Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Haltu sveppasýkingunni í skefjum
Fimmtudagur 4. júlí 2013 kl. 10:06

Haltu sveppasýkingunni í skefjum

Sumarið er yndislegur tími og landsmenn stunda sundlaugarnar af kappi. Það er gott að fá sér sundsprett og slaka svo á í heita pottinum, láta sólina skína á kroppinn og ræða heimsmálin.  Þeir sem stunda sundlaugarnar hafa orðið varir við það að auðvelt er að fá fótasveppi.

Fótasveppur er sýking af völdum sveppa, sem kallast dermatophytar. Fótasveppir eru nefndir tinea pedis, dermatophytosis eða athletes foot.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á húðinni eru ýmsar örverur, bæði bakteríur og sveppir. Örverurnar eru nauðsynlegar líkamanum og eru þáttur í náttúrulegri flóru líkamans. Við ákveðnar aðstæður raskast hlutföll örvera, það er baktería og sveppa og við það getur myndast sýking.

Sveppir lifa á dauðum húðfrumum, hári og nöglum og eru yfirleitt skaðlausir. Ef þeim fjölgar of mikið myndast sýking. Fótasveppir er algengur kvilli, sérstaklega hjá fullorðnu fólki en sjaldgæfari hjá börnum. Sveppirnir þrífast best við rakar og heitar aðstæður. Kjöraðstæður eru hjá þeim sem ganga í þröngum og lokuðum skóm og hjá þeim sem þrífa og þurrka fæturna ekki nógu vel, þannig að húðin helst rök. Fótasveppir eru smitandi og smitast bæði við beina og óbeina snertingu. Einnig berst smit með vatni í heitum pottum og sundlaugum. Fótasveppir eru algengt vandamál.

Helstu einkenni eru þau að sýking byrjar á milli tánna og færist undir ilina, húðin flagnar á milli tánna og kláði og sviði fylgir, útbrot, roði og bólga. Ysta lag húðarinnar verður hvítt og soðið undan svita og vatni. Blöðrur myndast, vessi getur lekið úr þeim og skorpa myndast yfir.  Húðin verður þurr og sprungin. Sveppirnir geta einnig lagst á neglurnar sem þykkna og gulna.

Gott ráð er að gæta þess að fæturnir séu ávallt þurrir og svalir. Fótasveppir þrífast best í raka og hlýju. Mikilvægt að hirða fætur vel, þvo fæturna daglega með vatni og sápu og láta þorna vel áður en farið er í sokka. Skipta um sokka að minnsta kosti daglega. Nota bómullarsokka eða ullarsokka, ekki nota sokka úr gerviefnum, því þeir halda raka á fætinum. Forðast að nota þétta og lokaða skó, ganga í leðurskóm og best er að nota opna skó. Gott er að púðra fæturna og jafnvel skó að innanverðu með talkúmi.

Oftast er hægt að greina sjúkdóminn út frá einkennum. Einnig er hægt að taka sýni úr húðútbrotum.

Batahorfur eru góðar, yfirleitt er hægt að halda fótasveppum í skefjum með fyrirbyggjandi aðferðum. Ef sveppasýkingin einskorðast við bilið á milli tánna og á húð, dugar oftast eigin meðferð. Hægt er að fá ýmis lyf, sem fást án lyfseðils í apótekum.  Helstu fylgikvillar sveppasýkingar er bakteríusýking í húð og getur hún komið í kjölfar sveppalyfjameðferðar. Þá ber að leita til læknis.

Helsta meðferð er staðbundin meðferð með sveppalyfjum. Til eru mismunandi lyfjaform  til útvortis notkunar, hlaup, krem, áburður og duft. Lyf í lausasölu eru Lamisil, Pevaryl, Canesten og Daktacort.

Njótum þess að vera til, slökum á og dekrum við okkur, því hver dagur er dýrmæt gjöf.

Sigríður Pálína Arnardóttir

Lyfju Reykjanesbæ