Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hellisheiðin á Reykjanesi?
Fimmtudagur 23. júní 2005 kl. 10:30

Hellisheiðin á Reykjanesi?

Ekki alls fyrir löngu voru Þjórsárver í bráðri hættu vegna stóriðjustefnu stjórnvalda. Með virkjunaráformum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur var brýnustu hættunni þar afstýrt um sinn. Sá  galli er þó á gjöf Njarðar að mikilfenglegu landslagi á Reykjanesi er nú ógnað með háspennulínu sem Hitaveita Suðurnesja áformar að byggja á utanverðu nesinu. Ef úr verður mun háspennulínan setja mark sitt á landslagið og blasa við á öllum helstu áningastöðum ferðamanna á utanverðu Reykjanesi. Útsýni frá Stömpunum, Gunnuhver, Bæjarfelli og rótum Valahnúks er að veði. Háspennulínunni er ætlað að koma í staðin fyrir áður áformaðan jarðstreng að því er virðist til þess að spara um 150 milljónir í verkefni sem kostar um 10 milljarða. Væntanlegur sparnaður er því um 1,5% sem er langt innan allra skekkjumarka í kostnaðaráætlunum framkvæmdanna.

Jarðvarmasvæðið á Reykjanesi er gjöfult og líkur á að orkuvinnsla þar eigi eftir að aukast á komandi árum. Talað er um að fyrirhugað djúpborunarverkefni geti allt að tífaldað vinnslugetu hverrar holu. Línan sem nú er á teikniborðinu kann því að verða sú fyrsta af mörgum til þess að þvera hraunin og spilla landslaginu. Þannig gæti með tímanum orðið Hellisheiðar bragur á utanverðu Reykjanesi ef þetta fordæmi nær fram að ganga.

Tímarammi stóriðjunnar er naumur. Hitaveitunni er ætlað að skila orku til álbræðslunnar á Grundartanga í byrjun næsta árs. Til að spara sér tíma ætluðu menn í fyrstu að reisa línuna án þess að fara með hana í lögskylt mat á umhverfisáhrifum. Til allrar hamingju ákvarðaði Skipulagsstofnun framkvæmdina matsskylda og bætti þar með rétt almennings til þess að segja álit sitt á málinu. Hitaveita Suðurnesja kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar. Núna liggur matsskýrslan fyrir og hún sýnir svo ekki verður um villst að umhverfisáhrif af línunnar eru afar neikvæð. Í ágúst mun Skipulagsstofnun að kveða upp úrskurð um hvort framkvæmdin standist mat á umhverfisáhrifum. Almenningur hefur frest til 8. júlí til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri við stofnunina.

Náttúruverndarsamtök Íslands hvetja alla til þess að kynna sér gögn málsins á www.skipulag.is og senda stofnuninni athugasemdir.

Árni Finnsson,
framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024