Hagnaður ríkis á kostnað Reykjanesbæjar
Það hefur nú fengist staðfest að ríkið hefur haft u.þ.b. 10 milljarða í beinan hagnað af sölu fasteigna á gamla varnarsvæðinu. Nú er svo komið að flestar fasteignir eru komnar í hendur einkaaðila sem ætla sér að hámarka arð sinn af þessum fjárfestingum. Það setur aukna fjárhagslega pressu á sveitarfélagið sem þarf að auka þjónustu á svæðinu m.a. með því að fjölga leikskólarýmum og stækka grunnskóla, á sama tíma og verið er að glíma við miklar skuldir fortíðar.
Reykjanesbær hefur alveg frá árinu 2006 þjónustað þá sem fluttu inn á varnarsvæðið og hafa útgjöld verið umtalsverð umfram tekjur. Á sama tíma setti ríkisvaldið sérlög fyrir sjálft sig til þess að þurfa ekki að greiða fasteignagjöld til sveitarfélagsins og juku þannig enn meira við hagnað sinn.
Ætla má að sú hagnaðaraukning hafi numið nokkur hundruð milljónum á kostnað Reykjanesbæjar. Núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherrar hafa ekki ljáð máls á því að skilja eftir eitthvað af þessum mikla hagnaði hér á svæðinu.
Mér finnst hins vegar eðlilegt að ríkið endurgreiði okkur fasteignagjöldin sem tekin voru af okkur með sérlögum. Rökin fyrir þessum sérlögum voru að þessar eignir væru ekki í notkun. Ég veit hins vegar ekki til þess að við íbúar höfum fengið einhvern afslátt af fasteignagjöldum bara af því að húsin okkar hafi staðið auð. Það er ósanngjarnt að krefjast þess af Reykjanesbæ að veita þjónustu á sama tíma og tekjumöguleikar sveitarfélagsins voru skertir. Ríkið bara selur og eftirlætur Reykjanesbæ að vinna úr þeim afleiðingum sem þessari sölu fylgir. Það er gott að geta verið stikkfrí.
Guðbrandur Einarsson
oddviti Beinnar leiðar