Hefð er ekki náttúrulögmál hún er mannanna verk
Pálmi Steinar Guðmundsson skrifar.
Fjögur ár eru langur tími í stjórn sveitarfélags. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem þar starfa, starfi saman af heilindum með hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi. Bæjarfulltrúar þurfa að vera meðvitaðir um að þeir séu einungis bundnir eigin sannfæringu og landslögum.
Það eru margar ástæður fyrir því að ég ákvað að safna undirskriftum fyrir persónukjöri nú í vetur. Ég ætla að nefna nokkrar hér í þessari grein:
Hér eru kosnir sjö bæjarfulltrúar til að fara með stjórn bæjarfélagsins. Hér ríkir meirihlutalýðræði. Þeir sem eru í minnihluta hafa því engin áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru. Þar sem ólík sjónarmið eru, þar komast menn að bestu niðurstöðunni, það eru engin geimvísindi. Einsleitar ákvarðanir geta aldrei orðið í þágu heildarinnar. Það væri hrein fáviska í stjórn fyrirtækis að virkja ekki alla stjórnarmennina, þeirra hugmyndir og sýn á málefnin.
Ég held, að innst inni viti allir bæjarfulltrúar að gera þarf breytingar á þeim úreltu vinnubrögðum sem ekki eru lengur boðleg í nútímasamfélagi en hafa verið viðhöfð við stjórn bæjarfélagsins. Þarf kjark til að snúa við af rangri leið? Nei það þarf vilja og almenna skynsemi. Hræðsla við að prófa nýjar leiðir má ekki verða sú hindrun sem veldur því að við stöndum í stað. Stokka þarf spilin og gefa upp á nýtt, það verða allir að fá að spila með. Það er í höndum bæjarbúa að kjósa þá sem sannarlega vilja breyta til við að bæta hag sveitarfélagsins.
Það var einkar ánægjulegt að heimsækja Garðbúa og eiga við þá samræður um málefni bæjarins og finna áhuga þeirra á að viðhafa persónukjör hér í Garðinum. Ég vil einnig þakka sérstaklega fyrir þær góðu móttökur sem ég fékk á minni göngu meðal íbúa og var mér vel tekið.
Kæri bæjarbúi finnst þér í lagi að núverandi meirihluti bæjarfulltrúa hafði að engu vilja 600 kosingabærra íbúa Sveitarfélagsins Garðs sem vildu persónukjör?
Pálmi Steinar Guðmundsson
2. sæti N lista, lista nýrra tíma