Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Góður leikskóli
Fimmtudagur 27. september 2007 kl. 11:17

Góður leikskóli

Leikskólar starfa á mjög ólíkan hátt innan ramma aðalnámskrár leikskóla. Hér í Reykjanesbæ er einstaklega skemmtileg og fjölbreytt flóra leikskóla.  Foreldrar hafa val um hvernig leikskóla barnið þeirra gengur í.  Viltu að barnið þitt stundi nám samkvæmt Reggio Emilia, tónlistarstefnu, heilsustefnu, Hjallastefnu, vettvangsferðum og svo má lengi telja.  Leikskólar í Reykjanesbæ eru mjög ólíkir en allir vinna þeir gott starf hver á sínu sviði.  Í þessu greinarkorni langar mig að upplýsa hvernig starf í anda Reggio Emilia fer fram í leikskólanum Holti og vona ég að fólk hafi gagn og gaman af. Nánar er hægt að lesa um leikskólann og starfið á vefsíðu okkar http//reykjanesbaer.is/holt.

Er skapandi starf í leikskóla mikilvægt?

Nú á dögunum var stofnað félag áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia ( SARE).  Ég ásamt starfsfélögum mínum í leikskólanum Holti erum stofnfélagar þar. 


Hvað er starf í anda Reggio Emilia?
Hugmyndafræði Reggio Emilia er runnin upp á norður Ítalíu.  Sálfræðingurinn Loris Malaguzzi  ásamt samstarfsmönnum sínum mótuðu starfsaðferðina.  Loris Malaguzzi sagði að börn hefðu ,,100 mál”  og það ætti að hvetja börnin til að nota öll sín skilningarvit og þá hæfileika sem þau búa yfir.  Til að börn geti tjáð sig þurfa þau verkefni til að vinna úr og festa í minni reynslu sína.  Hann sagði að leikskólinn ætti að vera lifandi staður í stöðugri þróun,  þar sem börn og fullorðnir gætu verið í góðu sambandi hvert við annað. Leikskólinn á að vera í stöðugri þróun líkt og samfélagið.                           
Það sem einkennir Reggio skólana er fyrst og fremst trú á getu barna, og trú á að þau hafi vit og vilja til að taka þátt í og móta það starf sem fram fer. Áhersla er á lýðræði og að börn séu skapandi, sjálfstæð, virk og frumkvöðlar í sínu lífi en ekki bara fylgjendur.  Reggio leikskólar líkjast verkstæðum og mikil fjölbreytni er í efnivið og vinnu. Námskráin er flæðandi og endurskoðuð reglulega og unnin eftir hverjum tíma. Á Holti vinnum við eins konar verkstæðisvinnu, börnin geta valið verkstæði eftir áhuga sínum.  Allur efniviður er sýnilegur og aðgengilegur fyrir börnin.  Börnin eru þátttakendur í að móta það sem gert er og námskrána. Talað er um þrjá kennara það er barnið sjálft, hinn fullorðni (kennari og foreldri) og umhverfið.  Umhverfi leikskólans þarf að vera skapandi og áhersla á að örva fegurðarskyn og áhuga barnsins.  Miklar heimsspekilegar áherslur eru í starfi í anda Reggio Emilia, mikið er lagt upp úr samræðum, vangaveltum og þekkingarleit er í hávegum höfð. 

Svo ég svari upphafs spurningu minni já skapandi starf er nauðsynlegt.  Við kennarar í leikskólanum Holti teljum skapandi starf mikilvægt fyrir þroska einstaklingsins og í leikskólauppeldi.  Börnin fá að upplifa hlutina á margvíslegan hátt sem gefur þeim tækifæri til að kynnast viðfangsefninu frá mörgum sjónahornum og þar af leiðandi ná að skilja hlutina í betra samhengi með því að ræða saman, upplifa, reyna sjálft og skapa.  Þau þurfa að semja sín á milli um hvaða leið að viðfangsefninu er vænlegust. Þá reynir á  lýðræði, rökræður, gagnrýna hugsun og samninga.
Að fá að upplifa og skapa með öllum skynfærum sínum eru forréttindi.

Kristín Helgadóttir leikskólastjóri í leikskólanum Holti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024