Atnorth
Atnorth

Aðsent

Grafalvarleg staða en líka jákvæð framtíð í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 13. janúar 2016 kl. 06:00

Grafalvarleg staða en líka jákvæð framtíð í Reykjanesbæ

- segir í áramótapistli bæjarstjórans

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir það sérstakt ástand og tvískinnung í því að til skamms tíma sé staða bæjarfélagins grafalvarleg en til lengri tíma mjög jákvæð og uppgangur framundan með auknum atvinnutækifærum. Bæjarfélagið sé þó í klemmu því miðað við fjölgun bæjarbúa þurfi að byggja skóla og styrkja innviði á næstu árum en það gæti orðið þrautinni þyngra á meðan unnið sé að því að lækka skuldir.

Hér er áramótapistill Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra en hann birtist á síðu Reykjanesbæjar:

Árið 2015 var Reykjanesbæ að flestu leyti hagstætt. Atvinnuleysi dróst verulega saman, bæjarbúum sem þurftu fjárhagsaðstoð fækkaði, skólastarf gekk vel, fasteignamarkaðurinn lifnaði við, Ljósanótt tókst vel og íþrótta- og menningarlíf blómstraði. Bæjaryfirvöld unnu, í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa, að endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins en ekki tókst að ljúka þeirri vinnu á árinu. Henni verður því haldið áfram á nýbyrjuðu ári.

Atvinnumál

Atvinnuleysi dróst mikið saman á árinu og allt útlit er fyrir að skortur verði á starfsfólki í ýmis störf á nýju ári. Uppbygging kísilvera á iðnaðarsvæðinu í Helguvík gekk skv. áætlun hjá United Silicon en áform Thorsil hafa dregist en útlit fyrir að þau gangi eftir á árinu. Önnur stór verkefni eru ekki í hendi í Helguvík. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar og kynntar óformlega en engar ákvarðanir teknar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Uppbygging atvinnulífs á Ásbrú gekk vel skv. upplýsingum frá Kadeco, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, og útlit fyrir að búið verði að ráðstafa öllu núverandi atvinnu- og íbúðarhúsnæði svæðisins fyrir árslok 2017.  Það er því margt sem bendir til þess að íbúum Reykjanesbæjar muni fjölga umtalsvert á næstu árum, sem til skemmri tíma kallar á mikla fjárfestingu í t.d. leik- og grunnskólum en er til lengri tíma litið líklegt til að auka hagkvæmni í rekstri. Aukin atvinna hefur leitt til þess að þörf íbúa fyrir fjárhagsaðstoð af hálfu sveitarfélagsins hefur minnkað og er það vel.

Rafræn íbúakosning

Nokkur vinna fór í að undirbúa og framkvæma rafræna íbúakosningu vegna deiliskipulagsbreytinga í Helguvík. Verkefnið var á margan hátt lærdómsríkt og mun sú vinna sem í það fór sú reynsla sem varð til örugglega nýtast vel við framkvæmd íbúakosninga í framtíðinni.

Skólamál

Námsárangur í grunnskólum var góður á nýliðnu ári sem og starf í leikskólum. Starfsfólk skólanna fylgir mjög eindregið þeirri stefnu sem mörkuð var fyrir nokkrum árum; að mennta okkur út úr kreppunni. Áherslur á læsi og stærðfræði má til dæmis greina í öllu skólastarfi yngstu bæjarbúanna og er það vel.

Menningarlíf, ferðaþjónusta og vinabæjarsamstarf

Ljósanótt var haldin í 16. sinn á árinu og þótti takast mjög vel. Listafólk, ýmsir menningarhópar, fyrirtæki, verslanir o.fl. héldu uppi stanslausri og metnaðarfullri dagskrá í marga daga sem tugþúsundir gesta sóttu.

Íbúar og rekstraraðilar í ferðaþjónustu urðu varir við aukinn fjölda ferðamanna eins og aðrir landsmenn. Reykjanes Geopark fékk gæðavottun sem viðurkenndur jarðvangur UNESCO og opnuð var sýning og upplýsingastofa fyrir jarðvanginn í gamla bryggjuhúsi Duus-húsa.

