Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Háskólapróf aðeins einn áfangi á lærdómsbraut
Föstudagur 18. júní 2004 kl. 14:18

Háskólapróf aðeins einn áfangi á lærdómsbraut

Brautskráningarræða Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, í Keflavíkurkirkju þann 17. júní 2004.

Kæru kandídatar, Alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, starfsfólk og stjórn Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum, kennarar og starfsfólk Háskólans á Akureyri, ágætu hátíðargestir.

Gleðilega þjóðhátíð.

Ég býð ykkur öll innilega velkomin til þessarar háskólahátíðar  Háskólans á Akureyri sem haldin er hér á Suðurnesjum í fyrsta sinn.  Í upphafi vil ég þakka séra Ólafi Oddi Jónssyni kærlega fyrir afnotin af þessari glæsilegu kirkju á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Fyrsti Íslendingurinn sem talið er að hafi komið fram með hugmynd um að stofna háskóla hér á landi var Jón Þorkelsson, Skálholtsrektor sem fæddist í Innri-Njarðvík 1697 en dó í Kaupmannahöfn 1759.  Jón Þorkelsson var þeirrar skoðunar að hér á landi ætti að vera framhaldsskóli eftir latínunámið, fyrir embættismannaefni landsins.  Í þessum efnum var Suðurnesjamaðurinn Jón Þorkelsson langt á undan sinni samtíð.  Á 19. öldinni ræddi Jón Sigurðsson um nauðsyn þess að stofna háskóla hér á landi en Háskóli Íslands var ekki stofnaður fyrr en 1911 eða næstum tveimur öldum eftir að Jón Þorkelsson kom fyrst fram með hugmyndir sínar.

Háskólar í nútímamynd hafa verið til frá síðmiðöldum.  Því nær sem dregur samtímanum virðist hlutverk þeirra hafa orðið æ mikilvægara og er a.m.k. af tvennum toga. Annars vegar þjálfa þeir hæft fólk til að ganga inn í embættismannakerfið eða aðra staði þjóðlífsins.  Hins vegar eru þeir staðir þar sem vísindamenn vinna og afla þekkingar.  Háskólar eru líka stofnanir sem einkenna menningararf þjóðanna.

Háskólar nútímans eru sjálfstæðar stofnanir þar sem rannsóknir og kennsla fara saman til þess að mæta síbreytilegum þörfum samfélagsins og framförum á sviði vísinda og fræða. Þeir eiga að vera siðferðilega og fræðilega óháðir sérhagsmunum og taka langtímahagsmuni fram yfir skammtímahagsmuni. Innan þessara vébanda er Háskólinn á Akureyri vísindaleg mennta- og rannsóknarstofnun sem vinnur að nýsköpun og þróun þekkingar á völdum fræðasviðum og hefur mótandi áhrif á samfélagið.  Háskólinn á Akureyri stefnir að því að kenna og stunda rannsóknir sem ryðja braut fyrir nýjar hugmyndir og aukin verðmæti í þágu samfélagsins.

Á síðustu árum hefur þátttaka fólks í háskólanámi hér á landi aukist afar mikið og munar þar miklu um aukna möguleika á að stunda fjarnám.  Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneyti fjölgaði nemendum í fjarnámi á fyrri hluta háskólastigs úr 480 árið 2000 í rúmlega 1260 árið 2003 eða um 160% og er langstærsti hluti þessa hóps 30 ára eða eldri.  Hlutfall þeirra sem eru í fjarnámi hefur á sama tíma aukist úr tæplega 6% í rúmlega 10%.  Fleiri konur en karlar stunda fjarnám eða um 9% á móti 2% karla. Fjöldi nemenda sem stundar fjarnám við Háskólann á Akureyri hefur vaxið geysi hratt á síðustu árum og eru þeir um 40% af alls um 1450 nemendum í Háskólanum.  Fjarnemendur sem eru um 530 talsins stunda sitt nám frá Háskólanum fyrir milligöngu símenntunarmiðstöðva á 18 stöðum allt í kringum landið.
 
Fjarkennsla frá Háskólanum á Akureyri hófst haustið 1998 með kennslu í hjúkrunarfræði til Ísafjarðar.  Í árslok 1999 gerðu Háskólinn á Akureyri og Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum með sér samkomulag um háskólanám á Suðurnesjum.  Fjarnám í hjúkrunarfræði og rekstrarfræði hófst samkvæmt samkomulaginu á haustmisseri árið 2000 og var þarna um að ræða fyrsta fjarnámshóp þar sem boðið var upp á öll þrjú árin í rekstrar- og viðskiptafræðum til BS prófs við Háskólann á Akureyri. Fyrstu nemendurnir úr báðum þessum hópum eru að brautskrást hér í dag. 
Á þessu háskólaári stunduðu  70  nemendur á Suðurnesjum fjarnám við Háskólann á Akureyri fyrir milligöngu Miðstöðvar Símenntunar,  10  í hjúkrunarfræði, 29 í viðskiptafræði,  10 í leikskólafræði og 21 í grunnskólafræði. Á skólaárinu 2003-2004 voru kennd 56 námskeið frá Háskólanum á Akureyri til Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum.  Við væntum þess að framboð okkar á fjarnámi til Suðurnesja haldi áfram að aukast og að enn fleiri Suðurnesjamenn nýti þessa möguleika en nú er raunin. 
 
