Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hagir og líðan grunnskólanema í Reykjanesbæ
Föstudagur 31. október 2008 kl. 09:45

Hagir og líðan grunnskólanema í Reykjanesbæ

Í forvarnarvikunni kynnti Rannsókn og greining ehf. niðurstöður rannsóknar sinnar um hagi og líðan nemenda í  8.,9. og 10.bekk í Reykjanesbæ 2008.  Ég vil byrja á að hrósa unglingunum okkar með árangur sinn þegar kemur að rannsóknarniðurstöðum um notkun tóbaks, - áfengis – og annarra vímugjafa.  Neysla þessara vímugjafa hefur á síðastliðnum 10  árum haldið áfram að dragast saman hjá unglingunum okkar og fleiri og fleiri nemendur fara í gegnum grunnskólann án þess að neyta nokkurra vímuefna, hvort heldur tóbaks, áfengis eða annarra vímugjafa. Það er mikill minnihluti nemenda sem prófar eða notar þessi efni á grunnskólaaldri og með sama áframhaldi verða krakkarnir okkar búnir að gera grunnskólana tóbaks-áfengis-og vímuefnalausa áður en lagt um líður.  Þannig eru það um 80 - 90% nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskólanna í Reykjanesbæ sem ekki neyta ofangreindra efna á móti 10 - 20% nemenda sem hafa fallið í freistni á sínum mótunarárum og þurfa aðstoð við að komast útúr þessu fikti eða neyslu sem fyrst.
Foreldrar og forráðamenn barna eru  mikilvægasta forvörnin og því mikilvægur stuðningur við sín eigin börn og félaga þeirra.  Meðvitund og virkni foreldra um þeirra hlutverk er alltaf að aukast  en miðað við rannsóknarniðurstöður þurfum við foreldrar og forráðamenn að gera enn betur.  
Eftirlit og stuðning foreldra í Reykjanesbæ  við börnin sín þarf að efla og þar er hvert og eitt foreldri í lykilhlutverki.  T.d.  virðist strákum almennt vera settar minni reglur um hvað þeir megi gera utan heimilis en stelpum og betur er fylgst með félagsskap  stelpna en stráka. Verulega er ábótavant að reglur um útivistartíma barna séu virtar þó svo að þær reglur séu settar til að verndar börnunum okkar  og þar þurfa foreldrar og forráðamenn að taka sig á.  Þegar skoðað er hvar unglingarnir drekka þá er það algengast að það sé heima hjá öðrum unglingum sem þeir fá skjól fyrir neyslu sína. Þessu þurfa foreldrar og forráðamenn að breyta.
Framundan er Forvarnardagurinn , haldinn í þriðja sinn 6. nóvember nk. að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við fjölmarga aðila og með sérstökum stuðningi Actavis. Tilgangurinn með Forvarnardeginum er að fá fram sjónarmið unglinganna sjálfra og hlusta á skoðanir þeirra og reynslu.  
Unglingarnir hafa margar hugmyndir og óskir þegar kemur að því að verja meiri tíma með fjölskyldum sínum.  Þau leggja áherslu á að samverustundir þurfi ekki alltaf að vera skipulagðra fyrirfram eða kosta mikið, aðalatriðið sé að vera meira saman. Nefna unglingarnir atriði eins og að borða saman, elda og baka saman, fjölskyldan komi sér upp sameiginlegu áhugamáli eða fjölskyldumeðlimir taki meiri þátt í  áhugamálum hvers annars, tali meira saman um lífið og tilveruna, hreyfi sig sama og fleira í þeim dúr. Með aukinni samveru beri  unglingurinn meiri virðingu fyrir fjölskyldunni og kynnist henni betur og þau kynni og tengsl  verða gagnkvæm og fjölskyldan samheldnari, opnari og auðveldar að finna fyrir stuðningi og trausti. Að kynna sér svör unglinganna í þessum verkefnum er eins og að lesa í reynslubrunn afa og ömmu. Löngunin í gömlu gildin eru enn til staðar. Löngunin í náin tengsl, væntumþykju, traust, skilning, stuðning, nærveru og samveru.
Rannsóknir hafa einnig sýnt mikilvægi sterkar tengsla milli unglinga og foreldra þeirra, tengsl sem seint verða ofmetin. Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna fram á að;
•    Samvistartími og samvera unglinga með foreldrum og fjölskyldu hafa margvísleg jákvæð áhrif á líf þeirra
•    Eftirlit og stuðningur foreldra við unglinga og samvera foreldra með þeim dragi úr líkum á því að unglingar eignist vini sem hafi neikvæð áhrif á líf þeirra og  séu líklegri til að standast hópþrýsting jafnaldra sinna
•    Umhyggja og eftirlit foreldra með unglingum tengist minni líkum á vímuefnanotkun unglinga
•    Jákvæð tengsl séu á milli stuðnings og aðhalds foreldra og námsárangurs unglinga og betri líðan í skóla
Og síðast en ekki síst hafa rannsóknir sýnt fram á að unglingar sem eru í nánum tengslum við foreldra sína séu ólíklegri en aðrir unglingar til að eiga við margvísleg sálræn og félagsleg vandamál að stríða.
Foreldrar og forráðamenn, tökum höndum saman og stuðlum að betri tengslum innan fjölskyldunnar og betri líðan allra þeirra sem tilheyra fjölskyldu okkar, vinum og vandamönnum. Við viljum tilheyra, finna að við erum hluti af heild, vera metin að verðleikum og vera elskuð. Þar sem upplifanir virðast hafa bein áhrif á alla okkar líðan þá virðist vera vit í því að vera saman, tala saman ,  hlusta á hvort annað og vera meðvituð um það, að það er í lagi að vera ósammála. Það er líka í lagi að gera mistök svo framarlega sem maður reyni strax að bæta úr þeim, beri ábyrgð á hegðun sinni og reyni að leiðrétta mistökin. Við verðum að geta treyst hvort öðru, geta gengið út frá því að okkur gangi gott eitt til og hugsum jákvætt um hvort annað. Svik, vanvirðing, einmannaleiki, höfnun og sektarkennd eru allt tilfinningar sem hafa neikvæð áhrif á líðan okkar.  Hvert og eitt okkar þarf að axla sinn hluta af ábyrgðinni í samskiptum, hvort sem um er að ræða samskipti við börn, milli barna, við maka, vinnufélaga eða aðra.

Hera Ósk Einarsdóttir,
félagsráðgjafi
Verkefnastjóri hjá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024