Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 30. mars 2001 kl. 10:04

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er ekki að drabbast niður -segir Konráð Lúðvíksson

Ákveðið hefur verið að loka fæðingardeildinni í 5 vikur í sumar á tímabilinu 1. júlí til 6. ágúst. Ákvörðun þessi er ekki sársaukalaus en í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af fyrri árum þó talin skynsamleg.
Eins og bæjarbúum er kunnugt um hefur skurðstofu H.S.S verið lokað á hverju sumri í 8-9 vikur. Slíkt hefur verið gert til að mæta kröfum um aðhald í rekstri. Auk þessara lokana hafa lokanir verið í kringum páska og jól í allt að 4 vikur.
Á s.l ári kom þó ekki til lokana kringum stórhátíðarnar og í sumar hefur verið ákveðið að stytta lokun skurðstofu niður í 5 vikur þannig að hér er um verulega jákvæðar breytingar að ræða í þá átt að bæta bráðaþjónustu stofnunarinnar.Hins vegar er okkur fyllilega ljóst að þjónustan telst ekki fullgóð fyrr en skurðstofuvakt er til staðar alla daga allt árið.

Hvers vegna lokun á fæðingardeild?
Á síðustu árum hefur gengið erfiðlega að fá fagfólk til afleysinga yfir sumarmánuðina. Áður hefur komið til lokunar fæðingadeildarinnar af þessum sökum, en annars hefur tekist að halda henni opinni þótt skurðstofa hafi verið lokuð á sama tíma. Reynsla liðinna ára hefur kennt okkur að opin skurðstofa er forsenda fyrir því að hægt sé að reka hér fæðingardeild af nokkru viti. Yfir
50 % kvenna sem fæða eiga þann tíma sem skurðstofa er lokuð eru sendar til Reykjavíkur af öryggisástæðum eða til að fá deyfingu sem ekki er hægt að bjóða uppá hér. Þannig var það á s.l. sumri eftir að okkur tókst að fá hingað afleysingafólk á fæðingardeild að yfir helmingur kvenna fæddu í Reykjavík hvort sem var.
Í sumar er áætlað að 9 konur af svæðinu muni fæða á meðan lokun skurðstofu stendur. Í ljósi fyrri reynslu er því fátt sem ýtir undir þá vinnu sem í því felst til að fá hingað afleysingarfólk til þess eins að senda konur til Reykjavíkur hvort sem er. Ljósmæður munu sem áður bjóða upp á heimaþjónustu fyrir þær konur sem fæða í Reykjavík og kjósa að koma heim innan 36 klst.

Er HSS að drabbast niður ?
Starfsfólki HSS finnst nokkuð merkilegt að heyra þá skoðun nefnda að stofnunin sé að drabbast niður. Sú vitneskja hlýtur að koma annars staðar frá en okkur. Innanhúss hefur fólk lagt metnað sinn í að byggja upp. Tekist hefur að skapa vinnuumhverfi sem gerir staðinn eftirsókarverðan sem vinnustað. Aldrei hefur mannval verið meira en einmitt nú. Enginn skortur er á heilsugæslulæknum, fullmannað í allar stöður, bæði hér og í Grindavík. Ungir vel menntaðir
læknar hafa kosið að bætast í hóp þeirra sem fyrir voru, bæði innan heilsugæslusviðs og sjúkrasviðs. Fátítt er að fólk komist ekki til læknis inn tveggja sólhringa
frá því að pantaður er tími og allir komast að á bráðamóttöku þegar þörf krefur.
Á stór-Reykjavíkursvæðinu er ekki óalgengt að þurfa bíða allt að 3 vikur til að fá tíma hjá heilsugæslulækni. Aldrei hafa jafnmargar sérgreinar átt sinn fulltrúa innan stofnunarinnar. Nýlega fékk starfshópur gæðamála innan stofnunarinnar styrk til að sinna ákveðnum verkefnum. Hingað kemur fólk langt að til að njóta þeirrar þjónustu sem veitt er innan okkar veggja og ófáar eru þær lofræður sem stofnunin fær, sérstaklega frá þeim sem lengst að eru komnir.
Unnið er að gerð svokallaðra þjónustusamninga við Heilbrigðisráðuneytið sem gerir okkur kleift að ákveða hvert hlutverk okkar á að vera í framtíðinni. Þegar þessir samningar hafa verið undirritaðir verða þeir kynntir bæði fyrir bæjarfulltrúum og bæjarbúum almennt. Lykilatriði er þó að, þegar þeir hafa verið gerðir, verða samskipti ráðuneytisins og stofnunarinnar mun nánari og
viðbrögð ákveðnari. Við skuldbindum okkur til að sinna ákveðnum störfum og fáum til þess
fjármuni. Ráðuneytið skuldbindur sig á hinn bóginn til að búa þannig um hnútana að við getum sinnt okkar hlutverki.

