Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Guðrún Elísa Ólafsdóttir - minning
Fimmtudagur 3. júní 2010 kl. 10:14

Guðrún Elísa Ólafsdóttir - minning


Guðrún Elísa Ólafsdóttir, fyrrverandi varaformaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, lést að morgni Hvítasunnudags 23. maí sl., eftir erfið veikindi. Útför hennar var gerð frá Keflavíkurkirkju sl. þriðjudag.


Guðrún Elísa Ólafsdóttir var fædd á Ísafirði 3. febrúar 1932. Hún flutti til Keflavíkur ásamt manni sínum, Magnúsi Jóhannessyni sem einnig er látinn og eignuðust þau 4 syni sem allir eru uppkomnir. Barnabörnin eru átta. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Guðrún hóf störf við fiskvinnslu í Keflavík. Hún var fljótt valin til trúnaðarstarfa, fyrst sem trúnaðarmaður á vinnustað, og fljótlega til forystu. Guðrún hafði mjög sterka réttlætiskennd og verkalýðshugsjónin var henni ofarlega í huga. Það gustaði af Guðrúnu og hún lét í sér heyra þegar málefni verkafólks bar á góma.


Á sínum fyrsta fundi hjá Verkakvennafélagi Keflvíkur og Njarðvíkur, sem haldinn var í Ungó árið 1969, var hún kosin í stjórn og þá sem gjaldkeri í eitt ár. Á aðalfundi 18. mars 1973 var hún kjörin varaformaður félagsins. Skömmu siðar lést formaður félagsins í hörmulegu bílslysi, ásamt móður sinni, sem þá var fráfarandi formaður. Guðrún fékk það erfiða hlutskipti að taka við félaginu við þessar erfiðu aðstæður. Hún gegndi formennsku allt þar til félagið sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis um áramótin 1989 og var varaformaður félagsins þar til í apríl 2002.


Guðrún var alla tíð mjög virk í störfum sínum fyrir verkafólk og hvikaði aldrei í baráttunni fyrir bættum kjörum og jöfnun lífskjara. ?Guðrún gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir verkalýðshreyfinguna. Hún sat m.a. sem varamaður í miðstjórn ASÍ, gegndi störfum fyrir Verkamannasamband Íslands og var í Sambandstjórn ASÍ og sat í stjórn MFA.


Menntamál verkafólks voru henni afar hugleikin, hún skynjaði það fljótt að menntun verkafólks er það sem getur lyft Grettistaki og þokað launum verkafólks upp á við og gert vinnustaðina mannlegri og betri.
Að öðrum ólöstuðum hefur Guðrún átt einn stærstan þátt í því hér á Suðurnejum að hvetja fólk til menntunar.


Guðrún var gerð að heiðursfélaga á 70 ára afmælishátíðíð Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis í desember 2002.


Guðrún lét af störfum hjá félaginu á árinu 2003 en hélt áfram að sinna félagstörfum, sat m.a. í stjórn Félags eldri borgara á Suðurnesjum og var formaður þess allt til dauðadags.


Fyrir hönd  félaga í Verkalýðs og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis vottum við fjölskyldu Guðrúnar Elísu Ólafsdóttur okkar dýpstu samúð með kæru þakklæti fyrir fórnfús störf hennar í þágu verkafólks á Íslandi.

Kristján Gunnarsson


-   -   -   -



Sl. þriðjudag var jarðsett frá Keflavíkurkirkju, samstarfskona mín til margra ára, Guðrún Elísa Ólafsdóttir, sem ég ætla nú að minnast með nokkrum orðum.

Samstarf okkar Guðrúnar hófst er við störfuðum bæði hjá Keflavík hf. og unnum við þar saman í nokkur ár, fyrir meira en 40 árum. Síðan skildu leiðir, en aftur hófum við að vinna saman er hún varð skyndilega formaður Verkakvennafélags Keflavíkur og Njarðvíkur, en ég var þá fyrir sem starfsmaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.

Á þeim árum sem við störfuðum bæði í frystihúsi Keflavíkur hf. unnu þar nokkrar konur sem síðan áttu eftir að gegna trúnaðarstörfum hjá VKFKN eins og Verkakvennnafélagið var skammstafað. Hvort það var í andrúmsloftinu, eða eitthvað annað í starfsemi fyrirtækisins sem varð til þess að áhugi fyrir verkalýðsmálum fæddist hjá okkur báðum og fleirum, skal ósagt látið.

Við Guðrún áttum mikið og gott samstarf á fyrstu árum hennar hjá VKFKN varðandi bónusmálin, bónussamninga, bónusnámskeið o.fl. Þá var það fyrir tilstuðlan Guðrúnar við við hófum verðkannanir í verslunum á svæðinu og tókum þær mjög reglulega. Einnig fylgdumst við með því að verðmerkingar í búðargluggum væru í lagi. Þá fórum við saman sem fararstjórar í ferð sem verkalýðsfélögin buðu upp á til gömlu Júgóslavíu í ferð sem nefndist Ferðist og fræðist. Með okkar fóru einnig makar okkar beggja. En Magnús eiginmann hennar hafði ég þekkt frá því að ég var að alast upp og slippurinn sem var hans vinnustaður, var mitt leiksvæði.


Guðrún var mjög mikið fyrir félagsstarf innan Verkakvennafélagsins og oft á tíðun fylgdum við með. Haldin voru árshátíðir félaganna, þorrablót, bingó o.m.fl.

Hið góða samstarf hélst meðan ég starfaði hjá VSFK, sem þá breyttist í Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og konur voru komnar í bæði félögin. Eftir að þeim tíma lauk, höfum við oft rætt saman um ýmislegt, þó samstarfið sem slíkt væri ekki það sama og áður, enda varð starfsvettvangur okkar mjög ólíkur.

Um leið og ég minnist samstarfsins við Guðrúnu með hlýhug, sendi ég sendi sonum hennar, tengdabörnum og öðrum ættingjum hugheilar samúðarkveðjur.

Emil Páll Jónsson