Heimanámsþjálfun – upphafið
Nú þegar margir fullorðnir sitja heima og vinna vegna Covid-19 fer sú iðja undir nafninu heimavinna. Mig langar því að leggja til að við hættum að nota orðið heimavinna í skólakerfinu, orð sem kemur oft í stað orðsins heimanám, og tökum upp nafnið heimanámsþjálfun þar sem nemendur í skólakerfinu eru að þjálfa ákveðna þætti úr námi sínu heima.
Síðastliðin tíu ár hef ég tekið að mér að aðstoða ákveðinn nemendahóp við heimavinnu. Byrjaði sem ég að bjóða fram aðstoð mína eftir kennslu á bókasafni skólans sem ég starfaði í þá, yfir í markvissari aðstoð þar sem ég fylgi nemendum eftir og veiti foreldrum kennslufræðilega ráðgjöf um hvernig þeir geti sinnt námslegri aðstoð við barnið sitt.
Ég hef mikla ánægju af heimanámsþjálfun og lít á sjálfa mig sem sérfræðing í því. Ég þurfti sjálf sem grunnskóla- og framhaldsskólanemandi að hafa mikið fyrir námi mínu. Ég veit því sjálf af eigin reynslu hversu erfitt og einmanalegt það getur verið að sinna þjálfun heima í námi. Pabbi minn hefur ætíð lagt mikla áherslu á það við mig að ég myndi mennta mig og ég tók það alltaf til mín. Einhvern veginn fór það á þann veg að í stað þess að ég einfaldlega gæfist upp á heimanámsþjálfun í þá daga, og léti undan þeim kröfum sem voru gerðar til mín í námi, þá leitaði ég lausna í viðleitni minni til þess að ná utan um námið almennt. Ég fann að lausnin fólst meðal annars í eftirfarandi atriðum:
Að biðja aðra um hjálp
Í sífelldri endurtekningu á námslegum þáttum, t.d. með lestri
Að endurskrifa með mínum eigin orðum það sem ég skildi ekki, til þess að ná skilningi
Að læra með öðrum
Að leggja námslega þætti á minnið (í þá daga reyndi mikið á þá hæfni að geta lagt ógrynni upplýsinga á minnið)
Umsjónarkennari minn á unglingastigi hafði jákvæð og uppbyggileg áhrif á mig og ýtti undir mína viðleitni að leita lausna. Ein af bestu vinkonum mínum frá þessum tíma hafði einnig jákvæð áhrif á mig námslega og var alltaf boðin og búin að aðstoða mig, ásamt því að eldri bróðir hennar lagði okkur lið við stærðfræðina og ég naut góðs af því.
Eftir því sem ég eltist og komst á næsta skólastig, framhaldsskólastig, kynntist ég námsráðgjafa. Alveg nýtt fyrirbæri fyrir mér árið 1993. Alveg ómetanleg þjónusta sem ég naut góðs af á framhaldsskólaárunum og lærði þar sitthvað um skipulag og aga í námi – og hversu mikilvæg heimanámsþjálfunin er. Ég var ennþá á þeim árum að glíma við þann erfiðleika að skilja námsefnið. Mér hafði farið fram með mínum aðferðum úr grunnskólanum en á næsta skólastigi voru fleiri og flóknari fög, að mér fannst. Fyrir mig þýddi það að ég þurfti að eyða meiri tíma í námið heima heldur en margir aðrir jafnaldrar mínir. Það var innprentað í mig á þessum árum að MEÐ NÁMI MYNDI MÉR VEGNA BETUR Í FRAMTÍÐINNI! Ég trúði því statt og stöðugt.
Það kom þó sá tími að ég ætlaði að gefast upp. Þegar greiðsluseðillinn kom fyrir skólagjöld annarinnar, þá faldi ég hann. Ég hafði tekið þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að greiða hann og þar með skella skuldinni á það, svo ég þyrfti ekki sjálf að bera ábyrgð á ákvörðuninni um að hætta í námi. Ég minntist ekkert á málið við foreldra mína. Aftur á móti þá annað hvort hafði mamma mín fundið greiðsluseðilinn eða vissi af honum á undan mér og greiddi hann. Ég man ekki hvenær hún tók samtalið við mig en hún ræddi við mig og útskýrði fyrir mér að ég væri ekki að sækja nám fyrir hana. Ég væri að stunda nám fyrir sjálfa mig og engan annan. Það nægði til að koma mér aftur á rétt spor. Í desember 1996 útskrifaðist ég sem stúdent.
