Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hælisleitendum fjölgar um sem nemur íbúum Grindavíkur á ári
Föstudagur 14. október 2022 kl. 07:35

Hælisleitendum fjölgar um sem nemur íbúum Grindavíkur á ári

Ég hef heimsótt og kynnt mér þær aðstæður sem hælisleitendur á Íslandi búa við en kveikjan að þessari grein var heimsókn mín í blokkir á Ásbrú og Hafnarfirði þar sem hælisleitendur búa. Aðstæður þeirra eru óboðlegar en í einu húsinu búa um 140 manns í 50 herbergjum. Mér er sagt að aðbúnaður hælisleitenda í Grikklandi sé á pari eða betri en á Íslandi þótt öðru sé haldið fram.

Íbúafjöldi Grindavíkur á hverju ári

Nú fer sá tími í hönd að reikna megi með hælisleitendum sem koma til landsins fjölgi verulega. Vinnumálastofnun hefur tuttugu hótel og íbúðablokkir á leigu og til að mæta fjölgun hælisleitenda. Í síðustu viku voru tvö hótel tekin á leigu í Reykjanesbæ til viðbótar við blokkir á Ásbrú. Til áramóta þarf þrjár, fjórar blokkir til að hýsa þann viðbótarfjölda sem er á leiðinni. Svo kemur nýtt ár með yfir 3.000 hælisleitendum, sem er sambærilegur heildarfjölda íbúa í Grindavík. Hér er rauðglóandi húsnæðismarkaður og fátt eftir af húsnæði nema íþróttahús, safnaðarheimili og kirkjur fyrir þetta fólk að búa í. Hugmyndir eru uppi um að flytja inn gámaeiningar og búa til sérstök hverfi fyrir hælisleitendur. Í Svíþjóð hefur reynslan af slíkum hverfum ekki verið góð, svo ekki sé nú meira sagt. 

Félagsþjónustan og húsnæðismarkaðurinn sprungin

Samkvæmt samningi við ríkið taka Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Reykjavíkurborg, Akureyri og Árborg á móti hælisleitendum og tvö þau fyrstnefndu bera höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög þegar kemur að fjölda hælisleitenda í þjónustu. Þar er félagsþjónustan og húsnæðismarkaðurinn sprungin. Grunnskólakerfið og heilsugæslan eru sömuleiðis komin að þolmörkum. Í Hafnarfirði áttu tveir starfsmenn að vinna að málefnum hælisleitenda en þeir eru nú sextán og umfangið allt í samræmi við þessar tölur. Sveitarfélögin vilja skiljanlega að aukinni þjónustu fylgi aukið fjármagn. Þau eru að kikna undan álaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íslenskt skattfé fjármagnar hryðjuverk

Útlendingastofnun og úrskurðarnefnd útlendingamála hefur veitt hælisleitendum frá Venesúela forgangsafgreiðslu við landamærin. Í dag er talið að sex milljónir íbúa frá Venesúela séu að flýja bág kjör í heimalandinu. Nú þegar hafa 600 hælisleitendur frá Venesúela fengið hér hæli en 50 í Noregi. Allt bendir til þess að stór hluti hælisleitenda frá Venesúela komi frá Sýrlandi í gegnum Spán og greiði glæpahringjum þóknun til að komast til Íslands. Þegar hælisleitandinn er kominn til Íslands og fer á framfærslu ríkissjóðs koma krumlur glæpahringjanna á ný og krefjast hærri greiðslu. Glæpahringirnir hafa umboðsmenn hér á landi sem halda áfram að innheimta og beita fólkið harðræði við innheimtuna. Þannig lendir fjármagn frá íslenskum skattgreiðendum í höndum glæpahringja. Glæpahringja sem nota íslenska skattpeninga til að fjármagna mansal og hryðjuverk. 

Raunveruleikinn á Íslandi er annar en fólk heldur. Umræðan hefur leitast við að kæfa þá sem reynt hafa að sporna við fótum. En þeir sem virða engin landamæri og skilja ekki að hverri krónu verður ekki eytt nema einu sinni telja að Ísland geti tekið á móti t.d. milljónum hælisleitenda frá Venesúela. Þetta fólk vill ekki sjá að hér eru allir innviðir sprungnir, það vantar margar blokkir undir hælisleitendur bara til næstu áramóta. Og á næsta ári má reikna með að þúsundir bætist í hópinn að öðru óbreyttu. Á það fólk að búa í gámahverfum þar sem skólar og félagsþjónusta er löngu sprungin? Reynsla annarra þjóða er að slík gettómyndun eru stórhættuleg hverju samfélagi.

Fyrir hverja er hælisleitendakerfið?

Fólkið sem hælisleitendakerfið var búið til fyrir hefur gleymst. Fólk sem er að flýja stríð og ofsóknir gegn minnihlutahópum og er á flótta til að bjarga eigin lífi og limum. Í staðinn tökum við á móti stærstum hluta hælisleitenda sem þegar hafa fengið vernd í öðrum löndum Evrópu. Allt að 50% hælisleitenda sem fá hér vernd hafa þegar fengið landvistarleyfi í öðrum löndum Evrópu. Það fólk er ekki að flýja stríð eða bjarga eigin lífi og limum, það er að flýja fjárhagslega afkomu í löndum Evrópu. Hælisleitendakerfið er ekki hugsað fyrir fólk sem er að flýja efnahagslega erfiðleika. Hér er framfærsla hælisleitenda betri en víðast annars staðar og straumurinn liggur  til betra lífs á Íslandi. Sú staðreynd birtist í því að fjórum til sex sinnum fleiri hælisleitendur koma til Íslands en sækja til Svíþjóðar miðað við höfðatölu. Í samanburði við Norðurlöndin sækja hér hlutfallslega flestir um hæli og hlutfallslega langflestir fá hér hæli.

Við erum að missa tökin og gröfum þannig skipulega undan möguleikum okkar Íslendinga til að standa sómasamlega að móttöku hælisleitenda, sem eiga ekki í önnur hús að venda.

Íslensk stjórnvöld þurfa að móta heildstæða stefnu í þessum málaflokki og halda sig við hana. Búa til kerfi sem byggir á því að málsmeðferð og niðurstaða byggist á jafnræði og gagnsæi og innleiða sambærilegar reglur og gilda í nágrannalöndum okkar. Ekki kerfi sem laðar að sér starfsemi glæpahringja og þar sem tafir á málsmeðferð verða að keppikefli.

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.