Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 20. janúar 2003 kl. 16:23

Hættu að moka!

Undirrituð gat alls ekki á sér setið að svara grein heilbrigðisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkrun dögum. Þar hnýtir hann í þingmenn Sjálfstæðisflokksins og aðra. Hann virðist alls ekki gera sér grein fyrir þeim vanda sem íslenska heilbrigðiskerfið er í og þeirri þörf sem er fyrir róttækar breytingar í þessum geira. Rekstri þess má líkja við vel búið fjós sem er orðið óstarfhæft vegna þess að enginn hefur sinnt því að moka flórinn heldur er sífellt verið að bæta inn beljum. Hæstvirtur heilbrigðisráðherra stendur í flórnum og mokar sig enn lengra niður í holuna sem fyrirrennarar hans byrjuðu á í stað þess að moka út úr fjósinu. Í grein sinni í fréttablaðinu kastar hann uppmokstrinum í þá sem dirfast að trúa því að einkarekstur eigi rétt á sér í heilbrigðiskerfinu. Hann ýjar að því að í einkarekstri séu fégráðugir aðilar sem ætli að gera sér heilbrigðiskerfið að féþúfu. Herra ráðherra það stoðar lítið að stara skelfdum augum til einkarekstrar í öðrum löndum og taka einungis eftir göllum en ekki kostum. Ekki hefur mátt ljá máls á setningu lagaramma til að umvefja einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Afleiðingar þessa er að hér hefur í raun sprottið upp einkarekstur af verstu gerð, hann er í leynilegum samningum, samofnum rekstri stofnana og oft er þessi einkarekstur kostaður að hluta eða öllu leyti af hinu opinbera. Stofnanir hafa neyðst til þess að hygla starfsmönnum sínum með því að heimila þeim einkarekstur innan þeirra, oft í launuðum vinnutímum til að hífa upp laun þeirra og koma í veg fyrir starfsflótta. Forsvarsmenn stofnanna hafa nefnilega gert sér ljóst fyrir löngu að til að fá ákveðnar fagstéttir til starfa þarf að heimila svona rekstur í einhverjum mæli. Hér er ég ekki að segja að þetta sé með öllu óeðlilegt undir þessum furðulegu kringumstæðum en óneitanlega mjög hættulegt að ekki skuli vera til almennilegar reglur um svona starfsemi líkt og gerist hjá öðrum þjóðum sem við miðum okkur alla jafna við og líkt og gerist í öðrum einkarekstri.

Ég vil gerast svo djörf að leggja til að nota fengna reynslu annarra þjóða til að sníða góðan lagaramma umhverfis okkar kerfi en ekki bara stinga höfðinu í sandinn og forðast allan einkarekstur sem slíkan. Við eigum öllu heldur að reyna að sníða af vankantana og setja stíf og skilvirk lög jafnt á rekstur hjá einkaaðilum sem hinu opinbera. Í vestrænum löndum telst t.d. mjög óeðlilegt að einkarekstur sé samofinn opinberum rekstri og ströng skilyrði eru þar sett um aðskilnað þessa. Hér þarf að setja skírar reglur um aðskilnað rekstrarforma hvort heldur um er að ræða verktakavinnu, launþega eða sambland þessa. Öllum heilbrigðisstéttum þarf að gera jafnhátt undir höfði varðandi heimild til einkarekstrar og tryggja þarf jafnræði með þessum ólíku rekstrarformum.

Heilbrigðisráðherra hryllir við kröfum um arðsemi í einkarekstri en hafa ber í huga að rekstur heilbrigðiskerfis ætti að lúta nákvæmlega sömu lögmálum og annar rekstur. Hann þarf að gefa gæði, vera hagkvæmur og vera vel stjórnað. Hingað til hefur heilbrigðiskerfið vaxið stefnulaust í allar áttir í þessu ríkiskerfi ráðherrans, byggðar eru heilu byggingarnar sem standa svo auðar og fá ekki fjárveitingu til rekstrar eða fagfólk til starfa. Síauknu fé er ausið í dýrari meðferðarúrræði meðan ódýrari lausnir svelta. Hátæknisjúkrahúsin eru yfirfull og losna ekki við sjúklinga sem ekki þurfa að vera þar, spítalar úti á landi standa margir hálftómir, skurðstofur lítt notaðar meðan löng bið er eftir aðgerðum á hátæknisjúkrahúsum. Heilsugæslustöðvar skortir heimilislækna og unglæknar forðast að sérhæfa sig á sviði heimilislækninga vegna þess að stéttinni er haldið í herkví annarra reglna en öðrum bíðst. Það er til nóg af peningum í heilbrigðiskerfinu. Því er bara hræðilega illa stjórnað. Eftirlit með rekstri hefur verið mjög ábótavant, eigandi fjármagnsins í of mikilli fjarlægð frá starfseminni og ráðgjafarnir hafa oft of mikilla hagsmuna að gæta enda oft starfandi á stofnunum sem verið er að taka ákvarðanir um og hagkvæmar lausnir oft ekki upp á borðum þar sem einungis er sýn á opinberan rekstur. Hvar er þarfagreiningin, hlutlausu rekstrarfræðingarnir, áætlanagerðirnar og skipulagða eftirlitið? Hvenær á að moka flórinn? Beljurnar halda nefnilega áfram að skíta.

Hvernig væri herra ráðherra að heimila verktöku á lítt notuðum tímum aðgerðalítilla skurðstofa og hálftómum deildum? Hvernig væri að heimila verktöku heimilislækna á heilsugæslustöðvum? Sumum hentar betur að þeir séu sjálfs síns herrar og greiði fyrir aðstöðuna. Hvernig væri að heimila þessum læknum að opna stofur á eigin vegum? Hvernig væri að stytta biðtímana í aðgerðir eins og gerviliðaaðgerðir í hné og mjaðmir með því selja aðstöðu til lækna á öðrum skurðstofum? Hvernig væri að ná peningi út úr þessum fasteignum um allt land með því að leigja aðstöðu sem ekki er að fullu notuð? Hvernig væri t.d. að nýta betur endurhæfingaraðstöðuna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja? Af hverju eru ekki framkvæmdar gerfiliðaaðgerðir þar? Af hverju fá þeir ekki fleiri innlagnarsjúklinga til endurhæfingar? Við hvað eru framsóknarmenn hræddir? Eru þeir hræddir við að biðtímarnir styttist og fólk þurfi því minni lyf, styttri endurhæfingu, sé minna frá vinnu og þurfi minni aðstoð kostaðri af almenningi?

Vestrænar þjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að einkarekstur sé hagkvæmur. Þar fjárfesta einkaaðilar í húsnæði, tækjakosti og rekstri sem þá sparast ríkinu og ekki nema eðlilegt að í staðinn fái þessir aðilar eðlilegan arð. Peningum ríkisins sem ella væri varið í steinsteypu og tækjakost er þá fremur varið til að veita fleirum þjónustuna og stytta biðtíma. Einkarekstri er yfirleitt betur stjórnað þar sem eigendur fjármagnsins eru nær aðgerðasvæðinu, samkeppni ýtir undir vönduð vinnubrögð og fagfólk er oft ánægðara með að hafa meiri stjórn á sínu umhverfi. Okkar heilbrigðiskerfi er nefnilega ekki endilega betra en í bandaríkjunum þegar upp er staðið, þar geturðu allavega keypt þér tryggingar sem þú getur notað til að flýta þér í gegnum meðferðarkerfi. Eini munurinn er sá að hér eru allir í þeim þjónustustaðli sem við vorkennum ótryggðum bandaríkjamönnum að vera í. Slæmt ástand verður ekki betra bara vegna þess að allir sitja svo glaðir í sömu súpunni og fagfólkið er svo vel menntað.

Ráðherra er skelfingu lostinn við tilhugsunina um að einhverjir geti keypt sér þjónustu fram fyrir aðra. Guð forði okkur frá því að þeir sem eigi peninga greiði fyrir sig sjálfir utan aðgerðakvóta. Þeir mega nefnilega eiga peninga, bara ekki nota hann í það sem trúlega skiptir þá mestu máli þ.e. heilsuna. Þeir aðilar sem vilja kaupa sér slíka þjónustu verða því að fara út fyrir landsteinana og eyða þessum peningum þar. Mér persónulega er alveg ósárt að þurfa ekki að niðurgreiða þjónustu fyrir einhvern sem hefur efni á henni sjálfur. Þess ber að gæta að tími er peningar og á meðan fólk er óvinnuhæft kostar öll bið atvinnurekendur, sjálfstæða atvinnustarfsemi, heimilin og ríkissjóð mikla peninga.

Heimilislæknar sem hafa orðið svo djarfir að opna sínar eigin stofur hafa orðið að gera það án allrar niðurgreiðslu á þjónustu hans frá hinu opinbera. Hér undrar mig hvar réttur neytandans er. Hann hlýtur að vera sjúkratryggður eins og aðrir þjóðfélagsþegnar og ætti að eiga rétt á að fá sömu niðurgreiðslu og aðrir. Hvernig væri að ríkið gætti þess að hafa jafnræði meðal þegna sinna hvar svo sem þeir sækja þjónustu sína og jafnframt sé gætt jafnræðis ólíkra rekstrarforma? Þegar öllu er á botninn hvolft kemur eðlilegt og óheft rekstrarumhverfi heilbrigðiskerfisins neytandanum alltaf best. Það tryggir eðlilegt flæði, framboð og samkeppni. Hver gætir t.d. hagsmuna íbúa á suðurnesjum núna á meðan Heilbr. og Tryggingaráðuneyti, framkvæmdarstjórn HSS og læknar deila? Þarf ekki að skapa umhverfi fyrir þessar fagstéttir, líkt og aðrar, sem gerir þær sáttari við sitt hlutskipti og um leið meðvitaðri um raunkostnaðinn við starfsemi þeirra? Ég er ekki viss um að þessir læknar hefðu jafn mikinn áhuga á að fá að starfa sjálfstætt eða utan heilsugæslunnar ef þeir gerðu sér grein fyrir rekstrarkostnaðinum. Það verður þó að teljast óeðlilegt að þeir skuli ekki mega sannreyna þetta og hafa sama rétt og aðrir læknar.

Ég vil því biðja Heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína og vil að lokum taka mér í munn mæt orð og segja við hann: "Ef þú ert komin niður í djúpa holu hættu þá að moka".

Adda Þ. Sigurjónsdóttir
Greinarhöfundur er formaður Félags Sjálfstætt Starfandi Sjúkraþjálfara.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024