Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilakúnstir í Bókasafni Reykjanesbæjar
Föstudagur 26. febrúar 2016 kl. 17:03

Heilakúnstir í Bókasafni Reykjanesbæjar

Heilakúnstir er hópur barna frá 4. bekk sem hittist á mánudögum frá klukkan 14.00 – 15.30 og á miðvikudögum frá klukkan 14.30 - 16.00 í Bókasafni Reykjanesbæjar.  Nemendur fá aðstoð við heimanám og skólaverkefni frá sjálfboðaliðum Rauða krossins.  Nemendur og sjálfboðaliðar hittast á neðri hæð safnsins í vinnuherbergi sem nefnist „Búrið“. Afslappað andrúmsloft verður í forgrunni þar sem hver og einn hefur tækifæri til að vinna á eigin hraða.

Verkefnið er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Rauða krossins á Suðurnesjum og er unnið að fyrirmynd Heilahristings sem er heimanámsaðstoð á vegum Borgarbókasafnsins.

Bókasafnið hentar vel fyrir starfsemi sem þessa þar sem það er hlutlaus, afslappaður og óformlegur staður þangað sem allir eru velkomnir. Segja má í raun að Bókasafnið sé eins konar gátt inn í samfélagið. Auk þess nýtist safnkostur Bókasafnsins vel í námi og leggur starfsfólk sig fram við að aðstoða nemendur og sjálfboðaliða í leit að gögnum og upplýsingum.

Heimanámsaðstoðin er ókeypis og allir eru velkomnir. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram.

Umsjón með heimanámsaðstoðinni hefur Kolbrún Björk Sveinsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024