Guðrún Erlingsdóttir gefur kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. til 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þann 4. nóvember n.k.
Ég er 44 ára, gift Gylfa Sigurðssyni og saman eigum við 3 börn. Heimili okkar er í Vestmannaeyjum.
Ég hef starfað sem formaður Verslunarmannafélags Vestmannaeyja frá árinu 1993 og er auk þess starfsmaður kjaramáladeildar VR. Ég sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og sit nú í stjórn Landssambands íslenzkra Verslunarmanna auk annara trúnaðarstarfa . Ég gengdi starfi bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum frá 1998-2006. Í bæjarstjórn gengdi ég m.a. starfi forseta, var formaður bæjar- og fjölskyldurráðs, auk margvíslegra annara verkefna. Þá sat ég í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, auk þess að taka þátt í verkefnisstjórn um vaxtarsamning við Suðurland. Þessi störf hafa fært mér haldgóða þekkingu á málefnum Suðurlands og innviðum sveitarstjórnarmála í kjördæminu.
Félagsmál í víðasta skilningi þess orðs hafa verið mitt helsta áhugamál allt frá unglingsárum. Ég tel að með störfum mínum fyrir verkalýðshreyfinguna og á vettvangi sveitarstjórnarmála hafi ég öðlast dýrmæta reynslu sem gæti komið að góðum notum í þingstörfum.
Ég tel rétt að aftur verði til ein þjóð á Íslandi óháð búsetu og efnahag. Fyrir því vil ég fá að berjast. Þess vegna gef ég kost á mér í 3-4 sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar, sem fram fara næsta vor.
Vestmannaeyjum 24 september 2006
Guðrún Erlingsdóttir