Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Haltu í höndina með stuðningi FFGÍR
  • Haltu í höndina með stuðningi FFGÍR
Mánudagur 24. febrúar 2014 kl. 10:32

Haltu í höndina með stuðningi FFGÍR

– Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri FFGÍR skrifar.

Erindi flutt á „Degi um málefni fjölskyldunnar“ í Reykjanesbæ 22.febrúar 2014.
FFGÍR eru regnhlífasamtök foreldrafélaganna í Reykjanesbæ. Ingigerður Sæmundsdóttir er verkefnastjóri samtakanna. Hún fluttu erindi á degi fjölskyldunnar í Reykjanesbæ og fór yfir gildi þess að vera skólaforeldri og áherslur FFGÍR.

Frá fyrsta degi til hins síðasta
FFGÍR hvetur foreldra til að halda í hönd barn síns frá fyrsta degi skólagöngunnar til hins síðasta.
Í tíu ár er barnið þitt í skóla sem mótar, byggir upp eða brýtur niður. Hvort sem börn eru viðkvæm og lítil í sér eða stór og sterk þá þurfa þau stuðning að heiman og verða að geta tjáð sig um skólann við þig.  
FFGÍR hvetur foreldra til að fylgja barninu eftir alla skólagönguna og vera vakandi yfir velferð þess.

Sérfræðingur í þínu barni
FFGÍR hvetur foreldra til að vera sérfræðingar í sínu barni.
Frá því að barnið þitt fæddist þá hefur þú átt drauma og væntingar um framtíð þess. Þegar barnið hefur skólagöngu þá fótar það sig í skólasamfélaginu alla daga. Það gengur misvel.
Hvað á barnið að borða?Hvað er viðeigandi klæðnaður? Hvaða leiðir eru hentugar fyrir barnið til að vaxa og dafna í samfélaginu? Þekki ég sjálfsmynd barnsins? Þú ert sérfræðingur í þínu barni varðandi skapgerð, tilfinningar, hvað hræðir barnið og hvað gleður það. Þú veist hvernig því líður innan um margmenni.  Er það öruggt með sig eða hlédrægt og inní sér? Þetta eru mikilvægar upplýsingar.
Umsjónarkenni meðtekur upplýsingar. Foreldrar ráðfæra sig við umsjónarkennarann. Hvaða mynd dregur barnið af sér í skólanum? Er eitthvað sem þú vilt að kennarinn taki eftir og hjálpi við að styrkja barnið náms- og félagslega? Foreldrar vita allt um svefn, heilsu, næringu og streituvalda barnanna. Sumt er erfitt að tala um en gott fyrir fagfólk að vita. Treystu á þagnarskyldu kennara og fagmennsku.
Ef barnið er svangt, þreytt og með áhyggjur þá skilar það sér beint inní skólastofuna og kemur niður á líðan og námsárangri. Þú ert sérfræðingur í þínu barni svo langt sem það nær en þú kynnist því betur ef þú veist hvað það gerir í skólanum.
FFGÍR hvetur alla foreldra til að vera í góðum samskiptum við kennara.

Auðlind í skólastarfi
FFGÍR hvetur foreldra til að vera virkir í skólastarfi. Foreldrar eru auðlind í skólastarfi.
Í grunnskólum starfa foreldrafélög, í bekkjum eru bekkjarfulltrúar og foreldrar eiga fulltrúa í skólaráðum. Rannsóknir sýna að þegar foreldrar taka virkan þátt í skólastarfi er frammistaða barna þeirra betri, sjálfstraustið meira og viðhorfið jákvæðara.
FFGír hvetur foreldra til að leggja sitt af mörkum, foreldrasamstarf er mikilvægt, skemmtilegt og gefandi en fyrst og fremst í þágu barnsins þíns.

Efla félagstengsl barnanna
FFGÍR hvetur foreldra til að kynna sér það sem er í boði í skipulögðum tómstundum innan skóla og utan.
Þarf barnið mitt að kynnast tómstundum? Kemur þetta skólastarfi við? Er barnið mitt eitt af þeim sem á engin áhugamál? Það gæti heft það í umræðum í skólanum og verkefnavinnu þar sem kennarar ganga út frá því að allir eigi sér einhver áhugamál. Ég hef sjálf þurft að bregðast hratt við í skólastofunni þegar ég ungur kennari í einfeldni minni gerði ráð fyrir að öll börn ættu sér áhugamál. Mér fannst sjálfsagt að börn hittust eftir skóla í skipulögðum tómstundum eða í vinahóp. Ég var fljót að komast að því að mörg börn eru einmanna eftir skóla og það var enginn að hjálpa þeim.
FFGÍR hvetur foreldra til að vera vakandi ef barninu líður illa innan skólans og utan.

Heimanám og daglegt líf
FFGÍR hvetur foreldra til að styðja við börnin og hvetja þau til að setja sér markmið í námi og lífi.
Það er mismikið heimanám eftir kennurum, árgöngum og nemendum. Hver ákveður gildin og áherslur í lífi barnsins? Hversu miklum tíma er varið í heimanám? Stjórnar kennarinn því eða ég sem foreldri? Settu ramma varðandi heimanám, barnið getur lært meira en fyrir er lagt en ekki minna nema þá í samráði við kennara. Ef heimanám slagar í 4 klst. vinnu eftir skóla alla daga þá þarf að láta kennara vita. Sum börn eru mjög lengi að vinna heimavinnu á meðan aðrir ljúka heimavinnunni í skólanum.
FFGÍR hvetur foreldra til að lesa fyrir og með börnum sínum og að hlusta á þau lesa fram eftir öllum aldri.

Viðhorf
FFGÍR hvetur foreldra til að tala jákvætt um skólastarfið.
Viðhorf nemenda endurspeglar viðhorf foreldra. Ef það er eitthvað sem þér finnst óeðlilegt varðandi skólagöngu barnsins er nauðsynlegt ræða málin. Ekki setja undir þig hausinn og geyma hann þar.
FFGíR hvetur alla foreldra til að virða kennara og aðstoða við að ná því besta fram í barninu náms- og félagslega.

Skóladagatal og tímaskipulag
FFGÍR hvetur foreldra til að kynna sér skóladagatal og skipuleggja tíma sinn með tilliti til þess.
Það eru gerðar kröfur til foreldra um að standa sig gagnvart skólanum. Foreldrar gera líka kröfur um að kennarar og annað starfsfólk standi sig sem starfsmenn menntastofnunar.
FFGÍR hvetur foreldra til að nota tengslanet sitt ef þeir komast ekki í skólann til að vera viðstaddir ýmsar uppákomur. Ömmur, afar, vinkonur, vinir, frænkur eða frændur geta verið staðgenglar foreldra.
FFGÍR hvetur foreldra til að mæta á þá viðburði sem þeim er boðið á innan skólans eða senda staðgengil.

Vertu til staðar, alla leið
Vertu vakandi fyrir velferð barnsins og haltu í höndina á því þar til það er öruggt og farið að ganga eitt. Vertu þó í humátt á eftir. Það líður ekki á löngu þar til barnið situr með silfurgráan makka í sólskininu, minnist þín og þakkar fyrir stuðninginn í lífi, námi og starfi.
FFGÍR hvetur skólaforeldra til að njóta þessara ára sem eru svo dýrmæt og gefandi í bland við erfið og átakanleg.

Ingigerður Sæmundsdóttir,
verkefnastjóri FFGÍR

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024