Hljómahöll hélt úti fjölbreyttri dagskrá allt árið og Rokksafn Íslands var vel sótt. Einkasýning Páls Óskars hefur algjörlega slegið í gegn. Rekstur Víkingaheima var leigður einkaaðilum sem hyggja á mikla uppbyggingu á svæðinu.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan, voru veitt í 19. sinn við hátíðlega athöfn í Duus húsum. Að þessu sinni féll súlan í skaut Rannveigar Garðarsdóttur, leiðsögumanns.

Vinabæjarsamstarf Reykjanesbæjar við vinabæi hinna Norðurlandanna, þ.e. Trollhattan í Svíþjóð, Kerava í Finnlandi, Kristiansand í Noregi og Hjörring í Danmörku, var til umræðu á árinu. Bæjarstjóri sótti einn fund ásamt bæjar- og borgastjórum vinabæjanna þar sem m.a. var tilkynnt að Hjörring væri hætt í þessu gamalgróna samstarfi. Hin sveitarfélögin fjögur uppfærðu og endurnýjuðu í framhaldinu samstarfssamning sinn.

Íþrótta- og tómstundamál

Íþróttafólk í þúsundatali hélt uppi merkjum sinna íþróttafélaga og sveitarfélagsins á fjölmörgum sviðum. Allir Íslandsmeistarar félaganna voru heiðraðir á gamlársdag. Tómstundastarf ungra sem aldinna var vel sótt og sú aðstaða sem sveitarfélagið býður uppá vel nýtt.

Málefni fatlaðs fólks

Reykjanesbær, eins og önnur sveitarfélög á Íslandi, tók að sér að annast málefni fatlaðs fólks árið 2011 en málaflokkurinn var áður á hendi ríkisins. Upphaflega var samið um 4ra ára tilraunatímabil frá 2011-2014 en síðan bætt við einu ári þ.e. 2015. Á þessu 5 ára tímabili hafa kostnaður Reykjanesbæjar, og margra annarra sveitarfélaga, farið talsvert fram úr þeim fjárveitingum sem fylgdu málaflokknum upphaflega frá ríkinu. Starfsmenn sveitarfélaganna hafa þó lagt sig alla fram og lært heilmikið á þessum tíma. Nú hefur verið gengið frá yfirfærslunni til framtíðar og mun Reykjanesbær leggja sig fram um að veita fötluðum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á skv. lögum.

Fjármál

Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu Sóknarinnar; áætlunar sem bæjaryfirvöld samþykktu haustið 2014 að hrinda í framkvæmd eftir mikla vinnu KPMG og fleiri ráðgjafa við úttekt á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Sóknin samanstendur af 4 meginþáttum; A) að bæta framlegð í rekstri A-hluta bæjarsjóðs B) að halda fjárfestingum í nýjum innviðum í lágmarki C) að endurskipuleggja skuldir Reykjanesbæjar og D) að stöðva fjárstreymi frá A-hluta bæjarsjóðs yfir til fyrirtækja og stofnanna í B-hluta starfseminni s.s. Reykjaneshafnar og Fasteigna Reykjanesbæjar.

Staðan í einstökum þáttum er nú þannig:

A)     Bætt framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Útlit er fyrir að með samstilltu átaki sé starfsmönnum, stjórnendum og bæjaryfirvöldum að takast, með ýmsum hagræðingaraðgerðum en einnig auknum álögum á bæjarbúa, að auka framlegð úr grunnrekstri A-hluta bæjarsjóðs verulega. Framlegðin dugir þó hvergi til að standa undir afskriftum, vöxtum og fjárfestingum og mun ekki gera næstu árin nema takist að lækka skuldir og um leið vaxtagjöld. Á meðan er útlit fyrir stöðugan hallarekstur A-hluta sem er auðvitað óásættanlegt og ólöglegt.

B)      Fjárfestingum í nýjum innviðum hefur verið haldið í algjöru lágmarki. Áhersla hefur verið lögð á að ljúka við verkefni sem þegar voru hafin, s.s. stækkun leikskólans Hjallatúns. Að öðru leyti halda menn að sér höndum og gera eins lítið og hægt er. Þó er ljóst að ekki verður hjá því komist að hefja byggingu nýs grunnskóla innan tíðar. 

