Göngum til verka – tryggjum atvinnu
Á laugardaginn verður kosið um framtíðina. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því verkefni að endurreisa efnahag landsins. Við það verkefni er þörf á hugrökku fólki sem leggur fram lausnir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá stofnun flokksins sett atvinnumál í forgang enda er ljóst að ef atvinnulífinu gengur vel þá gengur heimilunum vel. Við Sjálfstæðismenn ætlum að tryggja að í landinu verði til ný störf á kjörtímabilinu auk þess að vernda þau störf sem fyrir eru.
Sköpum störf – eyðum atvinnuleysi
Atvinnuleysi er ekki þolandi og við Sjálfstæðismenn munum aldrei sætta okkur við að það verði viðvarandi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram tillögur sem eru raunhæf leið til að skapa þau störf sem þarf til að eyða atvinnuleysi. Það gerum við með því að byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir rekstur og atvinnulíf. Í kringum orkufrekan iðnað, öflugan landbúnað og sterkan sjávarútveg skapast fjöldi afleiddra starfa hjá tækni- og þekkingarfyrirtækjum og einyrkjum auk tækifæra í nýsköpun.
Ég trúi á fólkið í landinu. Ég trúi því að ef við byggjum á framtaki og hugmyndaauðgi einstaklingsins þá sé framtíðin björt.
Í hnotskurn
Barátta okkar Íslendinga næstu mánuði felst í því að skapa fleiri störf í landinu. Framtak og framsýni einstaklinganna er sterkasta vopnið í þeirri baráttu.
Unnur Brá Konráðsdóttir skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi