Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hafa skal það sem sannara reynist
Fimmtudagur 12. apríl 2007 kl. 11:12

Hafa skal það sem sannara reynist

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta er greint frá því að Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja (HS), hafi á nýafstöðnum aðalfundi fyrirtækisins lýst furðu sinni á meintum málflutningi Landverndar varðandi framtíðarsýn um eldfjallagarð á Reykjanesskaga. Júlíus segir að svo virðist sem samtökin hafi misreiknað væntanlegar tekjur af eldfjallagarðinum.

Af þessu tilefni skal tekið fram að Landvernd hefur ALDREI lagt fram neinar tölur um áætlaðan efnahagslegan ávinning af eldfjallagarði á Reykjanesskaga. Samtökin hafa aðeins bent á að eldfjallagarður feli í sér jákvæð áhrif á efnahag, samfélag og umhverfi í anda sjálfbærrar þróunar og sé því vænlegur kostur til atvinnuppbyggingar. Eldfjallagarður leiðir ekki af sér umfangsmikið rask á náttúruverðmætum um gjörvallann Reykjanesskagann eins og sumar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu myndu gera.

Hugsanlega má rekja þennan misskilning Júlíusar til þess að Landvernd hélt ráðstefnu um eldfjallagarðinn í Kirkjulundi á dögunum. Á ráðstefnunni voru fjölmargir framsögumenn, þar á meðal Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS, sem greindi frá hugmyndum um orkuver og auðlindagarða og Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur, sem fjallaði um eldfjallagarð á Hawaii-eyjum. Ætla verður að Júlíus sé með orðum sínum að vísa til framsögu Ástu á þessari ráðstefnu en þar var greint frá beinum tekjum garðsins á Hawaii og að við þær bætist tekjur af gistingu og annarri þjónustu sem gestir garðsins þurfa einnig á að halda. Í þessu samhengi má benda á að samkvæmt gögnum Kaupþing þá skila 50.000 ferðamenn liðlega 5 milljörðum kr. í tekjur.  Ásta Þorleifsdóttir hefur að undanförnu fjallað um eldfjallagarðinn á Hawaii í fjölmiðlum og á ýmsum ráðstefnum sem hinir ýmsu aðilar hafa staðið fyrir. Eins og gefur að skilja þá bera framsögumenn sjálfir faglega ábyrgð á erindum sínum en ekki sá sem stendur fyrir ráðstefnunni. Það gildir um Albert og Ástu sem og alla aðra framsögumenn á öllum ráðstefnum hvort sem þær eru haldnar af Landvernd eða öðrum aðilum. Ef vankantar eru á tölulegum upplýsingum sem fram koma í einstökum erindum þá er ekki hægt að kenna ráðstefnuhaldara um það. Annars mætti segja að til þess að vera samkvæmur sjálfum þá þyrfti Júlíus á næstunni að fagna málflutningi Landverndar um orkuverin og auðlindagarðana sem Albert Albertsson greindi frá á ráðstefnunni. En þar var að sjálfsögðu á ferðinni málflutningur HS en ekki Landverndar þó svo Landvernd hafi staðið fyrir ráðstefnunni.

Landvernd er frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að bæta lífsgæði almennings nú og í framtíðinni. Landvernd er virkur þátttakandi í stefnumótun, umhverfisfræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindanýtingu, náttúru og umhverfi. Samtökin láta frá sér umsagnir, tilmæli og álitsgerðir um þingmál, tillögur og framkvæmdir sem hafa umtalsverð áhrif á náttúruna og umhverfið. Samtökin undirbyggja vandlega málflutning sinn t.d. með opnum ráðstefnum og fundum. Samtökin leggja metnað í fagleg og málefnaleg vinnubrögð og komi eitthvað frá þeim sem betur mætti fara þá halda þau ávallt í það sem sannara reynist. 

Í þessu tilfelli var Landvernd höfð fyrir rangri sök á aðalfundi HS. Engin frá Landvernd var viðstaddur fundinn og því var ekki borin fram viðeigandi leiðrétting þar, sem er afar bagalegt. Það munu ekki allir sem viðstaddir voru aðalfund HS lesa þessa grein og því hafa orð forstjórans skaðað samtökin. Landvernd hefur í gegnum árin átt afar gott samstarf við HS og væntir þess að svo verði áfram þrátt fyrir þessa uppákomu. Lesendur eru að lokum hvattir til að kynna sér framtíðarsýn um Reykjanesskagann sem eldfjallagarð og fólkvang á heimasíðu samtakanna. 

 

 

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024