Halldór Gunnarsson í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Á fundi kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi 13. til 14 október 2012 tilkynnti Halldór Gunnarsson í Holti framboð sitt með eftirfarandi yfirlýsingu:
Undirritaður, sem er formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins vill gefa kjósendum flokksins í Suðurkjördæmi möguleika á að velja mig til forystu, sem þingmann á Alþingi.
Ástæða þess er, að ég tel rétt að bjóða upp á nýja valkosti um þingmenn flokksins til að berjast fyrir stefnumálum Sjálfstæðisflokksins og samþykktum hans.
Ein þýðingarmesta samþykkt síðasta landsfundar í nóvember 2011 var ályktun um fjármál heimilanna, sem ég beytti mér fyrir um samþykkt á, sem síðan var að hluta tekin upp og samþykkt í stjórnmálaályktun og síðar áréttuð í samþykkt flokksráðsfundar í mars 2012.
Í stjórnmálaályktuninni segir: „Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Aðgerðir til lausnar skulda einstaklinga eiga að vera almennar en ekki það sértækar að leiði til mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.“
Þingmenn flokksins hafa ekki séð ástæðu til að fylgja þessari samþykkt eftir, né mörgum öðrum samþykktum frá landsfundum síðustu ára. Það verður að koma með úrlausnir gagnvart þeim mikla vanda, sem þjóðin stendur frammi fyrir og er ég reiðubúinn að tala fyrir þeim, jafnframt því að fylgja eftir samþykktum landsfunda flokksins.
Ég er hlaðinn reynslu í félagsmálastörfum, barðist fyrir stofnun búgreinafélaga og breytingum á félagsstörfum bænda. Var framkvæmdarstjóri Félags hrossabænda með setu á aðalfundum bænda og í Framleiðsluráði landbúnaðarins og sat í stjórn landbúnaðarnefndar Sjálfstæðisflokksins í mörg ár eða þar til nefndin var lögð niður og sat einnig á Kirkjuþingi, kosinn í kirkjuráði og var einn af aðal samningamönnum kirkjunnar um eignamál hennar og sjálfstæði, sem náðist í nokkrum áföngum.
Þeir sem þekkja mig, segja að ég sé ódrepandi hugsjónamaður, sem berjist til þrautar með málafylgju og rökum fyrir skoðunum, sem ég telji réttar.
Þannig forystumann tel ég að Sunnlendingar vilji kalla til starfa við þær aðstæður sem nú eru í samfélagi okkar og því býð ég mig fram til að leggja öllum góðum málefnum lið til heilla fyrir þjóð okkar.
Halldór Gunnarsson