Heilbrigðisstofnunin álag og óréttlæti
Traust og öflug heilbrigðisþjónusta í heimabyggð er okkur öllum afar mikilvæg. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur búið við langvarandi fjársvelti hins opinbera. Fjárveitingar hafa ekki fylgt íbúaþróun á sama tíma og þjónustuþörfin eykst ár frá ári. Álag er mikið á starfsmenn og biðtími eftir þjónustu læknis á heilsugæslunni er óásættanlegur. En hvað er til ráða? Reksturinn er í höndum ríkissins og því miður hefur ríkið skammtað okkur hlutfallslega lægri fjárframlög til HSS heldur en sambærilegra stofnana á landsbyggðinni. Þetta er mikið óréttlæti sem verður að leiðrétta.
Yfirtaka Reykjanesbæjar á rekstri HSS er óraunhæf
Nú í aðdraganda kosninga hafa hugmyndir um að Reykjanesbær tæki yfir rekstur heilsugæslunnar skotið upp kollinum og hefur að minnsta kosti einn stjórnmálaflokkur gert málið að sýnu aðalkosningamáli. Þessar hugmyndir eru óraunhæfar rekstrarlega séð m.a. vegna fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og aðlögunaráætlunar um lækkun skulda til 2022. Auk þess hefur þetta fyrirkomulag ekki leyst vandann hvað biðtíma lækna varðar. Reynsla Akureyrarbæjar af þessu rekstrarfyrirkomulagi gaf ekki góða raun og var samningur ríkissins við Akureyrarbæ um rekstur heilsugæslunnar ekki framlengdur. Horfum til reynslu annarra í máli þessu.
Miðfokkurinn á Alþingi og í fjárlaganefnd vildi hækka fjárveitingar til HSS
Rekstur HSS er í höndum ríkisins. Gera verður ríkisvaldinu ljóst að það óréttlæti sem viðgengst í fjárveitingum til HSS verður ekki liðið lengur. Ríkisvaldið verður að viðurkenna að hér hefur orðið fordæmalaus fólksfjölgun á undanförnum árum. Bæta þarf húsakost HSS og skortur er á fagfólki til starfa. Bæjarvöld verða að þrýsta á þingmenn okkar að þeir berjist fyrir auknum fjárveitingum til HSS á Alþingi. Miðflokkurinn á Alþingi flutti breytingartillögu við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól um hækkun til HSS upp á 100 milljónir króna.
Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri grænir voru á móti hækkun fjárveitinga til HSS
Tillaga Miðflokksins var felld á Alþingi. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri grænir greiddu atkvæði á móti hækkun til HSS. Það er þyngra en tárum tekur að þingmenn okkar, sem sumir hverjir eru búsettir í Reykjanesbæ, skuli ekki getað staðið saman og stutt tillögur um hækkun fjárveitinga til HSS. Flokkslína í atkvæðagreiðslu sem þessari á Alþingi er óþolandi. Þetta er brýnt hagsmunamál okkar allra og við gerum þá kröfu til þingmanna svæðisins að þeir sýni ábyrgð. Þeir stjórnmálaflokkar sem ekki gátu stutt við bakið á íbúum Reykjanesbæjar í málefnum HSS eiga að athuga sinn gang. Þingmennirnir sem voru á móti eiga að spyrja sjálfa sig að því hvers vegna þeir eru í stjórnmálum. Eru þeir á þingi fyrir fólkið eða flokkinn? Eru þeir strengjabrúður flokkselítunnar í Reykjavík, sem ávallt hefur verið áhugalaus um Suðurnesin?
Miðflokkurinn mun áfram berjast fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Hverjum treystir þú til verksins?
X-M
Gunnar Felix Rúnarsson,
skipar 2. sætið fyrir Miðflokkinn.