Helstu atriði úr Reykjanesbæjarræðu forsætisráðherra
Í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, á fundi flokksstjórnar í Reykjanesbæ í dag, 21. nóvember 2009, var víða komið við. Meðal atriði sem drepið var á voru eftirtalin áherslumál:
Stórframkvæmdir á réttum tíma
„Ég er sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda fyrir þróun orkuháðs iðnaðar á þessu svæði, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir við hana geti hafist á næsta sumri. Forráðamenn Norðuráls segja nú að framkvæmdir við álver í Helguvík fari á fullt í vor og það mun skapa mikla atvinnu. Ég hef einnig góðar vonir um að vinna við Búðarhálsvirkjun hefjist með vorinu en orku frá henni verður að verulegu leyti ráðstafað til endurnýjaðs álvers í Straumsvík. Við erum hér að tala um ársverk í þúsundum meðan á þessum framkvæmdum stendur.
Allar horfur eru einnig á því að Rio Tinto Alcan hefji innan tíðar tveggja ára verkefni við endurnýjun rafbúnaðar í álverinu í Straumsvík sem skapa mun 600 ársverk meðan á því stendur. Endurnýjunin mun festa framleiðsluaukningu í álverinu og starfsemi þess í sessi næstu áratugi. Í gær ritaði svo Orkuveita Reykjavíkur undir lánasamning við Evrópska fjárfestingarbankann sem tryggir vinnu við 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar og við gerð Hverahlíðarvirkjunar. Ég gæti trúað að hagfræðingar segðu að þessar framkvæmdir komi á hárréttum tíma í niðursveiflu hagkerfisins.“
Atvinnumálin aðalmál sveitarstjórnarkosninga
„Um þessar mundir eru flokksfélög okkar að búa sig undir þátttöku í sveitarstjórnarkosningum. Inn í það ferli þarf flokkurinn að koma sterkur á landsvísu með sameiginlegar áherslur í atvinnumálum, sem verða aðalmál kosninganna, áherslur á lýðræðisumbætur í sveitarstjórnum og áherslur á flutning verkefna heim í hérað, svo sem málefni fatlaðra og aldraðra á árunum 2011 og 2012. Styrkari og breiðari tekjustofnar sveitarfélaga verða að styðja slíka þróun og að því máli og endurskoðun á hlutverki jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er unnið. Í þessu sambandi er vert að vekja sérstaka athygli á því að skattatillögur ríkisstjórnarinnar færa sveitarsjóðum og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga auknar tekjur. Þá hefur ríkisstjórnin í hyggju að bæta þeim kostnað sem hlýst af hækkun tryggingargjalds. Ég hef því góðar vonir um að ekki þurfi að koma til útsvarshækkana hjá sveitarfélögunum.“
Aðild að ESB framfaraskref fyrir byggðir landsins
„Hingað til hefur lítið verið gert hérlendis úr þeim möguleikum sem byggðir landsins eiga með aðild að Evrópusambandinu en þar er um að ræða tækifæri sem verðskuldar meiri athygli.
Við aðild Finna var sérstakt tillit tekið til þess hversu dreifbýlt landið var og fengu þeir hærri byggðastyrki fyrir vikið. Í Finnlandi búa að meðaltali 17 íbúar á hvern ferkílómetra, en aðeins 3 á ferkílómetra á Íslandi. Þarna hlýtur að vera samningsmöguleiki. Við höfum reynslu á þessum sviðum; okkar fólk á vísinda- og rannsóknasviðinu hefur sýnt áræði og er eftirsótt í samstarfsverkefnun í áætlunum ESB. Það verður ekkert öðru vísi í byggðamálunum. ESB aðild mun verða stórt framfaraskref fyrir hinar dreifðu byggðir landsins og skapa skilyrði til fjölbreyttara atvinnulífs en við höfum áður átt kost á um land allt.“
Heildarsýn á verkefni ríkisstjórnar
„Í fyrsta lagi snýst baráttan um að ná tökum á stjórn efnahags- og ríkisfjármála, og skipuleggja endurreisn atvinnulífsins og heimilanna í landinu eftir hrunið. Uppgjörið við hrunið er ófrávíkjanlegur hluti af þeirri baráttu.
Í öðru lagi erum við að taka ákvarðanir um lagasetningu og breytingu á stofnunum þjóðfélagsins til þess að stemma stigu við því að svipaðir atburðir geti gerst í okkar efnahagskerfi á næstu áratugum.
Í þriðja lagi erum við með umbótum í lýðræðismálum, betri og gengsærri stjórnarháttum, endurskipulagi stjórnkerfis og stefnumótun á mörgum sviðum að búa í haginn fyrir sókn til betra samfélags sem m.a. tekur mið af meginhugmyndum norræna velferðarríkisins í bestu merkingu þess orðs.“
Þjóðin kjósi um ESB án forræðishyggju
„Og við teljum að það sé til heilla fyrir almannahag að freista þess að semja við Evrópusambandið um aðildarsamning sem tekur fullt tillit til lífshagsmuna okkar í sjávarútvegi og landbúnaði.
Okkar er að semja en þjóðin ræður aðildinni sjálf í kosningum.
Þetta er sú leið sem Alþingi hefur valið. Aum er sú afstaða sem byggir á því að treysta ekki þjóðinni fyrir því að taka afstöðu til niðurstöðu samninga við ESB og ætlast til þess að samningum verði hafnað óséðum. Tími forræðishyggju af því tagi ætti að vera liðinn!“
Brjálæðislegt skattkerfi 1995 – 2005
„Það skattkerfi sem hér þróaðist á árunum 1995 – 2005 var ekki sjálfbært. Heildarskattbyrðin jókst meira en hjá nokkru öðru OECD ríki. Skattbyrði jókst mest í lægri tekjuhópunum en lækkaði verulega hjá hátekjufólki. Skattbyrði flestra fjölskyldugerða jókst en mest þó hjá einstæðum foreldrum og lágtekjufjölskyldum. Ríkustu fjölskyldurnar í landinu margfölduðu hlutdeild sína í heildarráðstöfunartekjum á áratug. Þessi þróun gat ekki gengið mikið lengur. Þetta var brjálæðislegt skattkerfi!“
Tillögur Sjálfstæðisflokksins: Svona gerir maður ekki
„Í ljósi þess sem áður er sagt þá vona ég að mér fyrirgefist fyrir það að geta ekki alltaf tekið gagnrýni Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á ríkisstjórnina sérstaklega alvarlega. Mér finnast tillögur þeirra bera vott um ábyrgðaleysi og skammsýni eins og til að mynda þráhyggja Sjálfstæðisflokksins um að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóðanna. Tillögur Sjálfstæðisflokksins í sinni upprunalegri mynd voru tillögur um að skerða þær skatttekjur sem börnin okkar, barnabörnin og komandi kynslóðir eiga rétt á í framtíðinni í stað þess að við sjálf leysum þann vanda sem okkar kynslóð hefur skapað. Tillögur um að seðja okkur sjálf með því að éta útsæðið. Svona gerir maður ekki!“
Fórnarlömbunum ber virðing samfélagsins
„Ég minni á það að í næstu viku hefst átak gegn ofbeldi og það er viðleitni sem er ákaflega brýn þegar talsvert ber á ofbeldi á heimilum og á almannafæri. Ofbeldisseggi verður að hefta og hemja hvort sem þeir eru inn á heimilum, í Vítisenglum, erlendum glæpagengjum eða hafa lent í ógæfu fíkniefna eða annarrar óreglu. Við getum ekki unað því að ofbeldismenn vaði uppi en fórnarlömb þeirra beri allan andlegan og fjárhagslegan skaða. Fórnarlömbunum ber þvert á móti virðing samfélagsins.Við stefnum að því að leiða hina svokölluðu „austurrísku leið“ í lög, en hún snýr að heimildum lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili, sem kæmi þá í stað þess að fórnarlömb ofbeldisins þurfi að yfirgefa heimili sitt sér til verndar.“
Ísland í fyrsta sæti í jafnréttismálum
„Með þennan bakgrunn í huga þá fagna ég því að í nýlegri alþjóðlegri könnun var Ísland í fyrsta sæti í jafnréttismálum. Það er viðurkenning á því að ríkisstjórnin hefur sett jafnrétti kynja, mannréttindi og kvenfrelsi í öndvegi með afgerandi hætti.“
2009 upphafsár mikilla umbreytinga
„Ég spái því að þegar tímar líða þá verði ársins 2009 ekki eingöngu minst sem árs kreppu, hruns og erfiðleika á Íslandi.
Ég spái því að 2009 verði sérstaklega minnst sem upphafsárs mikilla umbreytinga.
2009 verði minnst sem ársins þegar Íslendingar tóku ákvarðanir um að breyta stjórnarháttum sínum og lífsgildum.
Við erum að beita okkur fyrir stefnubreytingu í skattamálum, stefnubreytingu í jafnréttismálum, stefnubreytingu í umhverfismálum, stefnubreytingu í sjávarútvegsmálum, stefnubreytingu í málum stjórnkerfis, réttarkerfis, stjórnsýslu og lýðræðis, stefnubreytingu í skipulagi fjármálastofnana, stefnubreytingu í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og stefnubreytingu í Evrópumálum.“
Ræðuna í heild sinni má finna á xs.is.