Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 19. október 2006 kl. 10:10

Gróðahyggja, eignaupptaka, fíkniefni og löggæsla

Hvort Íslands sé barnvænt samfélag eða ekki, er spurning sem hefur verið til skoðunar að  undanförnu.  Morgunblaðið hefur gert þessari spurningu ágæt skil.  Spurningin lýtur m.a. að því hvort við, fullorðna fólkið, gefum börnum okkar nægan tíma og hvort net samfélagsins sé nægilega þétt riðið svo það geti tekið við ef í nauðir rekur.  Um þetta m.a. snýst samfélagsleg ábyrgð.  Á undanförnum árum hefur samfélagið smám saman verið að þróast frá samábyrgð til einstaklingshyggju.  Sumir hafa kallað þetta gróðahyggju.  Þessi þróun felur í sér að meiri tími hjá einstaklingnum fer í að afla sér og sinna tekna og þá á kostnað þess tíma sem ella gæti verið nýttur til samveru með fjölskyldunni og vinum.  Við þessar aðstæður er hættan sú að börnin fari halloka.  Það er mikilvægt að hafa þetta í huga.  Í stuttri blaðagrein er ekki hægt að fara djúpt ofan í svo stórar spurningar.

Fíkniefnavandi
Ef þessi greining er rétt, þ.e.a.s. að fjölskyldan hafi sífellt minni tíma fyrir sig og sína, þarf ekki að koma á óvart að fleiri ungmenni eru tilbúin að reyna og prófa fíkniefni.  Það hefur verið athyglisvert hversu litla athygli þessi málaflokkur hefur fengið undanfarin ár.  Fyrir nokkrum misserum höfðu ráðherrar og stjórnmálaflokkar uppi hástemmdar yfirlýsingar um fíkniefnalaust  Ísland og að til þessa málaflokks ætti að renna milljarðar króna.  Þó markmiðið hafi verið gott verður að fylgja því eftir með efndum.  Það er ekki mikið raunsæi í því að stefna að fíkniefnalausu landi, en það breytir ekki hinu að áfram verður að berjast gegn þessum ósóma.  Það hefur mér þótt skorta hjá núverandi dómsmálaráðherra skýra stefnumótun um það hver markmiðin séu og hvernig þeim eigi að ná.  Þessi vandi er "krabbamein" í okkar samfélagi sem við megum aldrei hætta að berjast gegn.  Stjórnvöld verða því að marka sér skýra stefnu í þessum málaflokki.  Á það hefur skort og úr því verður að bæta.

Löggæsla
Það er ekki aðeins að þeir sem ánetjast fíkniefnum eig erfitt.  Fíkniefnunum fylgja afbrot og aukin glæpatíðni.  Það er því samfélagið allt sem líður fyrir þetta.  Borgararnir kalla á aukna löggæslu og afbrotin verða harðari.  Það er mitt mat að stefnumótun í löggæslu- og fíkniefnamálum verður að verða miklu markvissari en nú er – og það skiptir fólk í þessu landi mun meira máli að skynja öfluga og góða löggæslu, en endalausar hugmyndir núverandi dómsmálaráðherra um her og leyniþjónustur, án þess að hann skilgreini hver ógnunin er – aðeins óljósar hugmyndir um yfirvofandi hryðjuverk.  Sú umræða er ekki boðleg.  Það er mitt mat að efla eigi almenna löggæslu og leggja meira fjármagn til hennar.  Öflug löggæsla skiptir hinn almenna borgara miklu máli.  Það er mitt mat, að ef raunverulegur árangur á að nást í þessari baráttu verður að efla enn frekar en nú er samstarf skattrannsóknarstjóra við lögreglu og auka heimildir lögreglu til að gera fíkniefnagróða upptækan og eignir, tæki og tól sem honum tengjast.  Með því að gera það er fótunum kippt undan starfsemi þeirra sem þetta stunda og hagsmunir samfélagsins eru miklir af því að það takist.

Lúðvík Bergvinsson alþm.
Býður sig fram í 1. sæti Samfylkingar í Suðurkjördæmi.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024