Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Græddur er geymdur eyrir
  • Græddur er geymdur eyrir
Föstudagur 23. maí 2014 kl. 11:00

Græddur er geymdur eyrir

Halldóra Hreinsdóttir skrifar.

Allt of margt ungt fólk hefur fjárhagsáhyggjur í dag. Það er sama hversu duglegt ungt fólk er, freistingar neyslusamfélagsins eru allsstaðar. Það er aldrei of seint að byrja að spara. Til er viðmið um hvenær best sé að gróðursetja tré og svarið er að best sé að hafa gert það fyrir 4 árum en næst best er að gera það í dag.

Bíddu í viku
Ungt fólk er oft vanmáttugt gagnvart umræðu um fjármál vegna þess að umræðan er gerð svo flókin. Við þurfum að aðstoða og kenna ungu fólki að bera virðingu fyrir verðmætum og vera sinn eigin herra í fjármálum. Eitt ágætt ráð er að þegar þig langar að kaupa hlut, reyndu þá að bíða í viku og sjáðu þá til hvort þig langar enn jafn mikið í hlutinn.

Minni virðing
Vandi okkar endurspeglast því miður í minnkandi virðingu fyrir verðmætum. Hlutum er fleygt þó þeir séu vel nothæfir og við fleygjum mat fyrir tugi þúsunda á ári. Svo er það afar slæmt þegar forystumenn og fyrirmyndir sína ekki gott fordæmi. Eyðsla umfram efni í von um að tekjur komi seinna eru röng skilaboð.

318.is
Haukur Hilmarsson, ráðgjafi hjá Reykjanesbæ, heldur úti frábærri síðu þar sem verið er að auðvelda foreldrum að ræða um fjármál við krakkana. Á síðunni eru líka góðar leiðbeiningar fyrir okkur öll. Ég mæli eindregið með því sem Haukur er að gera og vildi gjarnan sjá að hægt yrði að færa þessa nálgun hans meira inn í skólana. Hver hefur ekki hugsað út í það að vilja kenna barninu sínu um fjármál? En hvernig gerum við það, á hverjum eigum við að byrja?

Byrgjum brunninn
Vefur þessi er enn í vinnslu en hægt er að byrja að skoða það sem komið er, einnig er hægt að koma með ábendingar til Hauks. Efnið er hlutað niður eftir aldri og er frá 3 ára og upp í 18 ára. Til dæmis er í efni fyrir 17 til 18 ára verið að tala um sparnað fyrir bílprófi. Ég myndi ráðleggja þeim foreldrum sem hafa áhuga á að skoða þetta með börnunum að skoða allt efnið með þeim strax, bara til að sýna þeim hvað kemur seinna meir. Einnig geta börnin viljað fara að spara fljótt fyrir bílprófi.

Mikilvægt er að kenna börnunum okkar að spara sjálf peninga og ekki rétta þeim allt upp í hendurnar án viðhafnar.

Halldóra Hreinsdóttir, viðskiptafræðingur,

skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjanesbæ og er formaður foreldrafélags Akurskóla.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024