Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 19. ágúst 2003 kl. 08:42

Gylfa Guðmundssonar: Mannrækt!

Margir hafa gaman af að rækta tré í garðinum sínum. Trén vaxa kannski ekki öll alveg beint upp í loftið en okkur þykir samt vænt um þau, okkur þykir vænt um að sjá þau dafna þrátt fyrir svolítið kræklóttan vöxtinn. Við veitum þeim skjól með því að reisa skjólgarða og flest verða þau að fallegum trjám þegar upp er staðið, þau veita okkur skjól í garði sem norðan garrinn leikur stundum um.Skilyrðin eru ekki alltaf hagstæð fyrir trjárækt hér á Suðurnesjum en okkur tekst þetta! Kannski er það eins með börnin okkar. Þau fara ekki alltaf beinustu leiðina. Við höfum mörg sem kennarar og foreldrar leiðbeint og hlúð að mörgum börnum og séð þau vaxa úr grasi og flest verða þau að nýtum þjóðfélagsþegnum þó þau velji ekki alltaf beinustu leiðina í lífinu. Þannig hef ég og margir aðrir kennarar og enn fleiri foreldrar lagt rækt við trjárækt og mannrækt, hvert okkar á sinn hátt. En börn þurfa einnig skjól og vernd í uppvextinum. Okkur ber að hlú að börnunum okkar ekki síður en trjánum. Okkur ber að sjá til þess að börnin fái notið alls þess besta sem við getum veitt þeim á eðlilegan hátt. Með því móti erum við að tryggja að uppvöxturinn takist. Skólastarf hefstÞessi orð eru skrifuð í tilefni þess að skólarnir eru að hefja vetrarstarfið. Mér fannst við hæfi að minnast á þetta einmitt nú vegna þess að við verðum að tryggja, eða að minnsta kosti reyna að tryggja, að skólastarfið hjá börnunum okkar heppnist. En til þess þurfum við að veita þeim skjól, veita þeim hvatningu og hjálp við starfið framundan. Það er gríðarlega mikilvægt að nemendur stundi nám sitt af kostgæfni en til þess þurfa þeir aðstoð okkar og stuðning.Á síðasta skólaári benti ég á að við erum oft duglegri að hvetja börnin okkar áfram í íþróttum en námi. Við megum ekki gleyma því að menntun er sá grunnur sem þarf til þess að við eigum betra líf og bjartari tíma sem fullorðnar manneskjur. Við skulum horfa á þá staðreynd að vel menntað fólk hefur miklu hærri laun en sá sem ekkert lærði.Ég hef lengi haldið því fram að hvatning foreldra og áhugi sé lykillinn að bættum árangri barna og unglinga í námi. Foreldrar verða að hvetja börn sín, fylgjast með að þau vinni og sjá til þess að börnin þeirra leggi sig fram. Við verðum að fylgjast með heimavinnu barnanna og sýna áhuga.Nemendur eiga alltaf að vinna eitthvað heima, alltaf. Í vetur munum við kennarar í Njarðvíkurskóla, eftir bestu getu, setja út á netið hvað hver og einn nemandi á að vinna heima. Foreldrar og forráðamenn fá lykilorð hjá skólanum fyrir börn sín svo þeir geti fylgst með heimanámi barna sinna, þeir geta séð á netinu hvað barninu var sett fyrir hvern dag.Við, kennarar og starfsfólk skólans, munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að nemendur standi sig. Stöndum öll saman. Veitum börnunum það skjól sem þau þurfa svo árangur náist.Frá fyrsta degi barns í skóla er nauðsynlegt og skylt að fylgjast með framvindu námsins. Lítil börn ráða ekki við þetta ein. Foreldrar þurfa því að sýna áhuga á náminu og fylgjast með því allan skólatímann, öll árin tíu. Við verðum að horfast í augu við þetta. Þetta er verkefni sem okkur foreldrum ber að sinna sem uppalendur. Verum vakandi hverja stund yfir velferð barns og sýnum starfi þess og vinnu virðingu og áhuga, alla daga, hverja stund. Það er lykillinn að bættum námsárangri.

18. ágúst 2003
Gylfi Guðmundsson
skólastjóri Njarðvíkurskóla
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024