Handverksfólk á Suðurnesjum athugið
Fimmtudaginn 17. febr. kl. 17.30 mun Menningarráð Suðurnesja ásamt menningarfulltrúum sveitarfélaganna standa fyrir opnum fundi um handverk og hönnun. Fundurinn verður í Bíósal Duushúsa, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.
Við höfum fengið til liðs við okkur framkvæmdastjóra HANDVERKS OG HÖNNUNAR, Sunnevu Hafsteinsdóttur til að fjalla m.a. um skilgreiningar í handverki, hönnun og listiðnaði, verðlagningu á handverki og einnig fjallar hún um gæðamat handverks. Auk þess mun hún koma inná í sínum fyrirlestri minjagripagerð út frá þeirri spurningu hvað sé góður minjagripur.
Í framhaldi af þessum fundi mun Sunneva koma aftur til Suðurnesja og þá mun hún bjóða einkafundi fyrir þá sem óska eftir að leita ráða hjá henni varðandi handverk eða minjagripagerð.
HANDVERK OG HÖNNUN er sjálfeignastofnun. Fyrirtækið hefur staðið fyrir sölusýningum og markaði í Ráðhúsinu í nokkur ár, gefið út kynningarrit undir nafninu handverk og hönnun á Íslandi, þar sem kynntir eru einstaklingar sem starfa við handverk, hönnun og listiðnað. Auk þess hefur fyrirtækið staðið fyrir sumarsýningum og jólasýningum á handverki. Fyrirtækið sinnir einnig almennri ráðgjöf um landið í handverki og hönnun.
Tölulegar niðurstöður rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi sem nú liggja fyrir leiða í ljós að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Fjölgun listamanna á Suðurnesjum sem hafa lagt fyrir sig listsköpun sem fellur undir skilgreininguna skapandi greinar, er augljós öllum. Með því að styrkja og styðja við fagmennsku á öllum sviðum skapandi greina hvort sem er um að ræða grafisk- fata- eða vöruhönnun eða myndlist og handverk, eru möguleikar sjónlistar á Suðurnesjum miklir hvað varðar markaðssókn. Menningaráð Suðurnesja vill taka þátt í því að efla Suðurnesin á sviði skapandi greina m.a. með því að fá Sunnevu Hafsteinsdóttur til liðs við okkur. Ég hvet alla áhugasama til að nýta sér þetta tækifæri.
Björk Guðjónsdóttir verkefnastjóri Menningarráðs Suðurnesja.