Fjarnám við Háskólann á Akureyri hefur nokkra sérstöðu hér á landi. Við uppbyggingu þess eru tvær meginhugmyndir ráðandi:  Í fyrsta lagi að sú upplýsingatækni sem nýtt er í fjarkennslunni þjóni markmiðum námsins og í öðru lagi að nám sé félagslegt ferli sem hefur áhrif um allt samfélagið.  Hér á eftir  mun ég einkum fjalla um síðari þáttinn:

Í sambandi við skipulag og miðlun er áhersla lögð á myndun námshópa á fjarkennslustöðum.  Hóparnir hafa aðstöðu til að taka á móti kennslu í fjarnámsverum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.  Þar hafa fjarnemendur einnig tölvuaðgengi auk þess að fá margvíslega aðra þjónustu frá fræðslu- og símenntunarmiðstöðum. Hvers vegna er lögð þessi áhersla á myndun námshópa? Í því sambandi má nefna félagslega þætti sem veigamestu rökin fyrir einstaklinginn:

1)Það að þurfa að mæta í námsver leiðir til félagslegra samskipta sem ekki væru fyrir hendi annars. Það leiðir einnig af sér að nemendur eru líklegri til að vinna jafnt og þétt í náminu, nemendur segja gjarnan að kennslan í myndfundabúnaði haldi þeim við námið, ekki hvað síst það að þurfa að mæta (eins og þeir segja gjarnan).  Í flestum deildum þurfa nemendur að mæta í námsverin í kennslu einu sinni til tvisvar í viku og stundum mun oftar eins og í hjúkrunarfræði.

2) Þessir nemendur mynda náin tengsl sem að mínu mati nást ekki  í námi sem byggir á tiltölulega fáum staðbundnum lotum og/eða netsamskiptum milli einstaklinga þar sem hver og einn lærir eingöngu við tölvuna heima.

3) Innan hópsins myndast eins konar samvinnu- og stuðningssamfélag.  Ef einhver hættir að mæta hafa nemendur gjarnan samband og styrkja viðkomandi, nemendur koma sér líka gjarnan upp skipulögðum vinnubrögðum sem hópur, t.d.  með því að hafa með sér verkaskipti. Tölfræðin bendir til að það sé minna brottfall úr námi sem byggt er upp með þessu sniði. 
 
Með því að byggja fjarnámið á námshópum sem gerir kröfur um að hópunum sé sköpuð aðstaða á hverjum stað til náms verður þetta samfélag sýnilegra og viðkomandi sveitarfélög hafa almennt sýnt mikinn metnað í þessum efnum. Allt skipulag á staðnum hefur verið í höndum símenntunarmiðstöðva á viðkomandi svæði. Þessi starfsemi hefur reynst hafa smitandi áhrif á þann veg að fólk á stöðunum verður með áþreifanlegum hætti vart við þetta sýnilega námssamfélag. Símenntunarmiðstöðvarnar eru flestar ef ekki allar sjálfseignarstofnanir í eigu sveitarfélaga, fyrirtækja, stéttarfélaga o.fl. og með starfsemi þeirra verður til mikilvæg þekking á sviði menntunar. Í ýmsum bæjarfélögum þar sem kennslu er haldið úti í námsverum er einnig sérfræðimenntað fólk sem Háskólinn getur þá leitað til  t.d. hvað varðar leiðsögn við nema eða kennslu og þar með fær þetta fólk tækifæri til að nýta menntun sína sem það hefði kannski annars ekki tækifæri til. Öll þessi atriði styrkja viðkomandi byggðir.  Hér er því um að ræða byggðastefnu sem skilar árangri.

Þeir sem stunda fjarnám eru oftast (eða hafa verið) virkir þátttakendur í atvinnulífi í sinni heimabyggð.  Fjarnám gefur þeim kost á að stunda nám án þess að flytja brott þaðan.  Atvinnulífið nýtur áfram enn öflugri starfskrafta þeirra og  á grundvelli nýrrar þekkingar úr náminu munu þeir taka þátt í að endurskapa atvinnulífið í sinni heimabyggð.

