Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Grípum tækifærið, góðir Suðurnesjamenn!
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 11:16

Grípum tækifærið, góðir Suðurnesjamenn!

Í mars árið 2014 tók Hrafnista við rekstri hjúkrunarheimilanna Nesvalla og Hlévangs samkvæmt samningi þar um við heimamenn á Suðurnesjum. Í samræmi við samkomulag tengt samningnum var lagður mikill metnaður í þá vinnu að gera starfsemina enn betri en verið hafði, m.a. með aðkomu góðrar sjúkra- og iðjuþjálfunar sem væri á pari við það sem best gerist hér á landi. Samkvæmt opninberum mælikvörðum hjúkrunarheimila (RAI-mat) hefur vel tekist til og frá árinu 2014 hafa gæði í starfsemi beggja heimilanna mælst með því allra hæsta sem hér gerist. RAI er aðferð stjórnvalda til að fylgjast með heilsufari og velferð aldraðra með samdæmdri upplýsingaöflun um þarfir þeirra og öldrunarstofnana til að stuðla að hámarksgæðum í heilbrigðisþjónustu.
 
Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikill skortur er á hjúkrunarrýmum hér á landi auk þess sem heilsufar aldraðra þegar þeir flytjast á hjúkrunarheimili er í dag mun lakara en það var á árum áður. Þetta getum við á Hrafnistu staðfest enda hefur umönnun þyngst verulega. Vegna þessa er nauðsynlegt að hjúkrunarheimilin séu sífellt vakandi fyrir þörfum íbúa sinna og aðlagi þjónustuna sem best að ríkjandi þörfum á hverjum tíma þannig að hún miði að hámarkslífsgæðum íbúanna.
 
Í samningaferlinu árið 2013, sem og í samningum við Hrafnistu, kemur fram mikilvægi þess að Hlévangur falli ekki í skugga Nesvalla, hins nýja hjúkrunarheimilis við Njarðarvelli. Rík áhersla er lögð á að þjónustan sé sambærileg þannig að Hlévangur sé raunhæfur valkostur í sambanburði við Nesvelli. Allir sem til þekkja vita þó að enda þótt andrúmsloft og viðmót sé mjög gott á Hlévangi er orðið aðkallandi að ráðast í kostnaðarsamar viðhaldsframkvæmdir ef halda á húsnæðinu samanburðarhæfu við nútímakröfur í öldrunarþjónustu.
 
Nýlega kynnti heilbrigðisráðherra þá áætlun stjórnvalda að reisa á næstu árum 300 ný hjúkrunarrými til viðbótar við þau 250 sem þegar hafði verið tekin ákvörðun um. Þótt gert sé ráð fyrir að flest nýju rýmanna rísi á höfuðborgarsvæðinu er þó ekki enn búið að ráðstafa þeim öllum. Áætlunin skapar því einstakt tækifæri til að stíga fram og vinna að bættum aðbúnaði aldraðra með því að óska eftir því að hér verði reist nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúa samfara lokun Hlévangs. Sú leið fæli í sér fjölgun hjúkrunarrýma um 30 á Suðurnesjum sem fullnægði svæðinu vel til næstu ára. Þeir fjármunir sem færu annars í viðhald Hlévangs myndu þá nýtast í hlut sveitarfélaga í nýbyggingarkostnaðnum. Það er jafnframt raunhæfur kostur að selja húsnæði Hlévang undir ferðatengda starfsemi og afla með því enn meiri fjármuna til að kosta nýbygginguna.
 
Suðurnes eru skemmtilegur staður og höfum við á Hrafnistu haft mikla ánægju af starfi okkar þar. Við höfum átt mjög góða samvinnu við heimamenn við að bjóða öldruðum Suðurnesjamönnum upp á öldrunarþjónustu eins og hún gerist best hér á landi og viljum við endilega halda áfram þjónustu í þeim gæðaflokki. Það eru mikil tækifæri til að gera enn betur við aldraða íbúa á svæðinu.
 
Þuríður Elídóttir, forstöðumaður Hrafnstu í Reykjanesbæ, og Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024