C)      Vinna við endurskipulagningu skulda Reykjanesbæjar hefur fyrst og fremst falist í undirbúningi, gagnaöflun, greiningu og viðræðum við kröfuhafa með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver raunverulegur skuldavandi sveitarfélagsins er. Sú vinna gengur mun hægar en vonast var til enda gerólík sjónarmið uppi um þessi flóknu mál. Þegar niðurstaða í þeim viðræðum liggur fyrir verður vonandi hægt að átta sig á, miðað við sameiginlega framtíðarsýn bæjaryfirvalda og kröfuhafa, hvað þarf til þess að Reykjanesbær geti veitt íbúum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á en um leið staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og komist undir lögboðið 150% skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir árslok 2022.

D)     Vinna við að stöðva helst alveg fjárstreymi frá A-hluta bæjarsjóðs yfir til B-hluta fyrirtækja hófst á árinu. Fyrstu merki um breytt vinnubrögð komu í ljós þegar B-hluta fyrirtækið Reykjaneshöfn gat ekki greitt af lánum sínum sl. haust og bæjarráð og bæjarstjórn höfnuðu beiðni stjórnar Reykjaneshafnar um lán úr A-hluta bæjarsjóði. Niðurstaðan varð sú að kröfuhafar Reykjaneshafnar gáfu höfninni frest til 15. janúar 2016 til að ráða ráðum sínum.

Ekki tókst að lækka rekstrarkostnað Fasteigna Reykjanesbæjar eins og til stóð. Félagið sér um útleigu á félagslegu húsnæði og hafa leigutekjur aldrei staðið undir rekstrarkostnaði félagsins og því verið stöðugur hallarekstur á félaginu. Nýtt skipulag Fasteigna Reykjanesbæjar tók gildi 1. janúar 2016 og verður árið notað til að greina og hagræða eins og hægt er. Ef það dugir ekki verður að grípa til annarra aðgerða.

Lokaorð

Árið 2015 var um margt sérstakt. Á sama tíma og áhersla var lögð á að veita sem bestar upplýsingar um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar, sem virtist koma mörgum á óvart, fóru hjól atvinnulífsins að snúast og fjölmörg ný tækifæri blasa nú við. Þannig gátu birst samdægurs í fjölmiðlum annars vegar neikvæðar fréttir og viðtöl um grafalvarlega fjárhagstöðu sveitarfélagsins og hins vegar jákvæðar fréttir um fjölgun atvinnutækifæra og mikinn uppgang. Tvískinnungurinn í þessu er sá að staðan til skamms tíma er vissulega grafalvarleg, og kallar á róttækar aðgerðir svo takast megi að lækka skuldir, en til lengri tíma er útlitið bjart. Þeirri miklu uppsveiflu, sem nú er í spilunum, fylgir mikill framhlaðinn kostnaður vegna fjárfestinga af hálfu sveitarfélagins í nýjum innviðum. Eins og skuldastaðan, vaxtabyrði, rekstrarforsendur og skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga eru núna er ekki gott að sjá hvernig á að fjármagna slíkar framkvæmdir. Til lengri tíma munu slíkar fjárfestingar væntanlega skila arði og borga sig en kapphlaupið núna gengur út á að lækka skuldir og ná skuldaviðmiðinu niður fyrir 150% fyrir árslok 2022, sem er eftir aðeins 6 ár. Það er í hnotskurn klemman sem við erum í.

Bæjarbúum fjölgaði nokkuð á árinu 2015 þrátt fyrir auknar álögur. Húsnæðismarkaðurinn hefur tekið vel við sér og útlit fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa. Með auknum atvinnutækifærum er líklegt að fyrirtæki á svæðinu reyni að laða til sín ungt, vel menntað fjölskyldufólk sem mun styrkja allar undirstöður sveitarfélagins til framtíðar. Við getum því horft björtum augum til framtíðar, eigum að bera höfuðið hátt og vera stolt af bænum okkar.

Kær kveðja,

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri