Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hagvöxtur til framtíðar
Föstudagur 9. nóvember 2012 kl. 17:18

Hagvöxtur til framtíðar

Nú þegar við sjáum til lands eftir endurreisn efnahags og samfélags frá stórkostlegu efnahagshruni þurfum við að varða leiðina að stöðugum hagvexti til framtíðar. Þar er þrennt sem skiptir mestu.

Menntun og hagvöxtur
Til stuðnings öflugu atvinnulífi þarf öfluga skóla. Því þarf að styrkja menntastofnanir til góðra verka sem skila sér ríkurlega til samfélagsins til langs tíma. Á Suðurnesjum er kjölfestan Fjölbrautaskóli Suðurnesja þar sem um 1.100 Suðurnesjamenn stunda nám. Keilir á Ásbrú, Fisktækniskólinn í Grindavík, MSS í Reykjanesbæ og Þekkingarsetrið í Sandgerði eru allt stofnanir sem styrkja samfélagið og það gera tónlistarskólarnir einnig.

Nýsköpun og sprotar
Nýsköpun er annar mikilvægur þáttur og mun skipta miklu máli fyrir atvinnulífið á næstu árum. Nú þegar eru styrkir veittir til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar og þróunar og rannsóknar- og tæknisjóðir verða efldir á árinu 2013 með veiðigjaldinu. Sem fjármála- og efnahagsráðherra setti ég af stað vinnu í ráðuneytinu við að undirbúa frumvarp um skattaafslátt til þeirra sem fjárfesta vilja í nýsköpunarfyrirtækjum. Þegar allt þetta vinnur saman ásamt hugmyndaauðgi og krafti heimamanna þá munu nýsköpunarfyrirtækin blómstra og veita fjölbreytt atvinnutækifæri. Mörg þeirra munu skapa verðmæt störf og verðmætar vörur ef þau fá viðeigandi stuðning.

Útflutningur og arður
Í þriðja lagi þurfum við að huga vel að þeim greinum sem við byggjum útflutning okkar helst á. Þær eru  undirstaða hagvaxtar.  Vinna þarf markvisst að því að útflutningsgreinarnar skili auknu fé til samfélagsins. Allt eru þetta atvinnugreinar sem lifa á íslenskri náttúru og auðlindum hennar. Ferðamannaiðnaðurinn, orkufyrirtækin í gegnum stóriðjuna, útgerðin og fiskvinnslan. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá komu fram skýr skilaboð um auðlindir í þjóðareign. Það gerir um leið þá kröfu að þjóðin njóti arðseminnar sem auðlindirnar skapa og að ekki verði gengið á þær með ósjálfbærum hætti.

Suðurnesin og tækifærin
Suðurnesin hafa allt til að bera sem vænlegur búsetukostur. Hér eru greiðfærir vegir og samgöngur góðar, ágætar hafnir og alþjóðaflugvöllur. Náttúrufegurð og jarðvangur innan seilingar. Góðir skólar og íþróttastarf. Styrkleikar svæðisins eru ótvíræðir. Við þurfum að laða að fyrirtæki sem veita fjölbreytt og verðmæt störf. Umhverfið og innviðirnir eru til staðar. Góð samvinna sveitarfélaganna á Suðurnesjum mun greiða fyrir því að hagvöxtur svæðisins aukist. Góð samvinna ríkis og sveitarfélaga mun einnig vinna að því marki.

Oddný Harðardóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024