Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hagnýta pottaplöntubókin
Föstudagur 22. mars 2019 kl. 07:00

Hagnýta pottaplöntubókin

Líkt og koma Astoríu, fyrsta skemmtiferðaskips sumars til Reykjavíkur boðar vorið, hefur svartþrösturinn hafið upp vorraust sína í görðum landsmanna í innsveitum og á suðvesturhorninu eftir langa vetrarþögn. Þessi nýbúi á Íslandi er mikill aufúsugestur, minnir mann í senn á söng Bítlana (Black Bird) og færni Rodgers Wittakers í varaleik með blísturshljóðum sínum.

Mögnuð framsetning vortóna svartþrastarins minnir oft á tíðum á dúet, þar sem hvellir undirtónar harmónera við spuna hátóna þá karlfuglinn hreykir sér í trjátoppum löngu fyrir birtingu, sérstaklega þá dumbungur er. Svartþrösturinn fellur því undir skilgreiningu á A einstaklingi, árrisull eins og þeir sem fyrstir mæta í íþróttamiðstöðvarnar eða spranga um götur áður en vinna hefst. Hann er þegar farinn að líta eftir hentugu hreiðurstæði og má búast við að fyrstu eggin líti ljós í lok mars, 3-5 verða þau á stærð við 10 krónupening.  Vinkona mín í Sandgerði býr í sambýli við hann og fylgjist með mikilli frjósemi, þar sem hann kemur upp þremur fjölskyldum yfir sumarið. Ritari er enn ekki farinn að fjarlægja lítinn, fallegan þin, sem komið var fyrir undir skyggni við innganginn á húsinu og skreyttur var led-ljósaperum um jólin. Ástæðan sú, að svarþrösturinn gerði sig heimakominn í tréð að kvöldlagi, sérstaklega ef veður voru válynd, og hreyfði sig ekki þótt gengið væri framhjá honum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkt og aðrir vorboðar, vaknar Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands upp af vetrardróma og hvetur til vorverka. Nú er rétti tíminn til tiltektar í garðinum, klippingar runna og fellingar trjáa. Gott er að nýta suðurglugga til að sá fyrir sumarplöntum sem síðar eru færðar í potta til þroska. Gott er að forrækta tómata, chilipipar, papriku og fenníku. Gróðurhús og reitir skulu hreinsuð og skipt um mold eftir þörfum. Þá má bæta moltu í beðinn, þar sem ræktun matjurta fer fram. Enn er helst til snemmt að hreinsa blómabeðin því þar fer fram rotnun laufblaða eftir veturinn, sem verndar þær plöntur sem fyrir eru, auk þess að bæta við lífríki moldarinnar.

Suðurnesjadeildin ætlar að hefja vorstarfið með því að kynna til sögunnar nýútkomna bók á vegum Forlagsins í samvinnu við Bókasafn Reykjanesbæjar sem verður gestgjafinn að þessu sinni.

Bókin, Hagnýta pottaplöntubókin, er biblía áhugafólks um hvernig á að halda plöntum á lífi.

Þar er lýst á einfaldan og skýran hátt, skref fyrir skref, hvernig hægt er að rækta blómlegar og heilbrigðar pottaplöntur og tryggja að þær dafni sem best allan ársins hring. Ljóst er að bókin er mikill fengur fyrir íslensk heimili, þar sem þykir afskaplega móðins nú um stundir að fylla heimilið af blómum.

Við fáum að hlýða á tvo löngu landskunna garðyrkjufræðinga sem fylgja bókinni úr hlaði. Annars vegar Hafstein Hafliðason, heiðursfélaga garðyrkjunnar, sem lengst af starfaði hjá Blómavali. Hann er mikil goðsögn um garðryrkju og heldur úti virkri ræktunarsíðu á Fésbók.

Hins vegar Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu og verkefnastjóra Garðyrkjufélags Íslands og nú framkvæmdastjóra félagsins. Hann er Suðurnesjadeildinni löngu kunnur fyrir sín fræðastörf og hefur marg oft haldið hér fyrirlestra.

Báðir þessir fyrirlesarar hafa komið að uppbyggingu bókarinnar, sem er í þýðingu Margrétar J. Matthíasdóttur.

Fundurinn verður haldinn á Bókasafni Reykjanesbæjar, mánudaginn 25. mars kl. 19.30.

Öllum er frjáls aðgangur að þessum hlýlega fundarsal, léttar veitingar í boði.

Konráð Lúðvíksson,
formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands