Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 9. desember 1999 kl. 22:08

HAFA SKAL ÞAÐ SEM SANNARA REYNIST

Nokkuð er liðið síðan Sögunefndin sendi frá sér eitt blað, A4. Ætlast er til að það fylgi bókinni. Gert er ráð fyrir að klippa blaðið niður og líma svo yfir vitlausa text með 8 myndum í bókinni. Þótt þetta verði nokkur lýti á útliti, er það skárra en að leiðrétta ekki. Lágmark væri að bæta við einni eða tveimur „límmiðaörkum“ nóg verður óbætt samt. Ég ætla nú að gera tilögu um leiðréttingu á því sem vantar varðandi myndatextana. Á bls, 167 er mynd af bát, sögð af Mb. Dux. Þessi mynd er af Mb.Hilmir G. K. 498, eigandi var Sigurbjörn Eyjólfsson. Á bls. 191 er mynd af beinamélsverksmiðju Þórólfs. Textinn segir: „Hráefninu ekið á bílum upp brúna og sturtað þar inn til vinnslu.” Ætti að vera til geymslu. Hausarnir voru þurkaðir úti um víðan völl. Þegar þeir voru orðnir þurrir voru þeir teknir saman og loks ekið þarna inn til geymslu. Á haustin voru þeir malaðir í húsinu til vinstri á myndinni. Á bls. 407 er mynd, sögð af skólabörnum í Keflavík. Þessi mynd er af öllum fermingabörnum á Suðurnesjum vorið 1938, á tröppum Laugarvatnsskóla. Séra Eiríkur Brynjólfsson fór, í mörg ár, á vorin með fermingabörn úr Keflavíkurhrepp, Garði og Sandgerði á sundnámskeið, fyrst upp að Álafossi og seinni árin að Laugarvatni. Að þessu sinni voru fermingabörn af Vatnsleysuströnd og úr Grindavík á sama tíma. Fremst á myndinni eru börn Bergþóru Þorbjörnsdóttir, sem „gætti“ stúlknanna og vinkona þeirra, Sísí. Framangreindar leiðréttingar liggur beint við að gera í formi límmiða eins og þeirra, sem þegar eru látnar fylgja bókinni. Ekki verður límmiða aðferðinni eins auðveldlega komið við inni í miðjum málsgreinum, en þar sem spásíur í bókinni eru ríflegar, mætti nýta þær til fleiri leiðréttinga, þótt ekki verði því við komið að líma yfir rangfærslurnar. Nokkur dæmi um slíkar leiðréttingar: Á bls. 111 eru nefndar þær konur sem voru í fyrstu stjórn kvennadeildar VSFK. Fyrst er talinn Sigurðína, sögð Jóhannsdóttir, hún var Jóramsdóttir. Á bls. 137, Yfirsmiður við byggingju hafskipabryggjunnar er sagður hafa heitið Þorgeir Klemensson, hann hét Þorbjörn og var víðfrægur dugnaðarforkur. Á bls. 204 er sagt að Sigurbergur Ásbjörnsson hafi verið með skóvinnustofu í kjallara læknishúsins að Kirkjuveg 22A. Það er rangt hún var að Vallargötu 24, sem Þorgerður Einarsdóttir átti á þeim tíma. (Sigurbergur flutti til Keflavíkur 1936 ekki ´37.) Á bls. 209 til 215 er fjallað um kaupmenn og m.a. vitnað í greinarkorn eftir mig. Mér varð það á að gleyma heiðursmanninum Danival Danivalssyni og fékk að vonum tilskrif fyrir það. Ég bætti strax úr því með sérstakri grein um Danival. Danival hefir fallið niður hjá höfundum bókarinnar, rétt eins og mér, bæta mætti úr því með t.d. einum „límmiða“ á spásíu. En ekki verður hægt að bæta úr öllu með límiðum. Sumt af því hefi ég nefnt í fyrri greinum mínum, en mörgu fleiru þyrfti að gera mikið betri skil til þess að þetta gæti kallast Saga Keflavíkur, að mínu mati. „Saga Keflavíkur“ 1920 til 1949 mun hafa kostað bæjarsjóðinn okkar á sjöundu miljón króna. Miðað við þann kostnað væri engin frágangssök, að láta taka saman leiðréttingar og fylla uppí verstu götin í bókinni. Ég hefi heyrt í fólki sem vildi leggja nokkuð á sig, án endurgjalds, til þess að af því gæti orðið. Ólafur Björnsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024