Hjalað í teboði
Þegar ég heyrði að til stæði að forsætisráðherra Davíð Oddsson færi til fundar við forseta Bandaríkjanna til að ræða m.a. og kannski fyrst og fremst, framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, taldi ég að nú myndi ljúka því langa tímabili óvissu sem um þetta málefni hefur ríkt allt of lengi.
Svör við spurningum þingmanna og sveitarstjórnarmanna um hvert stefndi í málefnum varnarliðsins hefur alltaf verið svarað að hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar á þann eina veg að ekkert væri að frétta, en um leið og næðist fundur við hina bandarísku ráðmenn myndu mál skýrast og óvissu létta. Þeir hafa líka sagt að á meðan ekki væri um viðræður að ræða, væri um óbreytt ástand að ræða í umfangi varnarliðsins og engar breytingar yrðu gerðar nema í fullu samráði við ríkisstjórn Íslands.
Við sem höfum fylgst með þróuninni upp á velli án þess að vera með einhver sérstök gleraugu á nefinu, gleraugu sem virðast þeirri náttúru gædd að engan sannleik megi sjá í gegnum þau, vitum að varnarliðið hefur dregið verulega úr starfssemi sinni með fylgjandi fækkun íslenskra starfsmanna. Við sjáum einnig að bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að draga úr starfsseminni með því að minnka fjárframlög til varnarstöðvarinnar og þannig náð niðurskurði þeim, sem þeir hafa ekki náð í viðræðum eða samningum við íslensk stjórnvöld.
Þetta virðast íslensk stjórnvöld láta sér nokkuð vel líka og ekki hafa mótmæli þeirra verið hávær, eða hafa þau talið nauðsynlegt að ræða neitt sérstaklega við aðila á Suðurnesjum um stöðu mála og framtíðarhorfur. Í framhaldi af því sem sagt hefur verið og gert, mátti búast við því að fundur æðstu ráðamanna Bandaríkjanna og Íslands myndi skila einhverjum árangri, í því að skýra mál og setja málefni Keflavíkurflugvallar í eitthvað formlegt ferli sem skilaði niðurstöðu innan skamms. Vonbrigðin voru því allnokkur þegar í ljós kemur að fundurinn skilar engum áþreifanlegum eða sjáanlegum árangri og óvissan enn sú sama og áður, eða jafnvel hálfu verri þar sem nú hefur þó verið haldinn langþráður fundur sem vonir höfðu verið bundnar við.
Þeir sem hafa misst störf sín á Keflavíkurflugvelli á undangengnum misserum og einnig þeir sem bíða milli vonar og ótta um framtíð starfa sinna fyrir Varnarliðið lifa ekki lengi á því að Bush hafi jú skilið það sem Davíð Oddsson sagði við hann og myndi kynna sér málið. Hvað er þá að marka það sem við okkur hefur áður verið sagt; að málið hafi verið á borði bandaríkjaforseta og þaðan myndi koma einhver niðurstaða? Hefur málið þá bara legið á borði hans án þess að hann hafi kynnt sér það á nokkurn hátt? Sú staðreynd að bandarísk stjórnvöld vildu að íslendingar tækju meiri þátt í rekstri flugvallarins eru ekki ný tíðindi og sú krafa legið fyrir lengi. Það er mál til komið að íslenskir ráðamenn hristi af sér slenið og setjist að raunverulegu samningaborði við Bandaríkin um framtíð varnarliðsins. Á sama tíma verði sett í gang samráð við heimamenn um hvernig skuli brugðist við þeim samdrætti sem orðinn er og þeim samdrætti sem vænta má. Fundur Bush og Davíðs sýnir okkur svo ekki verður um villst að það er ekkert bitastætt að gerast í málinu og að óbreyttu haldi störfum á flugvellinum áfram að fækka án þess að nein viðbragðsáætlun sé fyrir hendi.
Nú hljóta þó utanríkisráðherra og forsætisráðherra að svara ítrekaðri beiðni stjórnar Sambands Sveitarfélag á Suðurnesjum um fund um málefni Keflavíkurflugvallar. Geri þeir það ekki hlýtur að vera hægt að álykta sem svo að það sé ekkert að frétta og teboðið hafi engum árangri skilað.
Jón Gunnarsson
Þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi