Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hafðu heilsuna með þér
Laugardagur 15. maí 2021 kl. 07:56

Hafðu heilsuna með þér

Sigríður Rósa Kristjánsdóttir heiti ég og er 50 ára gamall Njarðvíkingur með mikinn áhuga á líkamsrækt. Mig langar til þess að hjálpa öðrum og opna á umræðu um sjúkdóm/kvilla sem hefur ekki mikið verið í umræðunni í samfélaginu til þessa að mínu mati. Það eru skjaldkirtilssjúkdómar og afleiðingar þeirra.

Skjaldkirtillinn hefur það mikilvæga hlutverk að stjórna þróun efnaskiptanna, hitastigi líkamans, orkuframleiðslu og kolvetna- og fituefnaskiptum. Í mínu tilfelli þá greinist ég með mjög latan skjaldkirtil sem þýðir það að hann starfar ekki eins vel og hann ætti að gera þannig að það hægist á efnaskiptunum, t.d orsakar minni fitubrennslu. Hæg efnaskipti draga verulega úr þreki og geta leitt til alvarlegra veikinda ef ekkert er að gert, einnig haft mikil áhrif á andlega líðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir mig var þetta umtalsverð breyting á lífinu að greinast með latan skjaldkirtil en þrátt fyrir minn bakgrunn úr líkamsrækt sem einkaþjálfari, spinning-kennari og yoga-kennari sem dæmi þá ákvað ég að leita mér hjálpar til þess að afla mér dýrmætri reynslu sem ég get svo miðlað til annara í sömu/svipaðri stöðu. Það er nefnilega þannig með ansi marga sjúkdóma og kvilla að ef viljinn er fyrir hendi og fólk breytir hugarfarinu og ræktar líkama jafnt sem sál, þá eru allir vegir færir. Þess vegna ætla ég í heilt átta mánaða átak til þess að sýna hvað er hægt að gera til þess að fá sem mesta virkni og árangur með lífstílsbreytingum og hugarfari.

Líkt og svo margir aðrir þá hafði ég misst talsvert dampinn í Covid-fárinu en núna verður lagt af stað í átak með góðum aðilum mér við hlið. Hef ég fengið einkaþjálfarann Loga Geirsson með mér í lið en ég hef áður tekið árs fjarþjálfun hjá honum og líkað afar vel. Þar var prófað margt til þess að bæta þol, auka styrk og ná af aukakílóum sem getur reynst þrautinni þyngra með latan skjaldkirtil. Logi mun láta mig fá matar- og æfingarplan í þessa átta mánuði sem mun þó taka breytingum fjórum sinnum á þessum langa tíma enda fjölbreytni mikilvæg á þessu tímabili. Myndir og mælingar verða teknar fjórum sinnum á þessu tímabili svo ég sjálf og þið öll getið séð muninn og árangurinn. Einnig ætlar hún Ágústa Guðný Árnadóttir hjá Líkami & Boost að vera minn leiðbeinandi með vítamín og fæðubótarefni sem er afar mikilvægt.

Mér þótti það skynsamlegt að leita til þessara aðila með aðstoð við þetta verkefni enda tel ég lykilinn að betri heilsu og líferni að opna á hlutina og vera óhrædd(ur) að leita sér aðstoðar. Markmið mitt með þessu átaki er að opna á umræðuna um Skjaldkirtilssjúkdóma/-kvilla og vonandi hjálpa einhverjum í svipaðri stöðu. Síðan mín mun gera ykkur kleift að fylgjast með öllu ferlinu hjá mér frá A til Ö, mun setja inn helling af fróðleik og einnig fara yfir hvernig þetta allt byrjaði hjá mér.

Á þessum tímamótum í lífinu, þ.e.a.s. við fimmtugsaldurinn, þá er ég farin að huga að framtíðinni. Á mér t.d. þann draum að flytja til Spánar og ferðast víðar og góð líkamleg og andleg heilsa er algjör lykill í þeim framtíðaráætlunum. Við eigum bara eitt líf og einn líkama, hlúum vel að okkur. Hvet ykkur eindregið til þess að fylgjast vel og það er einlæg von mín að þetta hvetji og hjálpi öðrum.

Virðingarfyllst,
Sigríður Rósa Kristjánsdóttir

https://www.facebook.com/Siggakr70

https://www.instagram.com/sigga.kr/.