Haltu í höndina á mér
Skólaárið 2010-2011 er hafið. Foreldrar taka mikilvægar ákvarðanir sem snúa að börnunum. Þeir panta áskriftir í mjólk og mat, skrá í tómstundir og kaupa skólagögn. Að mörgu er að hyggja þegar skólaganga hefst að ný eða í fyrsta sinn.
1. Hvaða leið er öruggust fyrir barnið í skólann? Upplagt að ganga eða hjóla með barninu fyrstu dagana.
2. Hvaða nemendur eru með barninu í bekk eða rými? Gott að renna yfir bekkjarlistann með barninu og kortleggja hverjir búa nálægt með tilliti til leikfélaga og vináttu.
3. Hvaða kennarar koma að bekknum? Kennarar eru með viðtalstíma fyrir foreldra sem gott er að nýta til spjalls og ráðagerðar.
4. Hverjir eru bekkjarfulltrúar fyrir bekkinn? Bekkjarfulltrúar taka að sér að vera tengiliðir við stjórn foreldrafélagsins og umsjónarkennarans við hina foreldrana í bekknum. Foreldrar geta sýnt frumkvæði og lagt sig fram í samstarfi við bekkjarfulltrúa að stuðla að góðum bekkjaranda og samstöðu foreldra.
Þessi fjögur atriði eru ekki tæmandi fyrir verkefnin sem framundan eru. Foreldrar þurfa að styðja 100% við skólagöngu barna sinna og vera meðvitaðir um líðan og námsframvindu þeirra.
Þegar líða fer á skólaárið þá mæta foreldrar í skólana samanber skóladagatöl hvers skóla. Það eru foreldradagar, samskiptadagar, árshátíð, vorhátíð, nemendasýningar og fleira skemmtilegt sem stoltir foreldrar láta sig ekki vanta á.
Ég vona að skólaárið 2010-2011 verði ár foreldra, nemenda og kennara. Skólaár þar sem við höfnum einelti og ofbeldi en biðjum um kærleika, samvinnu og ábyrgð. Höldumst í hendur og stuðlum að velferð allra nemenda í Reykjanesbæ.
Fyrir hönd FFGÍR,
Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri FFGÍR