Hikum ekki í Helguvík
– Einar Þ Magnússon
Helsta barátta síðustu ára hefur verið að styrkja stoðir atvinnulífsins. Í kjölfar brotthvarfs Varnarliðsins og efnahagshruns jókst atvinnuleysi verulega. Þrátt fyrir mikinn árangur er enn verk að vinna og mikilvægt að gefa hvergi eftir í baráttunni fyrir betur launuðum störfum.
Hvaða framboð styðja uppbyggingu í Helguvík?
Á síðustu dögum hafa frambjóðendur allra flokka farið víða og rætt við marga. Ég veit til þess að margir þessara aðila hafa verið spurðir um afstöðu þeirra til uppbyggingar iðnaðar í Helguvík. Svörin eru bæði misjöfn og óljós. Hikandi segjast frambjóðendur flestra þessara framboða styðja uppbyggingu í Helguvík með ákveðnum skilyrðum en fyrst þurfi að fara í íbúakosningar, nýtt umhverfismat, heildstætt umhverfismat, betri greiningar eða frekari rannsóknir á þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er. Að mínu mati eru slík svör aðeins leið til að segja: “Við styðjum ekki uppbygginguna í Helguvík.”
Allar kröfur eru uppfylltar
Af þeim fyrirtækjum sem nú undirbúa starfsemi sína eru mörg þeirra með svo hreina framleiðslu að ekki er sérstök þörf á að skoða þau gagnvart mengun eða útblæstri. Önnur, svo sem álverið og kísilverin, hafa nú þegar farið í gegnum umhverfismat og fengið samþykki fyrir starfsemi sinni enda munu þau uppfylla allar kröfur um mengunavarnir sem þeim eru settar. Að sjálfsögðu kemur ekki til greina að leyfa fyrirtækjum að setja upp starfsemi sem mengar umhverfi eða loftgæði íbúa Reykjanesbæjar.
Að hika er að tapa
Í meira en áratug hefur Reykjaneshöfn undir forystu Sjálfstæðisflokksins unnið að uppbyggingu í Helguvík. Nokkur verkefni hafa farið af stað sem ekki gengu eftir. Þrátt fyrir það hefur ekki komið til greina að gefast upp. Nú í dag eru átta stór verkefni í undirbúningi í Helguvík. Ég hef sem formaður atvinnu- og hafnaráðs fylgst með framgangi þessara verkefna og er algjörlega sannfærður um að við munum sjá merki þess að einhver þeirra verði að veruleika strax á þessu ári. Til þess þarf hins vegar skýran og einbeittan vilja bæjaryfirvalda á uppbyggingu þeirra verkefna sem þar hyggjast setja niður starfsemi sína. Að hika í þessu sambandi er það sama og tapa. Óljós vilji, hik og tafir eru einfaldlega ekki valkostur þegar búið er að fara í gegnum alla viðeigandi ferla varðandi heilbrigðis-, umhverfis- og skipulagsmál.
Ég hef undanfarin ár barist fyrir betra og fjölbreyttara atvinnulífi og hefur margt áunnist í því sambandi á síðasta kjörtímabili. Við megum hins vegar ekki gefa eftir. Eina örugga leiðin til að tryggja stuðning við framkvæmdir í Helguvík er að tryggja Sjálfstæðisflokknum góða kosningu þann 31.maí n.k. Ég hvet íbúa Reykjanesbæjar til þess að setja X við D.
Einar Þ Magnússon,
formaður atvinnu- og hafnaráðs og bæjarfulltrúi