagði þingmaður úr innsta hring við fréttastofu Bylgjunnar. Enn fremur myndi flokkurinn vilja auknar félagslegar áherslur, það væru þau skilaboð sem kjósendur hefðu sent þingmönnum. Þá verði að gera breytingar í sjávarútvegsmálum, það væri ekki hægt að búa við óbreytt ástand. Þau skilaboð hafi komið skýrt fram í kosningabaráttunni.
Það virðist sem komin sé upp svipuð staða og fyrir síðustu kosningar, þ.e. að reyndir þingmenn beggja flokka reyna að komast í ráðherrasæti.

Fjórir þingmenn úr Framsóknarflokki eru líklegir í embætti heilbrigðisráðherra, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Kristinn H. Gunnarsson og Magnús Stefánsson. Þá má búast við hrókeringum innan raða sjálfstæðismanna. Háværar raddir hafa heyrst innan Sjálfstæðisflokks um að taka við heilbrigðisráðuneytinu en það mætir mikilli andstöðu innan Framsóknarflokks.

Líklegt er að Björn Bjarnason, sem sagði af sér embætti menntamálaráðherra fyrir síðustu borgarstjórnarkosninga, geri aftur tilkall til ráðherrastóls. Þá má búast við því að Tómas Ingi Olrich vilji halda í menntamálaráðherrastólinn áfram. Mikið hefur mætt á Sturlu Böðvarssyni samgöngumálaráðherra undanfarin fjögur ár og kemur til greina að skipta þar út. Þá gætu útstrikanir sem Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra fékk í kosningunum haft einhver áhrif og veikt stöðu hennar.

Þingflokkur Framsóknarflokks kemur saman í alþingishúsinu klukkan þrjú í dag en sjálfstæðismenn funda klukkan fimm.
Líklegt er að stjórnarflokkarnir nái samkomulagi um myndun ríkisstjórnar, en Samfylking hefur þó boðið Framsóknarmönnum forsætisráðherraembætti í hugsanlegri ríkisstjórn. Kemur þá jafnvel til greina að taka Frjálslynda flokkinn inn í samstarfið, samkvæmt heimildum Bylgjunnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024