Golfsettið í skúrinn
Í nær 18 ár hef ég starfað með Knattspyrnudeild Keflavíkur og komið að ýmsum þáttum í starfsemi deildarinnar. Ég stofnaði K-klúbbinn fyrir sautján árum og í kringum hann starfaði ég lengi. Ég hélt utan um 2. flokk karla í nokkur ár og sá um búningana fyrir og eftir leiki. Sat einnig sem varamaður í stjórn í nokkur ár og hef nú setið í stjórn sl. 8 ár.
Það er mjög gefandi að taka þátt í svona starfi en maður verður að átta sig á að meðfram svona starfi er ekki tími fyrir annað hobbý, ég lét t.d golfkylfunar í bílskúrinn. Allan þennan tima hefur reynst erfitt að fá fólk til starfa.
En nú bregður svo við að í fyrsta skipti sem ég man eftir kemur fram framboð gegn sitjandi formanni. Í raun hefur aldrei þurft að kjósa um stjórnarmenn. Það fáir hafa sótt um. Ég verð að segja að ég er hissa. Að koma inn í stjórn knattspyrnudeildar án þess að í raun þekkja út á hvað þessi rekstur gengur er meira en að segja það.
Þeir formenn sem ég hef starfað með voru búnir að starfa innan deildarinnar og öðlast reynslu áður en þeir tóku við sem formenn. Hvað er síðan sett út á, jú að það þurfi að aðskilja starf framkvæmdastjóra og formanns.
Þetta fyrirkomulag sem nú er við lýði, að sami aðili gegni báðum stöðunum hefur verið síðan núverandi formaður tók við og hefur að mínu mati heppnast vel. Formaður þarf í raun að geta fengið sig lausan úr vinnu hvenær sem er á dagvinnutíma til að sinna formannsskyldum. Er hægt að ætlast til að vinnuveitandi hafi þann skilning? Jafnvel þó að málefnið sé gott?
Auðvitað kemur að því að aðrir og nýir aðilar taki við stjórnartaumunum en ég tel að það þurfi samt visst uppeldi og reynslu áður. Ég hefði kosið með tilliti til knattspyrnunnar hér í Keflavík að menn hefðu komið inn í starf deildarinnar til að sjá og læra út á hvað þetta gengur. Þetta lærist ekki á hálftíma. Að þurfa jafnvel að manna allar stöður aðal- og varamanna á einni kvöldstund ásamt því að taka við rekstri deildarinnar er ekki neitt nema kraftaverk.
Kveðja,
Einar Helgi Aðalbjörnsson
Ritari Knattspyrnudeildar Keflavíkur.