Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilbrigðisþjónusta fyrir Suðurnesjamenn!!!
Föstudagur 28. janúar 2022 kl. 09:38

Heilbrigðisþjónusta fyrir Suðurnesjamenn!!!

Hversu lengi eigum við að bíða eftir því að tekið verði til í heilbrigðismálum hér suður með sjó! Eru skattpeningar héðan minna virði en annars staðar? Eftir síðustu viðskipti við HSS er þetta bara orðið gott.

Við hjónin vorum svo óheppin að fá Covid-19 í lok nóvember, undirrituð fann lítil einkenni og slapp úr einangrun eftir sjö daga en maðurinn fékk mun verri einkenni, lagðist þungt á lungnastarfsemi og þurfti hann að fá púst og lyf við því og var í símasambandi við Covid-göngudeildina annan hvern dag. Eftir þetta eru eftirköst, ég aðeins fundið fyrir minni orku en hann hefur komist í vinnu í einn dag, slappleiki, orkuleysi, mikill hósti og mæði. Þá er ég nú að komast að aðalkvörtunarefni mínu.

Maðurinn fór á vaktina (hitti aldrei á lausan tíma á dagvinnutíma) læknirinn sem tók á móti honum var alveg góður, sagði þetta klárlega eftirköst sem þyrfti að rannsaka betur, skrifaði fyrir hann læknisvottorð en sagði honum svo að hann þyrfti að panta rannsókn því sjálfur væri læknirinn bara í skítareddingum eins og hann orðaði það sjálfur. Með þetta fór maðurinn út og þurfti að greiða fyrir tímann u.þ.b. 6.000 krónur. Hann hringdi á HSS tveimur dögum síðar til að kanna hvort hann gæti fengið tíma hjá lækni þar sem hann ætti að fara í myndatöku og mæðispróf, það var ekki hægt, honum sagt að enginn tími væri laus, gæti hringt á mánudaginn 24. janúar til að kanna tíma í febrúar! Dóttirin hringdi næsta dag til að kanna hvort læknirinn sem var í skítareddingum hefði kannski sent beiðni um rannsókn en það var ekki. Hún endaði á því að ræða við mig um hvort við vildum ekki fá okkur heimilislækni hjá heilsugæslu inn frá en ég sagðist ekki geta tekið frí til þess að skottast í borgina fyrir heimilislækni sem tæki næstum heilan dag, á rétt á þessari þjónustu í heimabyggð og sagðist bara berjast fyrir þeirri þjónustu. Bóndinn fékk tíma hjá heimilislækni í Kópavogi næstkomandi þriðjudag 25. janúar og þá væntanlega kominn þar með fastan heimilislækni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvers eigum við að gjalda hér syðra! Hvað er að kerfinu? Er þetta aðeins bundið við fjárframlög til stofnunarinnar, er þetta stjórnunarvandi á HSS eða erum við að líða fyrir það að HSS sé kennslustofnun?

Ég krefst þess fyrir hönd íbúa að þessum málum verði komið í það horf sem við eigum rétt á, ég á ekki að þurfa að skrá heimilislækni á höfuðborgarsvæðinu heldur á ég að geta fengið heimilislækni í heimabyggð. Ætli ég endi samt ekki á því að þurfa festa mér lækni í Kópavogi eins og bóndinn!

Hvar eru þingmenn þessa svæðis? Ég kalla eftir því að þeir sameinist um þetta verkefni og vinni vinnuna sína. Við eigum ekki að vera svona afgangs!

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir