HALLÓ ÍSLAND
Nú fer í hönd ein mesta ferðahelgi ársins og einnig sú helgi sem foreldrar margra ungmenna kvíða fyrir. Foreldrum eru í fersku minni fréttir síðustu ára um unglingadrykkju, slys og atvik sem mörg hver eru óbætanleg. Á mörgum heimilum fara nú fram samningaviðræður um hvort og hverjir fá leyfi til fara og þá hvert. Undir samningaviðræðunum óma viðvörunarorð til foreldra um að gæta barna sinna vel þessa helgi.
Mikilvægt er að foreldrar tali saman, hafi í huga landslög og muni eftir 18 ára ábyrgð sinni á börnum sínum. Áfengislöggjöfin er líka eitthvað sem gott væri að ræða og sú sameiginlega ábyrgð sem allir fullorðnir þegnar þessa lands hafa á börnum. Öll þurfum við að axla ábyrgð og vera meðvituð um það sem að okkur snýr. Á ég þar ekki einungis við foreldra heldur líka skemmtanahaldara, þá sem stunda verslun með áfengi og ekki síst sveitarstjórnir og sýslumenn um allt land.
Ýmis forvarnarsamtök, umferðarstofa og lögreglan keppast við að senda foreldrum og öðrum skilaboð fyrir þessa helgi um það sem helst þarf að varast og ekki skal gera lítið úr þeim sem vilja styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Fjölmiðlar maka krókinn á öllu auglýsingaflóðinu og eftirá spyrja menn sig hvort áróðurinn hafi skilað einhverjum mælanlegum árangri. Sveitarfélög setja fram forvarnarstefnu og ríkisstjórnin og ráðuneyti hvetja til heildrænnar forvarnarstefnu. Allt snýst þetta um að vekja fólk til umhugsunar um það sem betur má fara og breyta viðhorfum okkar til hátternis eða þess sem við líðum eða líðum ekki í samfélagi okkar sem sé samfélagslegrar ábyrgðar. Það er svo annað mál hvernig framkvæmdin er. Eru unglingarnir okkar settir ofurölvi eða í vímu í gáma og látnir sofa úr sér án eftirmála eða eru þeir sendir heim og þar til bær barnaverndaryfirvöld látin vita? Látum við okkur varða um náungann og annarra manna börn eða sér bara hver um sig og sína?
Margir aðilar eru í viðbragðstöðu fyrir helgina bæði heima og heiman og öll þurfum við að vera á verði. Líka þeir sem heima sitja í nágrenni yfirgefinna heimila. Sýnum ábyrgð og verum til staðar fyrir börn, unglinga og hvert annað þessa helgi. Góða skemmtun!
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Verkefnisstjóri hjá Heimili og skóla-
landssamtökum foreldra