Í framtíðinni má gera ráð fyrir að starfsfólk velji búsetu eftir eiginleikum viðkomandi búsetusvæðis þar sem aðrir þættir en staðbundnir atvinnumöguleikar verða ráðandi um búsetuval. Með fjarnámi á háskólastigi er verið að þjálfa upp nýja kynslóð sem kann að nýta sér upplýsingatækni til að yfirvinna landfræðilegar fjarlægðir.  Þessi færni kemur til með að styrkja starfsemi fyrirtækja og stofnana sem nýta upplýsingatækni á milli starfsstöðva á mismunandi stöðum, þ.e. fjarvinnslu. Fjarvinnsla hefur þær afleiðingar fyrir einstaklinginn að hann getur búið sér til vinnumarkað hvar sem er á landinu eða í  heiminum.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar hafa frá upphafi gegnt mjög veigamiklu hlutverki í framgangi fjarkennslunnar í Háskólanum á Akureyri. Það að geta unnið með símenntunarmiðstöðunum að kynningarmálum, sem og tryggt fjarnemendum þá aðstöðu sem þeir þarfnast í heimabyggð til að geta stundað námið er forsendan fyrir því að hægt er að halda náminu úti með þeim hætti sem gert er.  Það er líka mikilvægt að vekja athygli á því hversu mikil þekking hefur byggst upp á öllum sviðum sem lúta að fjarnámi og kennslu bæði innan HA og hjá starfsfólki símenntunarmiðstöðvanna. Þátttaka og virkni heimamanna í skipulagi og rekstri fjarnáms er grundvallarforsenda fyrir því að fjarnámið verði til að efla atvinnulífið í byggðarlaginu

Í því mati sem hefur farið fram á fjarnáminu kemur fram að nemendur eru yfirleitt mjög ánægðir með hversu vel hefur tekist til.  Ljóst er að kennarar og annað starfsfólk Háskólans í samvinnu við starfsfólk símenntunarmiðstöðva og nemendur hafa unnið afar merkilegt brautryðjendastarf í innleiðingu nýrra kennsluhátta í háskólanámi hér á landi.
 
Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt mikið á sig við uppbyggingu og framkvæmd fjarnáms Háskólans á Akureyri á Suðurnesjum.  Þar vil ég sérstaklega nefna forstöðumenn Miðstöðvar Símenntunar þau Skúla Thoroddsen, fyrrverandi forstöðumann og Guðjónínu Sæmundsdóttur, núverandi forstöðumann, Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóra og fjölmarga af fyrrverandi og núverandi  sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum, Friðjón Einarsson, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Suðurnesja, skólameistara Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum, Ólaf Jón Arnbjörnsson, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Guðjón Guðmundsson og fjölmarga af stjórnendum og starfsfólki Heilbrigðistofnunar Suðurnesja.  Síðan vil ég þakka alþingismönnum Suðurkjördæmis og áður Reykjaneskjördæmis fyrir öflugan stuðning bæði við fjarnámið hér á Suðurnesjum og uppbyggingu Háskólans á Akureyri.  Síðast en ekki síst vil ég þakka deildarforseta heilbrigðisdeildar, Þórarni Sigurðssyni, deildarforseta rekstrar- og viðskiptadeildar, Bjarna Hjarðar, kennurum deildanna og öðru starfsfólki háskólans, sem að fjarnáminu hefur komið, fyrir frábær störf sem hafa einkennst af frumkvæði, nýsköpun, stórhug og alúð.

Kæru kandídatar, um leið og ég ítreka heillaóskir til ykkar á þessum tímamótum vil ég minna á að þó að háskólapróf ykkar sé mikilvægt þá er það aðeins einn áfangi á lærdómsbraut sem þið vonandi haldið áfram að fylgja í framtíðarstörfum ykkar.

Ágætu kandídatar, þið eruð í senn drifkrafturinn og besti vitnisburðurinn um hina öru þróun sem átt hefur sér stað við Háskólann á Akureyri.  Þið fyllið nú þann hóp atorkusamra frumherja sem byggt hafa upp Háskólann á Akureyri.  Í dag ríkir gleðin hjá ykkur sem hafið náð þessum markverða áfanga.  Hjá okkur hinum er sú gleði blandin trega að sjá að baki tryggum og metnaðarfullum hópi.  Hér á eftir verður ykkur afhentur vitnisburður um námsárangur ykkar.  Hvert sem leið ykkar liggur, til starfa eða framhaldsnáms, mun háskólinn verða metinn eftir menntun  ykkar hér.
Fyrir hönd háskólans óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar hjartanlega til hamingju með þessi tímamót í lífi ykkar og ég óska ykkur velfarnaðar í því starfi, námi og lífi sem bíður ykkar.

Lifið heil og megi viska, gæfa og hamingja fylgja ykkur.
 
Þorsteinn Gunnarsson, rektor.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024