Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hafa skal það sem betur hljómar
Fimmtudagur 17. apríl 2014 kl. 06:50

Hafa skal það sem betur hljómar

Hin nývígða Hljómahöll hefur farið langt fram úr mínum væntingum hvað varðar glæsileika, aðbúnað og aðstöðu. Fyrst skal nefna Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem nú hefur flutt starfsemi sína úr örþreyttu húsnæði á Austurgötu og Þórustíg í aðstöðu eins og hún gerist best. Var haft á orði að ekki væri skólinn eingöngu með þeim betri á landinu heldur þyrfti að leita langt út fyrir hina margfrægu landsteina til að finna jafn góða aðstöðu. Er ég ekki í nokkrum vafa um að hér eftir sem hingað til mun skólinn ala af sér afreksmenn í tónlist sem eiga eftir að viðhalda tónlistararfinum okkar.

Rokksafn Íslands opnaði síðan hinn 5. apríl við mikla viðhöfn og frábærar viðtökur. Er það einkar ánægjulegt að við í Reykjanesbæ skulum vera fyrst til að koma upp safni til heiðurs íslenskri hryntónlist. Upphaf þessa safns má rekja til poppminjasafns sem fyrst var komið upp á Glóðinni og vann faðir minn, Rúnar Júlíusson, ötullega að því að koma hugmyndinni áleiðis. Á safninu er sögu hryntónlistar gerð góð skil í máli og myndum frá upphafi vega þegar Jónas Hallgrímsson samdi lífseigasta „hittarann“ sem enn er sunginn á mannamótum „Hvað er svo glatt“. Nýjasti gripurinn er gítar Brynjars Leifssonar úr Of monsters and men sem er að gera garðinn frægan fyrir utan áðurnefnda landsteina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðast og alls ekki síst skal nefna vel heppnaðar endurbætur á Stapanum þannig að nú er þar fyrsta flokks aðstaða fyrir hvers konar viðburði, tónleika, árshátíðir og ráðstefnur. Vel fer á því að flétta þessar þrjár einingar saman undir nafninu Hljómahöll því þær styðja allar hver aðra og hafa sterka sögulega vísun. Hljómar, Pónik og Einar, Júdas og fleiri hljómsveitir áttu Stapa og Ólafi Sigurjónssyni, Stapahaldara mikið að þakka og er það ánægjulegt hve vel hefur tekist til með tengingu gamla félagsheimilisins við safnið og skólann.

Í mínum eyrum getur þetta ekki hljómað betur.

Baldur Guðmundsson.