Búa Suðurnesjamenn við falskt öryggi?
Slík fullyrðing gefur tilefni til ígrundunar. Hugsanlega er hér átt við þá staðreynd að skurðstofa er ekki opin alla daga vikunnar allt árið. Á það skal þó bent að það tekur u.þ.b. 25 minútur að komast á Háskólasjúkrahúsið í Reykjavík ef þörf krefur, öryggi sem öðru landsbyggðarfólki þætti býsna gott að búa við.
Frá því 1997 hafa tvö börn fæðst andvana á Suðurnesjum. Bæði misfórust í móðurkviði og var önnur móðirin í eftirliti í Reyjavík þegar atburðurinn átti sér stað. Tölur þessar eru langt undir landsmeðaltali. Í ljósi ofannefndra umræðna er vert að minnast á þessa hluti. Á árunum
áður voru Suðurnes þekkt fyrir hið gagnstæða, þannig að það ber að sýna aðgát í öllu
orðavali til þess umræðan missi ekki marks.
Mæðravernd og fæðingardeild er hér við bæjardyrnar öllum opinn, þegar á þarf að halda. Öllu er reynt að sinna sem að berst, hvenær sem er. Þannig hefur skapast orðstír sem við erum öll hreykin af. Margir untanaðkomandi kjósa að leita hingað vegna þeirrar þjónustu sem hér er veitt og í mörgu erum við skrefi á undan. Sá er þessar línur ritar er þó meðvitaður um að mönnum sem gagnrýna stofnunina gengur gott eitt til. Gagnrýnin verður þó að hafa ákveðinn tilgang annan en
að sverta stofnunina án þess að fyllileg rök liggi fyrir.

Framtíð HSS
Með tilkomu fjarnáms i hjúkrunarfræðum við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum hafa opnast nýjar víddir fyrir umhverfi okkar. Menntun á háskólastigi er í bænum okkar, en ekki aðeins nokkuð sem sækja þarf langt að. Slíkt hlýtur að breyta viðhorfum til mannlífsins yfirleitt. Stétt sem nýtur virðingar fær sína menntun í heimabænum. Viðhorf hennar hefur áfrif út á við. HSS mun fá aukið hlutverk í að sinna þörfum þessa hóps. Kennsla mun færast í auknu mæli inn á stofnunina öllum til góðs. Gerðar verða auknar faglegar kröfur á þá sem til staðar eru til að taka á
móti þessum hópi. Slíkt kallar á annarskonar viðhorf en aðeins að sinna brýnum þörfum
skjólstæðinga. Dýpri skilningur á faginu nær fram. Við ætlum okkur að halda þessu fólki í heimabyggð þegar námi lýkur. Við þurfum á því að halda. Bráðlega opnar hér ný álma sem krefst aukins mannafla. Framtíðarsýn á hlutverki stofnunarinnar hlýtur að fela í sér að hér vilji
fólk starfa vegna ágæti hennar. Slíkt kallar á starfsumhverfi sem er aðlaðandi og metnaðarfullt. Liður í því er að byggja hér upp stærri og afkastameiri skurðstofueiningu og efla þannig þau verkefni sem hægt er að sinna hér. Allt fleiri verkefni flytjast frá stóra sérhæfða Háskólasjúkrahúsinu út á minni staðina sem bæði eru ódýrari í rekstri og geta afkastað meiru vegna minni yfirbyggingar.
Í dag er rekin ein sæmileg skurðstofa og önnur lítil fyrir smáaðgerðir við HSS. Aðstaða starfsfólks er vægast sagt skringileg og sjúklingar sem eru að vakna upp eftir aðgerð hitta gjarnan þá sem eru að koma til aðgerða. Það er full þörf á að breyta þessu umhverfi og gera það umfangsmeira. Í dag er hátt á þriðja hundrað manns sem bíða aðgerða hjá okkur. Þótt afköstin á
þeirri litlu einingu sem við höfum yfir að ráða séu mikil þá þarf að gera mun betur.
Slíkt verður ei gert öðruvísi en tilkomi annað og meir. Það er vel raunhæft að byggja hér 2 góðar skurðstofur og eina fyrir minni aðgerðir. uppvöknun og sæmandi starfsumhverfi. Ef við náum slíku fram myndi orðstír stofnunarinnar aukast um nokkur númer og líklega yrði talið sjálfsagt að hafa hér vakt alla daga allt árið um kring. Það er því tilkall til ykkar, ágætu bæjarfulltrúar og bæjarbúar almennt, að þið með fylgni og trú hjálpið okkur að ná settu marki.


Með vinsemd og virðingu

Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir
Sjúkrasvið HSS.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024