Helguvíkurhöfn er forsenda uppbyggingarinnar
Öllum er okkur ljóst að atvinnuástand hér á Suðurnesjum er slæmt. Og nýlegur borgarafundur í Reykjanesbæ undirstrikaði samstöðu um kröfuna á hendur stjórnvöldum um að liðka veg þeirra framkvæmda sem hér eru fyrirhugaðar. Um það eru allir sammála.
Ljóst má þó vera að sum þeirra vandamála sem við nú gerum kröfu um að ríkið leysi, eru til komin sökum lélegs undirbúnings og að vaðið hefur verið af stað án þess að tryggð hafi verið til að mynda fjármögnun verkefna. Höfnin í Helguvík er gott dæmi um slíka framkvæmd og meirihlutinn lætur nú eins og núverandi ríkistjórn sé um að kenna. Þrátt fyrir að ljóst sé að lagabreyting fyrri ríkisstjórnar Sjálftæðisflokksins kemur í veg fyrir framlög til hafnarinnar og slælegri stjórnsýslu bæjarstjórnar meirihlutans að kenna að svo er komið.
Allt frá því að hafnalögunum var breytt árið 2003, (í andstöðu við þáverandi stjórnarandstöðu), hefur verið ljóst að meginreglan er að ríkisjóði er ekki heimilt að styrkja stækkun hafna. Þó eru veitt bráðbirgðarákvæði í lögunum, að því tilskildu að umræddar framkvæmdir væru þegar komnar inn á samgönguáætlun áranna 2005-2008. Auk þess sem gert var ráð fyrir að unnt yrði að styrkja framkvæmdir sem kæmu inn í siglingarmálakafla samgönguáætlunar 2007-2010.
Það hefði verið þeim ríkistjórnum sem á undan komu, í lófa lagið að koma verkefninu inn í samgönguáætlun, ef forsendur hafi verið til staðar. Ráðherrarnir Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra hafa greinileg metið það sem svo að slíkt væri ekki.
Því þykir okkur rétt að halda þessu til haga nú þegar borgarafundur á Suðurnesjum hefur hefur krafið ríkið um lausn á vandamáli sem léleg stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi hefur valdið. Sá framgangur sem málefni hafnarinnar er með ólíkindum, og nú virðist vera að koma í ljós að enn einu sinni á hálfsannleikurinn á að vera málflutningur meirihlutans í málinu.
Bæjarstjórinn Árni Sigfússon segir í viðtali í við Fréttablaðið nú í morgun að engin lán hafi verið tekinn til hafnargerðarinnar, á sama tíma og nær vikulega er veittar eru heimildir til að taka ný lán til afborgana á eldri lánum hafnarinnar, sem nú eru teknar að nálgast 4 milljarða. Og fróðir menn segja það varla hrökkva til. En höfnin eigi bara að kosta 2 milljarða. Er einhversstaðar verið að byggja aðra höfn, sem við vitum bara ekki um?
Ljóst er að til þess að mögulegt verði að Helguvíkurhöfn fái framlög frá ríkinu til þeirrar uppbyggingar sem þar fer fram er eina leiðin að sett verði sérlög um þá framkvæmd, svipað og til dæmis var gert með Landeyjarhöfn á sínum tíma, eða að það verði gert með sérstakri fjárveitingu í gegnum fjárlög. Að því ber að stefna, og vitað er að vilja núverandi ríkistjórnar til að koma að verkefninu eins og efni og aðstæður leyfa. Fjárfestingarsamingurinn um Helguvík og samsvarandi samningur við Verne Holding, sem reikna má með að lokið verði fljótlega er skýrt dæmi þess.
Við tökum undir það sjónarmið bæjarstjórans, að ríkið verði að koma þarna til hjálpar sé það mögulegt. Höfnin er jú undirstaða þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru. Náist ekki að klára hana, skipta litlu máli frestun á línulögnum, eða stöðugleikasáttmálar. Nú beinast spjótin að þeim hluta framkvæmdarinnar sem Reykjanesbær hefur skuldbundið sig til að framkvæma. Við vitum nefnilega jafnvel og bæjarstjórinn, að takist ekki að standa við þann hluta samningsins er bærinn okkar í verulega vondum málum. Slæmt er það þó fyrir.
Hannes Friðriksson og Ólafur Thordersen
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson