Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Greinaskrifa-skuldastaða
  • Greinaskrifa-skuldastaða
Fimmtudagur 15. maí 2014 kl. 15:22

Greinaskrifa-skuldastaða

– hugleiðingar vegna skrifa Margeirs Vilhjálmssonar

Margeir nokkur Vilhjálmsson ekki-kjósandi í Reykjanesbæ geysist fram á ritvöllinn fyrir nokkrum dögum með spurningar greinilega ætlaðar þeim sem ekki stjórna hér í Reykjanesbæ en hafa boðið fram lista í næstu bæjarstjórnarkosningum. Engum spurningum er hins vegar beint að núverandi meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn  og vil ég því leyfa mér álykta að viðkomandi sé stuðningsmaður þeirra og myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn hér í bæ hefði hann tækifæri til.
 
Skuldastaða
Margeir nefnir að í greinaskrifum sé rætt um að skuldastaða Reykjanesbæjar sé vandamál. Til upplýsingar fyrir Margeir og þá sem þetta lesa, er rétt að fram komi að samkvæmt efnahagsreikningi Reykjanesbæjar 31. des. 2013 voru skuldir bæjarsjóðs 24,6 milljarðar og samanteknar skuldir (bæjarsjóður og fyrirtæki í eigu bæjarsjóðs) 40.4 milljarðar. Það er hin svokallaða greinaskrifaskuldastaða. Þetta hefur m.a í för með sér að fjármagnsliðir eru neikvæðir og gerir það að verkum að bæjarsjóður greiddi 539 milljónir í vaxtagjöld á síðasta ári. Einhver dótturfyrirtæki Reykjanesbæjar s.s. HS Veitur bera jákvæða fjármagnsliði en Reykjaneshöfn ein þarf að greiða 650 milljónir í vaxtagjöld en er með tæpar 220 milljónir í tekjur.
 
Og Margeir spyr „Hvernig á að takast á við vandann?“ 
Ég spyr hins vegar hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? 
Sjálfstæðismenn eru búnir að selja eignir fyrir 20 milljarða í tíð Árna Sigfússonar og félaga en þrátt fyrir það er Reykjanesbær eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins. 
 
Eru það ekki sjálfstæðismenn sjálfir sem skulda íbúum skýringar? 
Skuldavandi Reykjanesbæjar er mikill og það verður úrlausnarefni næstu ára að vinna úr honum. Vonandi mun fjölgun fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum hjálpa okkur í þeirri vinnu, annars er hætta á að við blasi niðurskurður á þjónustu. 
 
En við þurfum að vera raunsæ og takast á við vandann. Við leysum þetta ekki með kaupum á Lottomiðum og bið eftir stærsta vinningnum sem aldrei kemur. 
 
Margeir nefnir til sögunnar frístundarkort sem dæmi um aukin útgjöld sem verið er að boða þessa dagana. Honum og öðrum til upplýsingar þá myndi það kosta bæinn u.þ.b 20 milljónir að hækka frístundarkortin um helming úr 10.000 í 20.000. Ég er þess fullviss að bæði ég og Margeir værum ekki lengi að finna 20 milljónir í fyrirtæki sem veltir rúmum 9 þúsund milljónum á ári.
 

Hugmyndir um fjölgun starfa
Skv. stefnu Beinnar leiðar leggjum við áherslu á að sú fjárfesting sem lagt hefur verið í til atvinnuuppbyggingar skili arði. En það verður ekki gert á kostnað þess umhverfis sem við búum í. Við erum ekki bara STÓRU LAUSNA miðuð heldur líka LITLU LAUSNA miðuð og höfum enga trú á því að málinu verði bjargað með einu stóru fyrirtæki. Það hafa sjálfstæðismenn gert í áratugi og hver er svo árangurinn? Hann er MÚRBÚÐIN. 
 
Álver 
Álver í Helgvík hefur fengið öll tilskilin leyfi til þess að hefja rekstur og það mun enginn bæjarfulltrúi geta komið í veg fyrir það (hvaða flokki sem hann tilheyrir) . Við bíðum núna eftir því, í ljósi þess að nú er kominn vilhöll ríkissjórn, að framkvæmdir hefjist innan tíðar. 
 
Bæjarstjóraefni
Bein leið teflir ekki fram bæjarstjóraefni enda er það eitt af stefnumálum framboðsins að auglýsa eftir bæjastjóra og ráða þann hæfasta eða þá hæfustu í starfið.Við gefum okkur það ekki fyrirfram hver verður ráðinn í starfið, það vitum við ekki fyrr en að umsóknarfresti liðnum. Við deilum ekki þeirri sýn sjálfstæðismanna að bæjarstjórinn skuli vera pólitiskt ráðinn. Öll önnur sveitarfélög á Suðurnesjum hafa ráðið til sín bæjarstjóra og ég fæ ekki annað séð en að það hafi bara gengið ágætlega.  
 
Mér sýnist hins vegar að Margeir hafi ekki lesið stefnu Beinnar leiðar áður en hann skifaði þessa grein. Bein leið lofar ekki neinu heldur setur sér markmið og stefnu. Íbúar í Reykjanesbæ munu meta trúverðugleika þeirra frambjóðenda sem eru í kjöri.
Að loknu því mati er ég þess fullviss að þeir munu kjósa rétt til hagsbóta fyrir okkur öll. 
 
Guðbrandur Einarsson

í framboði fyrir Beina leið X-Y
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024