Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heil og sæl
Mánudagur 22. nóvember 2010 kl. 10:55

Heil og sæl

Við stöndum frammi fyrir merkum tímamótum nú þegar móta á nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þann 27. nóvember fara kosningar fram þar sem hver og einn einstaklingur með kosningarétt getur valið allt að 25 fulltrúa sem hann treystir til þess að takast á við þetta mikilvæga verkefni.
Verkefnið er að móta og endurskoða stjórnarskrá fyrir okkur öll. Hópurinn sem kosinn verður til verksins verður, að mínu viti, að geta tekist á við ólík sjónarmið, vera víðsýnn og tilbúinn til þess að meta viðfangsefni heildinni til heilla. Mörg atriði úr stjórnarskránni hafa verið í umræðunni og ljóst að margir vilja breytingar á. Um er að ræða atriði eins og aðskilnaður ríkis og kirkju, hlutverk forsetaembættisins, þrískiptingu valdsins og hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi. Umræða um skiptingu og nýtingu náttúruauðlinda hefur einnig verið hávær og hvort bæta eigi inn ákvæði um að náttúruauðlindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar.
Mín skoðun er sú að stjórnarskráin eigi að vera auðskiljanleg og skýr og að hópurinn sem kosinn verður til þingsins þurfi meðal annars að taka á ofangreindum atriðum. Ég get ekki ákveðið ein hver lokaniðurstaðan verður og tel því erfitt að leggja fram mínar persónulegu skoðanir varðandi einstök málefni. Ég mun, nái ég kjöri, verða að vega og meta út frá heildarhagsmunum okkar allra og taka mið af þeim ályktunum sem Þjóðfundurinn frá 6. nóvember síðastliðnum skilaði af sér. Lýðræðið verður að einkenna þá vinnu sem framundan er og vonandi mun kosningin ekki einkennast af baráttumálum einstakra hagsmunahópa.
Ég lít á framboð mitt til stjórnlagaþings sem samfélagslega skyldu mína og tel mig hafa þá menntun og reynslu sem til þarf í komandi vinnu. Hér er um að ræða tímamótaviðburð í íslensku samfélagi þar sem stjórnarskráin er endurskoðuð í heild sinni í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins.
Ég óska eftir stuðningi ykkar við framboð mitt til stjórnlagaþings 2010. Einkennisnúmer mitt er 6417 og það er von mín að það verði eitt af þeim 25 númerum sem þið setjið á atkvæðaseðilinn ykkar 27. nóvember næstkomandi. Vert er að minna á að utanatkvæðagreiðsla er hafin og hvet ég þá sem verða á faraldsfæti á kjördag að kjósa tímanlega og nýta þennan lýðræðislega rétt sinn.
Sýnum nú að við látum okkur málefnið varða og veljum trausta einstaklinga til verksins.

Með kveðju
Bergný Jóna Sævarsdóttir, frambjóðandi númer 6417
[email protected]
http://www.facebook.com

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024