Hefur stjórn SSS enga skoðun?
Umræðan um framtíð samstarfs sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur verið lítil utan raða sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum. Heyrst hefur að stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi lagt fram breytingar á samþykktum þess. Þær á nú að ræða á aukaaðalfundi 14. apríl nk.
Markvissari vinnubrögð
Ég hef starfað og fylgst náið með starfsemi SSS síðastliðin 4-5 ár og mér hefur oft þótt starf stjórnar SSS vera ómarkvisst og fálmkennt. Á aðalfundi SSS 7. og 8. október 2011 ræddi Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður, um að mikilvægt væri bæði fyrir þingmenn og ríkisstjórnina að þau hefðu 5-7 atriða lista um verkefni sem þau gætu unnið að. Oddný Harðardóttir þáverandi formaður fjárlaganefndar, núverandi fjármálaráðaherra, tók undir þessi orð Sigurðar Inga og hvatti sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að koma þessu lista á framfæri áður en vinna við fjárlög 2013 hæfist, sem yrði strax á vormánuðum 2012. Þessi listi yrði til þess að starf þingmanna fyrir Suðurnesin yrði markvissara.
Alger þögn
Í framhaldi af þessum orðum þingmannanna lagði ég fram eftirfarandi tillögu:
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa 7.-8. október 2011 samþykkir að fela stjórn SSS að koma saman 5-7 atriða verkefnalista í samræmi við 2020 svæðisáætlun fyrir Suðurnes. Öll atriðin á listanum varði heildarhagsmuni íbúa á Suðurnesjum. Stjórn SSS beitir sér fyrir umræðu í öllum bæjarfélögunum fimm um þessi atriði þar sem íbúum gefst kostur að koma með tillögur og að umræðunni. Eigi síðar en í janúar 2012 verði boðað til fundar þar sem listinn verður samþykktur formlega. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Síðan hefur ekkert gerst alla vega hefur hvorki heyrst af umræðu um þetta mál á stjórnarfundum SSS né að stjórnin hafi beitt sér fyrir umræðu um þessi atriði í bæjarfélögunum fimm.
Hver er skoðun stjórnar SSS?
Til hvers eru aðalfundir til annars en til stefnumótunar sambandsins? Stjórn SSS virðist annarrar skoðunar. Nema það sé tilgangur stjórnar að hafa enga skoðun á málinu, hvers hagsmunum þjónar það?
Umræða hinna fáu og útvöldu þjónar þeim sjálfum. Umræðan um sameiningu sveitarfélaganna verður að komast í almenna umræðu. Þörfin á auknu samstarfi er mikil og brýn, ekki innan SSS heldur í sameinaða sveitarfélaginu Suðurnes.
Kristinn Þór Jakobsson
Framsókn í Reykjanesbæ