Á þessum framhaldsskólaárum mínum kynntist ég lítillega hugtakinu námstækni. Þó ekki nægilega vel og svo fór að í janúar árið 1998 hætti ég í Háskóla Íslands þar sem námsaðferðir mínar dugðu ekki til að ég næði tökum á náminu og ég hafði ekki aðgang að námslega sterku baklandi. Auðvitað þótti mér á þeim tíma ákveðin uppgjöf í mér að hafa hætt í námi en að sama skapi þá vissi ég að ég væri á rangri hillu hvað varðaði nám.
Haustið 2001 lét ég langþráðan draum rætast og hóf nám við Kennaraháskóla Íslands. Þar var aðgengi að námsráðgjafa einstaklega gott og hugtakið námstækni í hávegum haft, bæði fyrir mig sem nemanda á háskólastigi og sem námsþátt á grunnskólastigi. Ég áttaði mig á því að mínar eigin aðferðir heyrðu undir námstækni og ég hafði sjálf nýtt mér slíkt langt áður en ég kynntist hugtakinu og hvað fælist í því.
Sem grunnskólakennari hef ég mjög mikinn skilning á því þegar nemendur eiga í erfiðleikum í námi, í heimanámsþjálfun og þegar námslegt bakland er ekki sterkt. Ein meginforsenda þess að ég hóf að aðstoða nemendur við heimanámsþjálfun er minn skilningur á þeim aðstæðum sem nemendur eru í. Sem foreldri grunnskólabarna lendi ég sjálf í ýmsum aðstæðum, sem tengjast heimanámsþjálfun minna eigin barna, sem er ekki alltaf auðvelt að leysa úr, sérstaklega ef barnið sjálft er ósamvinnuþýtt. Margir foreldrar glíma við áskoranir þegar kemur að heimanámsþjálfun. Ég þekki það sjálf af eigin reynslu sem foreldri og sem grunnskólakennari að börn eru mjög misjöfn þegar kemur að þessum þætti. Það er alltaf ákveðinn hópur barna sem þarf ekki að hafa mikið fyrir námi og heimanámsþjálfun, geta alveg séð um þann þátt sjálf. Á meðan önnur börn þurfa meiri aðhald, stuðning og eftirfylgni þegar kemur að því að sinna þessum þætti. Á meðan er enn einn hópur að einhverju leyti undanþeginn því að sinna heimanámsþjálfun vegna ákveðinna aðstæðna, þá í samráði við fagfólk og sérfræðinga sem koma að málum barnsins í skólanum.
Ég byggi mína reynslu á eigin heimanámsþjálfun, á því tíu ára starfi að hafa aðstoðað ungt fólk sem hefur þurft á meira aðhaldi, stuðningi og eftirfylgni að halda í námi, ásamt tólf ára kennsluferli. Mín reynsla er sú að þeir nemendur sem sinna markvisst heimanámsþjálfun sem byggir á því að styrkja námslega stöðu þeirra, þeim vegnar betur í námi.
Þó nokkuð margir foreldrar/forráðamenn hafa komið að tali við mig og óskað eftir því að ég myndi taka saman nokkur atriði sem gætu gagnast heima við þegar kemur að því að sinna heimanámsþjálfun. Í hógværð minni þá finnst mér ekki eins og ég sé að gera eitthvað nýtt eða leggja til aðferðir sem eru ekki aðgengilegar. Mörgum finnst eins og ég hafi kannski meira tekið vítt efni saman og þrengt það þannig að gagn sé af fyrir leikmann sem ekki þekkir vel til. Ég hef ákveðið að verða við þessari beiðni og mun í framhaldi af þessum pistli birta nokkra fleiri til upplýsinga um námsvitund, aðferðir og verkfæri sem ég legg til við heimanámsþjálfun.
Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi
og verkefnastjóri.